Á ferðalagi: Golf fram í firði

Brynjar er elegant golfari

Úff.

Fyrstu tilburðir við golfspil í sumar fóru fram á litlum velli við Þverá í Eyjafirði. Það var ekki fögur sjón að fylgjast með okkur Brynjari mági mínum sveifla kylfunum í þetta skiptið þótt hann hefði verið skömminni skárri en ég. Það var þó huggun harmi gegn að áhorfendur voru engir og almennt lítil umferð á svæðinu í morgun. Það var því aðallega egóið sem hlaut skaða af þessari morgunleikfimi.

Veðrið var hins vegar gott eins og það er alltaf á þessum slóðum - líka þegar það er vont. 


Á ferðalagi: Stöðvarhús og fússball

Fórum í gær héðan frá Reyðarfirði í dagsferð uppá Hérað og niður í Hallormsstaðarskóg þar sem spilaður var fótbolti og nestisát fór fram í ágætu veðri þótt lofthitinn hefði ekki verið mikill. Úr Atlavík fórum við síðan að stöðvarhúsi Kárahnjúkavirkjunar og sáum þar glitta í þessa mestu framkvæmd Íslandssögunnar - í dag er svo ætlunin að fara upp að vikjun og sjá Hálslón.


Á ferðalagi: Köld sturta í Skaftafelli

Á ferðalagi fjölskyldunnar úr Skriðufelli í Þjórsárdal áleiðis austur til Reyðarfjarðar gerðum við stutt stopp í Skaftafelli. Ákváðum að geyma göngutúra til betri tíma en stelpurnar skelltu sér í kalda sturtu eins og meðfylgjandi myndskeið ber með sér. Rosa kalt en rosa gaman :)

Litla systir fylgdist með í regngalla og með bolta í hönd...


Drama í Parken - Lúði dagins

Æææiiii - þar fór góður leikur forgörðum. Eftir 87 mínutna leik í mjög skemmtilegan nágrannaslag milli Dana og Svía tók einhver aumingjans maður sig til og hljóp inná völlinn í því skyni að lumbra á dómaranum eftir að hann réttilega dæmdi víti og gaf Christian Poulsen rautt spjald. Danir eru svekktir og tala um hinn svartasta dag fyrir danska knattspyrnu enda á málið eftir að hafa frekari afleiðingar fyrir DBU.

Leikurinn var þegar orðinn klassískur af góðum og gildum ástæðum og því sorglegt að einhver lúði þyrfti að stela leiknum með þessum hætti.

Jafnteflisleikur Íslendinga við Liechtenstein var hins vegar ekkert til að skrifa heim um.

 


mbl.is Svíum dæmdur 3:0 sigur á Dönum á Parken eftir árás á dómara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískt lágflug Steingríms J.

Það var einkennileg tilfinning sem fór um mann í kvöld að fylgjast með umræðum á Alþingi í kjölfar stefnuræðu forsætisráðherra. Þótt ræða fyrrverandi landbúnaðarráðherra hafi verið fremur ósmekkleg aðför að formanni Samfylkingarinnar og var hún þó hátíð í samanburði við tölu hins annars ræðusnjalla formanns Vinstri grænna. Hvort það var meira vandræðalegt eða skammarlegt að sjá og heyra biturðina skína í gegnum skammarræðu Steingríms J. Sigfússonar er erfitt að segja. Í öllu falli var ræðan honum ekki til sóma og í raun sorglegt að sjá hve lágt formaður VG flaug með háði og spotti yfir  samferðafólk sitt í íslenskri pólitík eins og það væri enginn morgundagur.

Steingrímur hefur lengi verið þekktur fyrir ræðusnilld og rökfestu og hefur hann vakið aðdáun og virðingu fyrir vikið. Taktískir afleikir hans í kjölfar nýafstaðinna kosninga og skortur á pólitísku lyktarskyni hafa hins vegar gefið tilefni til að ætla að Steingrímur J. muni ekki koma VG til frekari áhrifa í íslenskum stjórnmálum. Ræðuhöld kvöldsins bættu ekki úr skák. 

mbl.is Meginmarkmið stjórnmála að skapa samfélag þar sem fólki líður vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ballerínur í Borgarleikhúsinu

Í kvöld fórum við hjónin í Borgarleikhúsið til að sjá dætur okkar dansa ballet ásamt öðrum nemendum í Balletskóla Sigríðar Ármann sem í ár fagnar 55 ára afmæli. Þetta var í fjórða skipti sem við sjáum nemendur skólans ljúka vetrarstarfinu með glæsibrag en í fysta skipti sem við eigum tvær ballerínur í hópnum. Að vanda var þetta mjög gaman og alveg magnað hvernig Ástu Björnsdóttur og co. tekst að setja upp svona stóra sýningu þar sem hafa þarf stjórn á vel yfir hundrað ballerínum og tímasetja vel á annan tug dansatriða á rétt um klukkustund. Vel af sér vikið.

Brynja og Sóley með sínum hóp.Arnheiður og hópur

Pétur Ben et al. á Græna hattinum

Fór á föstudagskvölið á Græna hattinn á Akureyri. Þar fluttu Ólöf Arnalds, Lay Low og Pétur Ben sína tónlist auk þess sem Vilhelm (a.k.a Villi Naglbítur) hóf herlegheitin sem sérlegur fulltrúi heimamanna en tónleikarnir eru hluti fyrirbæri sem kallast Rás2 plokkar hringinn. Það er skemmst frá því að segja að þetta voru alveg magnaðir tónleikar þótt hver flytjandi hefði ekki nema úr ca. hálftíma "að spila". Að öðrum flytjendum ólöstuðum þótti mér Pétur Ben alveg magnaður og náði hann upp mjög góðri stemmningu - bæði lágstemmdri í t.d. "I'll Be Here" en einnig hörku stuði eins og í "Something Radical" þar sem Sigtryggur Baldurson átti stórleik á slagverk af ýmsum toga enda lét hann sér ekki nægja að berja trommurnar fyrir framan sig heldur sló hann taktfast í túbu sem hékk uppá vegg fyrir aftan trommurnar og fleiri instrúment sem hann náði til með góðu móti.

Sem aukalag flutti Pétur Ben vel þekktan pop/disco klassíker, Billy Jean eftir Michael Jackson, í nýstárlegri útsetningu. Hér fyrir neðan er upptaka (í afleitum gæðum reyndar) af þeim gjörningi sem hlaut góðar undirtektir viðstaddra. Túban og allt dótið sem Sigtryggur lamdi í ætti þó að sjást sæmilega. 

Mér þótti þetta gott... :) Takk fyrir mig.
Þeir sem  gætu haft áhuga þá verða þessir tónleikar á NASA 27. apríl n.k.
/st 


Vorboðinn ljúfi

Ætli það sé ekki ágætt að láta þetta vera mitt fyrsta innlegg í umræðuna um hnattræna hlýnun þar sem Öryggisráð SÞ ákvað í dag taka málið fyrir.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband