Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
3.4.2008 | 00:45
Góður Geir og smá Milton
Horfði á Kastljós frá í gær (1. apríl) nú í kvöld. Þar sat Geir Haarde fyrir svörum hjá Sigmari sem var á köflum nokkuð aðgangsharður án þess þó að fara yfir strikið. Umræðuefnið var efnahagsmál, meint aðgerðarleysi rikisstjórnarinnar og fleira því tengt. Ekki er hægt að segja annað en að forsætisráherra hafi staðið sig vel enda fáir stjórnarliðar sem þekkja betur til efnahagsmála og fylgjast jafn vel með þróun mála á fjármálamörkuðum og Geir. Gott var að sjá Geir er bjartsýnn þrátt fyrir allt - enda er bjartsýni og trú á því að geta ráðið fram úr vandanum (hver sem vandinn kann að vera) forsenda og í raun fyrsta skrefið í því að ráða fram úr vandanum.
Eitt mætti forsætisráðherra og ríkisstjórn Íslands þó velta fyrir sér þessa dagana sem heldur lítið hefur farið fyrir. Það eru ríkisútgjöld og þörfin fyrir að halda þeim í skefjum. Ágætt ráð til þess er að draga úr tekjum ríkisins með skattalækkunum hvort sem er á eldsneyti, launatekjur eða annað. Það er nefnilega ólíklegt að velviljaðir stjórnmálamenn í samvinnu við aðgangsharða sérhagsmunahópa dragi mikið úr kröfum sínum um fjárframlög úr ríkissjóði á meðan sá ágæti sjóður stækkar í takt við almennar verðlagshækkanir. Við hefðum kannski gott af smá hallarekstri á ríkissjóði til að minna fjárhirða þess á aðgæslu og aðhald.
Best að enda þetta á gömlu klippi en samt sígildum boðskap frá Milton Friedman.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2008 | 09:42
Gott gabb: Bíll til sölu
Dætur mínar gerðu nokkuð gott gabb í mér í gær (1. apríl). Ég þurfti allavega að "hlaupa" fram fyrir bílinn og skoða hvað þetta væri... ...mjög vandað :)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.4.2008 kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2008 | 21:34
Fitna: Ógeðfelld mynd, þarft innlegg
Nú hefur kóran-krítíska stuttmyndin Fitna verið fjarlægð af vefsæðinu LifeLeak eftir að starfsmönnum þess hafði borist alvarlegar hótanir (sbr. frétt JP og frétt MBL). Ekki laust við að þessi atburðarás renni stoðum undir þá staðhæfingu sem myndin felur í sér að Islam og Kóranin boði ofbeldi og "terror". Enn er þó hægt að sjá myndina á YouTube (á fleiri en einum stað raunar).
Þótt Fitna sé í sjálfu sér ekkert meistaraverk í kvikimyndagerð (í raun lítið annað en áróðursmyndband þar sem einu sjónarmiði er haldið á lofti) er hún að vissu leyti þarft innlegg í umræðuna um árekstur Islam við vestræn gildi. Sú umræða einkennist nefnilega enn oft af hræðslu við að ræða tiltekna þætti sem sjálfsagt væri að taka inn í umræðuna - til að mynda spurningum um það hvort Íslam boði ofbeldi gagnvart "vantrúuðum", konum, samkynhneigðum, gyðingum eða öðrum og hvort vesturlöndum og vestrænum gildum stafi hætta af þeim múslímum sem fylgja slíku boði (sé það til staðar).
Það er því miður ekki að ástæðulausu sem slíkar spurningar skjóta upp kollinum. Oftsinnis höfum við séð hryðjuverkamenn réttlæta óhæfuverk sín með beinum tilvitnunum í Kóraninn eða með vísan í gjörðir Múhameðs spámanns sem í lifanda lífi gekk bókstaflega milli bols og höfuðs á andstæðingum sínum. Í því samhengi er rökrétt og málefnalegt að velta upp hvert innihald Islam sé og hvort það kunni að skýra ástandið. Það er því billegt að afgreiða þess háttar inlegg sem Fitna er sem "islamofóbíu" og beinlýnis skaðlegt fyrir umræðuna að gera málefnaleg sjónarmið að tabú eins og bæði íslamistar og naívistar reyna að gera.
Nú er Fitna kannski ekki sérlega sófistikeruð framsetning. Ayaan Hirsi Ali tekst til að mynda mun betur til í bók sinni, Frjáls, að koma á framfæri svipuðum boðskap og Fitna. Hversu ógeðfelld sem myndin kann að þykja á boðskaður hennar erindi við okkur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.3.2008 kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2008 | 01:01
Horft jákvæðum augum á heiminn
Eins og mbl.is greindi frá nú i kvöld var stuttmyndin Fitna gerð opinber í dag á vefsvæðinu LifeLeak. Nú er æði margt sem hægt er að segja um þessa mynd en ekki síður um viðbrögðin sem hún hefur vakið - ótti og taugaveiklun, ritskoðun og fleira.
Áður en ég geri tilraun til að skrifa nokkuð um þessa mynd væri ekki úr vegi að benda á stutt myndband af YouTube þar sem ungur og ágætlega máli farinn maður gerir tilraun til að horfa björtum augum á framtíðina og á það sem sameinanar fremur en það sem sundrar fólki. Það er óneitanlega upplífgandi að sjá þarna jákvæða, friðsamlega og kærleiksfulla túlkun á Islam sem þessi maður virðist tileinka sér.
Umdeild kvikmynd á vefnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.3.2008 | 16:22
Ayaan Hirsi Ali ræðir um forsendur framfara
Einhvern rigningardaginn ætla ég mér að skrifa færslu um Ayaan Hirsi Ali enda held ég mikið uppá þá merku og hugrökku konu. Þangað til læt ég nægja að benda á stuttan fyrirlestur sem Ayaan hélt fyrir samtök trúleysingja í Washington borg. Þótt ég sé sjálfur ekki trúleysingi get ég vel tekið undir niðurstöðu Ayaan um að skynsemi, rökhyggja og ekki síst frelsi sé forsenda framfara og að trúarbögð og siðir sem svipta enstaklinga frelsi séu andstæð þeim grunngildum sem vestræn menning og velmegun byggir á og því sé nauðsynlegt að sporna gegn framgangi slíkra trúarbragða.
Í myndskeiðinu hér að neðan fer Ayaan í stuttu máli yfir lífsferil sinn sem mótað hefur hana og skoðanir hennar. Ég mæli reyndar með lestri ævisögu hennar, Frjáls (e. Infidel), sem er mjög áhrifamikil lesning.
3.3.2008 | 16:45
Það læra börnin...
... sem fyrir þeim er haft.
Í grein í hinum "alræmda" Jótlandspósti í dag er sagt frá því að í sjónvarpsþætti fyrir börn á einni sjónvarpsstöð Hamas hafi danska skopmyndateiknaranum Kurt Westergaard verið hótað lífláti! Gefur ekki beinlýnis fyrirheit um að komandi kynslóð muni geta borið klæði á vopnin.
Skyldi verða sagt frá þessu í íslenskum fjölmiðlum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2007 | 23:02
Að standa fyrir eitthvað
Bush er semsagt fyrsti forseti USA til að hitta Dalai Lama opinberlega! Það væri nú óskandi að fjölmiðlar tækju sér hlé á því að gera grín að þessum manni (þ.e. Bush, man ekki til þess að mikið hafi verið gert grín að Lama) og veltu því fyrir sér hvort hugsanlega gæti þarna verið á ferðinni forseti sem fylgir sannfæringu sinni jafnvel þótt það sé óvinsælt. Flestallir þjóðarleiðtogar (þ.m.t. okkar ÓRG) pakka nefnilega gjarnan prinsippum og fagurgala um mannréttindi niður í aðrar töskur en þær sem farið er með í heimsókn til Kínverja. Þess vegna er þessi virðingarvottur Bush við Dalai Lama þeim mun kærkomnari.
Að berjast fyrir frelsi er nefnilega nokkuð sem stundum krefst fórna og enda þótt Bush hafi oft verið legið á hálsi fyrir að vera ofstækismaður í trúmálum er varla hægt að bera á móti því að þarna er Bush að leggja lóð á vogarskálarnar í baráttu Tíbet gegn ofbeldi og oki Kínverja sem ekki síst beinist gegn trúarbrögðum Tíbetbúa.
Annar forseti Bandaríkjanna, Ronald Reagan, var á sínum tíma ekki álitinn mjög sófistíkeraður af elítumönnum og var gert óspart grín að frösum hans og meintri einfeldni. Sagan hefur hins vegar sýnt að Reagan var enginn fáráður og þótt Bush sé ekki Reagan tel ég ekki ólíklegt að harður dómur samtímans eigi eftir að breytast nokkuð þegar fram líða stundir.
Bush fundaði með Dalai Lama þrátt fyrir hörð mótmæli kínverskra yfirvalda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.10.2007 | 23:57
Ronda Byrne og The Secret fá friðarverðlaun Nóbels
Fyrirvari: Fyrirsögin hér að ofan er ekki sönn... ...ekki enn að minnsta kosti.
Eftir að hafa reynt í nokkra daga að tegra þá staðreynd að Al Gore skuli hafa verið tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels hef ég loks áttað mig á því hvernig er í pottinn búið.
Hressu krakkarnir í norsku Nóbelsverðlaunanefndinni eru í raun listamenn sem eru í þann mund að fremja pólitískan gjörning - nokkurs konar "finnið fimm villur" - þar sem venjulegu fólki gefst tækifæri til að sjá í gegnum pólitískan rétttrúnað, félagsleg afstæðishyggju eða hvað við kjósum að kalla það þegar einföldum lögmálum um rétt og rangt er snúð á hvolf í froðukenndu bulli.
Gjörningurinn felst í því að Nóbelsverðlaunanefndin verðlaunar góða og heiðarlega einstaklinga eða samtök sem sannarlega hafa skarað framúr í barráttu fyrir friði í heiminum en smyglar svo inn á milli bull tilnefningum sem fyrst og fremst haf það gildi að athuga hvort fólk átti sig á fáránleikanum sem þær bera með sér.
Maður hefði sjálfsagt átt að fatta að hér væri á ferð einhverskonar "social experiment " eða bara grín þegar leiðtogi hryðjuverkasamtakanna PLO, Yasser Arafat, hlaut tilnefningu árið 1994.
Nýjasta "litmus testið" er augljóslega tilnefning Albert Arnold Gore Jr. (oftast kallaður Al Gore) sem undanafarin misseri hefur ekki einasta nýtt sér Internetið (sem á íslensku ætti að kalla Al-netið af augljósum ástæðum) til að breiða út boðskap sinn heldur hefur hann lagt á sig þrotlaus ferðalög um allan heim í þröngum og hávaðasömum einkaþotum í óeigingjarnri baráttu fyrir áframhaldandi lífi hér á jörð.
Einn góðan verðurdag - helst hlýjan og sólríkan - tek ég mig til og skrifa nokkur orð um það sem mér finnst um hnattræna hlýnun af mannavöldum en þangað til læt eg mér nægja að benda á þetta og kannski þetta.
Ætli það komi ekki að því að Ronda Byrne og hinir nýaldar-efnishyggju-bullararnir á bak við The Secret verði tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels en það munu sennilega ekki margir kippa sér upp við það.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.10.2007 kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2007 | 00:13
Ekki meir, ekki meir
Ekki laust við það að fólk spyrji sig hvenær holan sé orðin nægilega djúp til að þessi ágæti maður hætti að grafa.
Spurning hvort einhver svör í þessum harmleik sé að finna í tendrun friðarsúlunnar sem jú fær orku sína frá OR. Þeir sem sáu og hlíddu á ræðu fráfarandi borgarstjóra við það tilefni gátu ályktað að þarna talaði maður á öðru tungumáli en sínu eigin móðurmáli. Það vekur mann til umhugsunar um hvort það geti verið að Viljálmur hafi hreinlega ekki skilið eða reynt að skilja þá samninga sem fyrir hann voru lagðir? Minnisblaðið var reyndar á íslensku þannig að þessi teóría heldur kannski ekki.
Nú í kvöld var Kastljósinu enn og aftur beint að þessu máli og ekki jókst hróður borgarstjórans fráfarandi við það. Er ekki tími til kominn að einhver klippi hann niður úr þessu tré því hann virðist ekki ætla að koma niður af sjálfsdáðum. Geir, Davíð... ...einhver.
Minnist þess ekki að hafa séð minnisblaðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.10.2007 | 19:03
Pólitísk sátt vikunnar
Í morgunblaðinu í dag er viðtal við núverandi borgarstjóra Reykjavíkur sem í síðustu færslu minni haut þann heiður að vera útnefndur maður vikunnar. Í viðtalinu reynir Vilhjálmur að útskýra þá þróun sem orðið hefur í Orkuveitu Reykjavíkur með stofnun REI og sameininingu þess við GGE. Fyrir utan gamalkunnar vendingar um að verið sé að gæta hagsmuna borgaranna segir borgarstjórinn m.a. að:
Á undanförnum árum hafi verið pólitísk sátt um starfsemi OR nema hvað fulltrúar Vinstri grænna hafi verið á annarri skoðun upp á síðkastið...
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson í viðtali í Morgunblaðinu 6. okt. 2007
Það er nebblega það. Mótmæli Sjálfstæðismanna yfir framgögnu R-listans á síðasta og þarsíðasta kjörtímabili yfir málefnum OR (byggingu höfuðstöðva, Línu.net, risarækjum og almennt óráðsíu) hljóta því að vera einhver misskilningur. Ræður, greinar og bókanir Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og annara Sjálfstæðismanna sem reyndu að standa vörð um hagsmuni skattgreiðenda voru þá ekki eiginleg mótmæli heldur frekar nokkurskonar stuðningsyfirlýsing. Gott að vita það. Bara smá grín hjá Gulla.
Samþykkt að endurskoða sölu á hlutabréfum í REI | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)