„Dólgafrjálshyggja” í Háskóla Íslands

Eftirfarandi grein eftir mig birtist í Morgunblaðinu í dag - 15. september 2010.

Tagline DólgafrjálshyggjaStjórnmálaumræða á Íslandi hefur oft verið skrýtin, stundum skemmtileg og  stöku sinnum jafnvel uppbyggileg og málefnaleg. Að undanförnu hefur umræðan þó einkum verið dapurleg. Hér er ekki átt við furður í bloggheimum eða nafnlausan rógburð í netmiðlum. Hér er átt við orðræðu vanstilltra stjórnmálamanna hvort heldur sem er úr ræðustóli Alþingis eða í viðtölum við fréttamenn. Oft má því miður sjá þreytu og stundum reiði og heift en rökstuddur málflutningur, skýr framtíðarsýn og málefnaleg skoðanaskipti eru sjaldséð. Þótt skiljanlegt sé að álag hafi áhrif á dómgreind og valdi ójafnvægi verður að gera þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir fari fram með sæmilegu fordæmi. Hins vegar ætti fólk að geta treyst því að umræða um þjóðmál í háskólasamfélaginu hvíli á traustum grunni.

Ég gerði mér því vonir um vandaða og upplýsandi umræðu þegar ég sá auglýsta fyrirlestrarröð sem Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands og EDDA öndvegissetur, sem einnig er sjálfstæð rannsóknarmiðstöð innan Háskóla Íslands standa fyrir þessar vikurnar og fjallar um frjálshyggju. Tilefni fyrirlestranna er útgáfa bókarinnar „Eilífðarvélin: Uppgjör við nýfrjálshyggjuna” sem Þjóðmálastofnun gefur út undir ritstjórn Kolbeins Stefánssonar, sérfræðings Þjóðmálastofnunar og doktorsnema í félagsfræði, sem jafnframt reið á vaðið með fyrsta fyrirlesturinn.

Væntingarnar voru að vísu hófstilltar í ljósi vonbrigða síðastliðið vor með framlag Háskóla Íslands til umræðunnar um lærdóma af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og urðu mér tilefni til greinarskrifa sem bar heitið „Háskóli Íslands í fallhættu”. Þar gerði ég m.a. athugasemd við áróðurskenndan málflutning Stefáns Ólafssonar, prófessors, sem átti ekkert skylt við vísindalega hlutlægni.

Það er skemmst frá því að segja að fyrirlestur Kolbeins Stefánssonar, sem samkvæmt auglýsingu fjallaði um „samfélagssýn frjálshyggjunnar og þær hugmyndir um einstaklinginn sem hún hvílir á”, var afleitur. Efnistök sýndu engin merki um vísindalega hlutlægni enda fór fyrirlesarinn ekki leynt með óbeit sína á viðfangsefninu. Hugtakanotkun var ruglingsleg og ónákvæm enda lagði fyrirlesari sig í þeim efnum fremur fram um hótfyndni en vandaða og yfirvegaða umfjöllun. Þannig kynnti fyrirlesarinn til sögunnar nýtt hugtak, „dólgafrjálshyggju”, sem ætla mætti að upprunnin væri hjá nafnlausum rógsmönnum í bloggheimum fremur en í rannsóknarstofnun innan Háskóla Íslands. Fyrirlesarinn staðhæfði að dólgafrjálshyggja væri sú tegund frjálshyggju sem ríkti á Íslandi og væri dólgafrjálshyggan orsök efnahagshrunsins. Ekki var gerð nein tilraun til að renna stoðum undir þá staðhæfingu. Áheyrendur gátu þó skilið að hér væri á ferðinni enn hræðilegri útgáfa af frjálshyggju en hin illræmda nýfrjálshyggja sem vinstrisinnaðir stjórnmálamenn og meintir fræðimenn hafa gjarnan dregið fram þegar eftirspurn hefur verið eftir einföldum og órökstuddum skýringum á örsökum efnahagshrunsins.

Svo nálægt en þó svo fjarri
Tilt   Nýfrjálshyggjan í framkvæmdEins og í erindi Stefáns Ólafssonar og var tilefni greinarskrifa minna síðastliðið vor, komst boðskapur Kolbeins Stefánssonar á köflum glettilega nálægt rót vandans. Þannig fjallaði Kolbeinn undir lok fyrirlestrarins um „nýfrjálshyggjuna í framkvæmd” þar sem þrjú fyrirbæri - 1) ríkisábyrgðir, 2) þrautavaralán Seðlabanka og 3) innstæðutryggingar - komu fyrir á sömu glærunni en síðasti punktur glærunnar var eftirfarandi staðhæfing: „Pilsfaldakapítalismi er nýfrjálshyggjan í framkvæmd”. Ef litið er burt frá því að hugtakið „pilsfaldakapítalismi” hafi ekki verið skilgreint til fullnustu er staðhæfingin  bersýnilega í andstöðu við málflutning um að nýfrjálshyggja sé afbrigði frjálshyggju enda hlýtur öllum að vera ljóst að frjálshyggjumenn hafa lengi barist gegn hvers kyns ríkisábyrgð, miðstýrðum peningakerfum og þrautavaralánum Seðlabanka og innistæðutryggingum. Þessu til stuðnings mætti nefna skrif Ludwig von Mises, Friedrich Hayek og Murray N. Rothbard sem eru til vitnis um andstöðu frjálshyggjumanna við „pilsfaldakapítalisma” og „nýfrjálshyggju”.

Þess ber þó að geta að Milton Friedman, meðal annarra hagfræðinga af hinum svokallaða Chicago-skóla, sem í ýmsu tilliti mætti kalla frjálshyggjumann var fylgjandi miðstýringu Seðlabanka á peningamagni (e. monetarism) sem á mikið skylt við keynesíska hagfræði en er algjörri í andstöðu við skoðanir Ludwig von Mises og annarra hagfræðinga af austurríska skólanum sem aðhyllast frjálshyggju á sviði peningamála.

En hvernig sem slíkum litbrigðum líður er ljóst að einhæfur, ómálefnalegur og mótsagnakenndur fyrirlestur Kolbeins Stefánssonar um frjálshyggju var slæm byrjun og ekki góð bókarkynning. Þótt málatilbúnaður af því tagi sem ritstjóri Eilífðarvélarinnar hafði uppi í nafni Þjóðmálastofnunar kunni að vera óhjákvæmilegur fylgikvilli í dægurmálaumræðu er hann algerlega óboðlegur sem framlag Háskóla Íslands til uppbyggilegrar stjórnmálaumræðu.

Ég vil því endurtaka hvatningu mína frá í vor um að rektor Háskóla Íslands og annað forystufólk íslenska fræðasamfélagsins geri betur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Geir Ágústsson

Heyr, heyr!

Geir Ágústsson, 20.9.2010 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband