30.10.2007 | 17:52
Mjög vandað...
Rakst á þetta gull á YouTube...
17.10.2007 | 23:02
Að standa fyrir eitthvað
Bush er semsagt fyrsti forseti USA til að hitta Dalai Lama opinberlega! Það væri nú óskandi að fjölmiðlar tækju sér hlé á því að gera grín að þessum manni (þ.e. Bush, man ekki til þess að mikið hafi verið gert grín að Lama) og veltu því fyrir sér hvort hugsanlega gæti þarna verið á ferðinni forseti sem fylgir sannfæringu sinni jafnvel þótt það sé óvinsælt. Flestallir þjóðarleiðtogar (þ.m.t. okkar ÓRG) pakka nefnilega gjarnan prinsippum og fagurgala um mannréttindi niður í aðrar töskur en þær sem farið er með í heimsókn til Kínverja. Þess vegna er þessi virðingarvottur Bush við Dalai Lama þeim mun kærkomnari.
Að berjast fyrir frelsi er nefnilega nokkuð sem stundum krefst fórna og enda þótt Bush hafi oft verið legið á hálsi fyrir að vera ofstækismaður í trúmálum er varla hægt að bera á móti því að þarna er Bush að leggja lóð á vogarskálarnar í baráttu Tíbet gegn ofbeldi og oki Kínverja sem ekki síst beinist gegn trúarbrögðum Tíbetbúa.
Annar forseti Bandaríkjanna, Ronald Reagan, var á sínum tíma ekki álitinn mjög sófistíkeraður af elítumönnum og var gert óspart grín að frösum hans og meintri einfeldni. Sagan hefur hins vegar sýnt að Reagan var enginn fáráður og þótt Bush sé ekki Reagan tel ég ekki ólíklegt að harður dómur samtímans eigi eftir að breytast nokkuð þegar fram líða stundir.
Bush fundaði með Dalai Lama þrátt fyrir hörð mótmæli kínverskra yfirvalda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.10.2007 | 23:57
Ronda Byrne og The Secret fá friðarverðlaun Nóbels
Fyrirvari: Fyrirsögin hér að ofan er ekki sönn... ...ekki enn að minnsta kosti.
Eftir að hafa reynt í nokkra daga að tegra þá staðreynd að Al Gore skuli hafa verið tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels hef ég loks áttað mig á því hvernig er í pottinn búið.
Hressu krakkarnir í norsku Nóbelsverðlaunanefndinni eru í raun listamenn sem eru í þann mund að fremja pólitískan gjörning - nokkurs konar "finnið fimm villur" - þar sem venjulegu fólki gefst tækifæri til að sjá í gegnum pólitískan rétttrúnað, félagsleg afstæðishyggju eða hvað við kjósum að kalla það þegar einföldum lögmálum um rétt og rangt er snúð á hvolf í froðukenndu bulli.
Gjörningurinn felst í því að Nóbelsverðlaunanefndin verðlaunar góða og heiðarlega einstaklinga eða samtök sem sannarlega hafa skarað framúr í barráttu fyrir friði í heiminum en smyglar svo inn á milli bull tilnefningum sem fyrst og fremst haf það gildi að athuga hvort fólk átti sig á fáránleikanum sem þær bera með sér.
Maður hefði sjálfsagt átt að fatta að hér væri á ferð einhverskonar "social experiment " eða bara grín þegar leiðtogi hryðjuverkasamtakanna PLO, Yasser Arafat, hlaut tilnefningu árið 1994.
Nýjasta "litmus testið" er augljóslega tilnefning Albert Arnold Gore Jr. (oftast kallaður Al Gore) sem undanafarin misseri hefur ekki einasta nýtt sér Internetið (sem á íslensku ætti að kalla Al-netið af augljósum ástæðum) til að breiða út boðskap sinn heldur hefur hann lagt á sig þrotlaus ferðalög um allan heim í þröngum og hávaðasömum einkaþotum í óeigingjarnri baráttu fyrir áframhaldandi lífi hér á jörð.
Einn góðan verðurdag - helst hlýjan og sólríkan - tek ég mig til og skrifa nokkur orð um það sem mér finnst um hnattræna hlýnun af mannavöldum en þangað til læt eg mér nægja að benda á þetta og kannski þetta.
Ætli það komi ekki að því að Ronda Byrne og hinir nýaldar-efnishyggju-bullararnir á bak við The Secret verði tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels en það munu sennilega ekki margir kippa sér upp við það.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.10.2007 kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2007 | 00:13
Ekki meir, ekki meir
Ekki laust við það að fólk spyrji sig hvenær holan sé orðin nægilega djúp til að þessi ágæti maður hætti að grafa.
Spurning hvort einhver svör í þessum harmleik sé að finna í tendrun friðarsúlunnar sem jú fær orku sína frá OR. Þeir sem sáu og hlíddu á ræðu fráfarandi borgarstjóra við það tilefni gátu ályktað að þarna talaði maður á öðru tungumáli en sínu eigin móðurmáli. Það vekur mann til umhugsunar um hvort það geti verið að Viljálmur hafi hreinlega ekki skilið eða reynt að skilja þá samninga sem fyrir hann voru lagðir? Minnisblaðið var reyndar á íslensku þannig að þessi teóría heldur kannski ekki.
Nú í kvöld var Kastljósinu enn og aftur beint að þessu máli og ekki jókst hróður borgarstjórans fráfarandi við það. Er ekki tími til kominn að einhver klippi hann niður úr þessu tré því hann virðist ekki ætla að koma niður af sjálfsdáðum. Geir, Davíð... ...einhver.
Minnist þess ekki að hafa séð minnisblaðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.10.2007 | 18:48
Last King of Scotland (VoD)
And now for something completely different... (tilvitnun lýkur)
Ágætt að venda sínu kvæði í kross og blogga um alveg frábæra mynd sem ég sá í SkjáBíó nú um daginn. Fyrir þá sem ekki vita hvað SkjárBíó er þá er það "myndbandaleiga heima í stofu" fyrir þá sem hafa aðgang að Sjónvarpi Símans (svokallað Video on Demand) sem er sérlega hentugt fyrir fólk eins og mig sem iðulega gleymir að skila spólum sem leigðar eru upp á gamla móðinn.
Nema hvað - ég sá semsagt Forest Whitaker fara á kostum sem einræðisherrann Idi Amin sem stýrði Uganda með harðri hendi á áttunda áratug síðustu aldar. Fyrir utan að vera mjög áhugaverð en um leið hrikaleg frásögn um Úganda og þær hremmingar sem landið gekk í gegnum á þessum árum er alveg magnað að sjá hvað Whitaker, sem yfirleitt leikur fremur geðþekka rólyndismenn, er sannfærandi sem Idi Amin. Meðfylgjandi myndskeið af YouTube er einmitt stutt viðtal við leikstjóra myndarinnar um valið á Forest í hlutverkið en leikstjórinn hafði einmitt haft efasemdir um að að Forest gæti verið nógu grimmur til að geta leikið einræðisherrann.
Mæli eindregið með þessari mynd.
/st
Kvikmyndir | Breytt 17.10.2007 kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2007 | 19:03
Pólitísk sátt vikunnar
Í morgunblaðinu í dag er viðtal við núverandi borgarstjóra Reykjavíkur sem í síðustu færslu minni haut þann heiður að vera útnefndur maður vikunnar. Í viðtalinu reynir Vilhjálmur að útskýra þá þróun sem orðið hefur í Orkuveitu Reykjavíkur með stofnun REI og sameininingu þess við GGE. Fyrir utan gamalkunnar vendingar um að verið sé að gæta hagsmuna borgaranna segir borgarstjórinn m.a. að:
Á undanförnum árum hafi verið pólitísk sátt um starfsemi OR nema hvað fulltrúar Vinstri grænna hafi verið á annarri skoðun upp á síðkastið...
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson í viðtali í Morgunblaðinu 6. okt. 2007
Það er nebblega það. Mótmæli Sjálfstæðismanna yfir framgögnu R-listans á síðasta og þarsíðasta kjörtímabili yfir málefnum OR (byggingu höfuðstöðva, Línu.net, risarækjum og almennt óráðsíu) hljóta því að vera einhver misskilningur. Ræður, greinar og bókanir Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og annara Sjálfstæðismanna sem reyndu að standa vörð um hagsmuni skattgreiðenda voru þá ekki eiginleg mótmæli heldur frekar nokkurskonar stuðningsyfirlýsing. Gott að vita það. Bara smá grín hjá Gulla.
Samþykkt að endurskoða sölu á hlutabréfum í REI | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2007 | 00:31
Other people's money
Þetta hlýtur að vera stjórnmálamaður vikunnar.
Borgarstjórinn í Reykjavík er nú búinn að slá bæði eigin met sem og met fyrirrennara sinna í því að fara frjálslega með umboð sitt og almannafé með aðkomu sinni að útrás Orkuveitu Reykjavíkur. Óvíst verður að telja að þetta hafi verið það sem kjósendur voru að biðja um þegar Sjálfstæðisflokkurinn fékk tækifæri til að leysa borgarbúa undan þeirri ánauð að vera stjórnað af forræðishyggjumönnum með ærið yfirgripsmiklar hugmyndir um hvert hlutverk hins opinbera skyldi vera.
Risarækjueldi, hörverksmiðjur, línur og net eru nokkur gamalkunnug verkefni sem R-listanum þótti vísast að eyða skattfé borgaranna í og var ekki laust við að borgarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýndu þær ráðstafanir. Fæstir hefðu hins vegar getað ímyndað sér að gagnrýnin væri til komin vegna þess að fjáraustur R-listans hefði ekki verið nógu mikill og ekki nægilega vel dreift út fyrir landssteinana en nú hefur sú undarlega staða komið upp að sjónum borgarstjórans og embættismanna á vegum borgarinnar hefur í verið beint til Suð-austur Asíu, Afríku, Kína og eiginlega heimsins alls. Hvort ástæðan er frábært viðskiptatækifæri eða köllun til þess að færa heimsbyggðinni græna orku er í sjálfu sér málinu óviðkomandi þar sem allir sem eru réttu megin við Lenín hljóta að sjá að þetta er alveg örugglega ekki í verkahring hins opinbera.
Fulltrúi Samfylkingar fer fram á að fá gögn og samþykktir REI | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.10.2007 | 15:23
Dilbert um markaðsfólk
Ég viðurkenni að ég hló upphátt þegar ég sá þetta í Viðskiptablaðinu í dag. Ómögulegt þegar fólk ber það ekki með sér að vera bullukollar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2007 | 21:57
Góð mynd af Jóhönnu
Já. Ég vil semsagt vera svo djúpspakur í greiningu minni á íslenskri pólitík hér og slengja því fram að með þessari merku frétt fylgi mjög fín ljósmynd af Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra en hún mun einmitt hafa setið lengst allra þingmanna sem nú sitja á Alþingi fyrir utan að vera vinsælasti ráðherrann þessa dagana. Ekki amalegt það.
Ég ætlaði reyndar ekki að hafa þetta neitt lengra en þá datt mér í hug annar ráðherra sem ólíkt félagsmálaráðherrranum virðist seint ætla skora hátt á vinsældarlistum. Sá maður er Björn Bjarnason en hann er sennilega einn vanmentnasti stjórnmálamaður samtímans enda einn af fáum stjórnmálamönnum í dag sem þorir að taka upp og fylgja eftir málum jafnvel þótt þau séu ekki endilega alveg á toppi vinsældarlistanna. Vinnusamur hugsjónamaður en ekki endilega algjört sjarmatröll og kannski frekar langt á milli góðu ljósmyndanna. Stjórnmálamenn mættu hins vegar gjarnan vera fleiri af þessari tegund en mér er það til efs að að margir úr stétt dýraverndunarsinna muni leggja sig fram við að vernda hinn pólitíska Björn og að nokkur vilji koma nakinn fram í þeim tilgangi.
Mest ánægja með störf Jóhönnu og Geirs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.9.2007 | 16:01
Kamelåså
Í smíðaklúbbi s.l. föstudag sem haldinn var til upphitunar fyrir Franz Ferdinand tónleika rifjaði Eiki húsráðandi upp snilldar skets frá Norðmönnum sem lengi hafa þótt þjóða ólíklegastar til að búa til fyndni. Í sketsinu, sem er úr gamanþættinum "Uti Vår Hage" og sýndur er á NRK, er iðkuð sú göfuga íþrótt að gera grín að nágrannaþjóð sinni - í þetta skiptið að Dönum og þó einkum að dönsku. Mjög vandað.
Mig langaði til að koma þessu hér á framfæri enda um mjög gott háð sem hittir vel í mark - sérstaklega hjá þeim sem þekkja eitthvað til Dana og "aflsppaðrar" afstöðu þeirra til móðurmáls síns. Þegar þarna er komið við sögu er danskt samfélag að hruni komið sökum innbyrðis tungumálaörðugleika.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)