Þjóð í höftum

Eftirfarandi grein birtist á Pressunni 15. mars 2011.

Þessa dagana eyða óeðlilega margir Íslendingar tíma sínum í umræður um málefni sem ættu í raun ekki að vera til umræðu miðað við þau fjölmörgu brýnu úrlausnarefni sem þjóðin stendur frammi fyrir. Ég er einn þessara Íslendinga. Málefnið er að sjálfsögðu Icesave. Miklu frekar kysi ég að nýta tíma minn í að sinna hugðarefnum sem veita mér og öðrum meiri gleði, eða til að taka þátt í umræðu um brýnni þjóðfélagsmál sem ekki verða umflúin: orkumál, atvinnumál, umhverfismál, menntamál og svo mætti lengi telja.

Þar sem ríkisstjórn Íslands hefur brugðist illilega í hagsmunagæslu fyrir íslenskan almenning og málsvörn í Icesave málinu hefur almenningur sjálfur þurft að halda uppi vörnum. Ég tel mér skylt að taka þátt í þeirri vörn.

Hvítt er svart og svart er hvítt

Illu heilli fyrir íslenska þjóð virðast ráðamenn haldnir þeirri þráhyggju að íslenskum skattgreiðendum sé nauðugur einn kostur að bera fjárhagstjón sem gjaldþrot islensks einkabanka olli á erlendri grund. En Íslendingar hafa aðra kosti í stöðunni. Íslendingar hafa þann kost að treysta á lög og reglu - treysta á stoðir réttarríkisins.

Í réttarríki sem byggir á frjálsum samningum lendir fjártjón við gjaldþrot banka á þeim sem eiga beina aðild að málinu: einkum hluthöfum og þeim sem lánað hafa fé til bankans, þ.m.t. innistæðueigendum. Þannig eru lögin. Þannig eru leikreglurnar.

Það er ef til vill tímanna tákn að reynt sé að telja íslenskum almenningi trú um að ekki sé þorandi að halda uppi vörnum og láta á það reyna fyrir dómstólum hver réttur Íslands sé í Icesave deilunni. „Dómsstólaleiðin er hættuleg“, er okkur sagt. Betra sé að láta undan og fallast á skilyrði samnings þar sem Íslendingar halda viðsemjendum sínum skaðlausum líkt og Íslendingar hafi þegar gjörtapað dómsmáli.

Gjaldeyrishöft og Icesave

Annað dæmi um málflutning þar sem hlutunum er snúið á hvolf í von um að almenningur beri ekki skynbragð á rökrænt samhengi hlutanna er umræðan um gjaldeyrishöft og áhrif Icesave á þau.

Markmið gjaldeyrishaftanna sem sett voru haustið 2008 var að hefta útstreymi gjaldeyris og forða verulegu falli á gengi krónunnar. Þó að sú ráðstöfun og gagnsemi hennar til lengri tíma sé umdeild ber flestum saman um að gjaldeyrishöftin komu i veg fyrir enn meira fall íslensku krónunnar í kjölfar bankahrunsins en raun ber vitni og að núverandi gengi krónunnar sé talsvert hærra en það væri ef gjaldeyrisviðskipti væru gefin frjáls. Skýr vísbending um að svo sé er sú staðreynd að gengi íslensku krónunnar utan haftanna, svokallað aflandsgengi, er um 60% lægra en skráð gengi seðlabankans.

Fyrir liggur að kostnaður ríkissjóðs vegna fyrirliggjandi Icesave-samninga (Icesave III) er mjög næmur fyrir gengisþróun krónunnar á samningstímanum og ljóst að hófleg lækkun krónunnar myndi margfalda þær upphæðir sem lenda á skattgreiðendum að öðru óbreytt.

Þeir útreikningar sem kynntir hafa verið að undanförnu á líklegum kostnaði ríkissjóðs vegna samningsins byggja á þeirri megin forsendu að gengi krónunnar haldist stöðugt á samningstímanum og þannig má segja að áframhaldandi gjaldeyrishöft séu ein forsenda þess að kostnaður vegna Icesave III verði innan viðráðanlegra marka.

Þá má hverjum manni vera ljóst að samningur, sem felur í sér skuldbindingar til langs tíma um ótilgreindar greiðslur í erlendri mynt sem numið geta tugum og jafnvel hundruðum milljarða, minnkar verulega svigrúm til afnáms gjaldeyrishafta á samningstímanum.

Í ljósi þessa samhengis er nær óskiljanlegt að því sé nú ítrekað haldið fram að samþykkt Icesave-samningsins í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl muni flýta fyrir afnámi gjaldeyrishafta og að höfnun samningsins muni festa þau í sessi. Þetta er eitt dæmi af mörgum um röksemdarfærslu sem gengur gegn heilbrigðri skynsemi þar sem reynt er að sannfæra almenning um að hvítt sé svart og svart sé hvítt.

„Auknar skuldir - bætt lánshæfi“ - getur það verið?

Af sama meiði er sú röksemdarfærsla að með því að takast á hendur skuldbindingar með samþykkt samningsins batni lánshæfimat ríkisins og aðgangur að erlendum lánamörkuðum opnist. Að aukin skuldsetning í erlendri mynt geri ríkissjóð að traustari skuldara og auki áhuga fjárfesta á frekari lánveitingum er svo fjarstæðukenndur málflutningur að kalla má móðgun við sæmilega skynsamt fólk að bera hann á borð. Að vísa til ummæla lánshæfimatsfyrirtækja, sem skömmu fyrir gjaldþrot bankanna settu þá í úrvalsflokk skuldara, gerir málflutninginn síst traustari.

Þótt þjóðin sé orðin langþreytt á umræðunni um Icesave og margir vilji heldur eyða tíma sínum í annað höfum við ekki efni á því að láta tómlæti ráða ferðinni. 

 Advice frame

Sveinn Tryggvason

Verkfræðingur og félagi í ADVICE-hópnum gegn Icesave

www.advice.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband