Öld sýndarmennskunnar

Gamall vinur minn auglýsti á Facebook um daginn eftir Íslendingum sem vildu sömu seðlabankastjórn áfram. Það er skemmst frá því að segja að engin gaf sig fram. Að minnsta kosti ekki fyrr en ég fór að malda í móinn. Út úr þessu spunnust vangaveltur sem ég vil deila með lesanda þessa bloggs.

Andrúmsloftið og töfrabrögðin

Þetta var vikuna sem stjórnin féll. Hávær umræða var í fjölmiðlum um að ástæðuna fyrir stjórnarslitum væri að finna í Seðlabankanum. Því miður var ekki eingöngu um eiginlega umræðu að ræða eða friðsamleg mótmæli (sem er sjálfsagður réttur fólks í lýðræðisþjóðfélagi) heldur virtist allstór hópur vilja koma skoðunum sínum á framfæri með því að kasta eggjum, tómötum, grjóti og saur að lögreglumönnumvið skyldustörf. Það var sorglegt og skammarlegt að horfa upp á það. Einnig bitnaði þessi ófögnuður og ofbeldi á nokkrum af elstu og merkilegustu byggingum landsins.

Í þessu andrúmslofti og í fjarveru Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur lyppaðist þingflokkur Samfylkingarinnar niður. Vikum saman hafði Samfylkingin krafist þess að Sjálfstæðisflokkurinn tæki aðild að Evrópusambandinu upp sem stefnumál - ella væri stjórnarsamstarfinu sjálfhætt (þeim afarkostum hefur Samfylkingin reyndar pakkað niður í minnihlutastjórn með VG).

Þar sem áhugi íslensku þjóðarinnar á aðild að Evrópusambandinu virtist fara dvínandi þurfti Samfylkingin að reyna annað "töfrabragð" til  þess að leysa þjóðina úr kreppunni miklu. Bragð sem einnig hefur verið talið líklegt til vinsælda: að koma Davíð Oddssyni út úr Seðlabankanum; einnig þekkt undir frasanum, að skipta um yfirstjórn Seðlabankans, að auka trúverðugleika Seðlabankans, að tryggja fagleg vinnubrögð í Seðlabankanum - eða eitthvað annað flúr til að lýsa sama gjörningnum. Gjörningi sem næst á eftir fullveldisframsali til Brussel er mikilvægasta skref í endurreisn hins nýja Íslands, ef marka má Samfylkinguna.

Stjórnsýsluvald og reyksprengjur 

Þessa dagana vinnur hin nýja ríkisstjórn Íslands að því að bola embættismönnum í stjórn Seðlabankans út með aðferðum varla geta talist vönduð stjórnsýsla og einhverntímann hefði verið slegið upp í fjölmiðlum sem aðför að sjálfstæði bankans. Jafnframt undirbýr forsætisráðherra þjóðarinnar breytingar á lögum um Seðlabankann sem m.a. segja til um að bankastjóri skuli vera með meistaragráðu í hagfræði! Væntanlega til að tryggja fagleg vinnubrögð.

leftrightÞað verður ekki hjá því komist að sjá kaldhæðnina í því að forsætisráðherra, sem skv. vef Alþingis er með verslunarpróf VÍ (1960), auk þess að hafa starfsreynslu sem flugfreyja hjá Loftleiðum (1962-1971) og skrifstofumaður í Kassagerð Reykjavíkur (1971-1978), áður en hún tók sæti á Alþingi, skuli standa fyrir slíkum lögum.

Ekki svo að skilja að eitthvað sé athugavert við menntun og reynslu forsætisráðherra - það tel ég alls ekki vera.

En hvernig sem menntunarstigi og "fag-idioti" Stjórnarráðsins líður þá er líklega stutt í að Davíð og co. yfirgefi Seðlabankann (við nokkur fagnaðarlæti sumra og örugglega án mótmæla BSRB).

Davíð út... ...hvað svo? 

Þá er stóra spurningin hversu fljótt fólk áttar sig á því að vandamál þjóðarinnar byrja hvorki né enda á Davíð Oddssyni...  ...heldur einhverju allt öðru.

Með því að láta að því liggja að grundvallar orsakir bankahrunsins liggi í yfirstjórn Seðlabankans og að lausn efnahagskreppunnar felist með einhverjum hætti í skipuritsbreytingu þar á bæ er í hæsta máta óábyrgt. Hvort hin nýja ríkistjórn er vísivitandi að slá ryki í augu almennings með lítilmótlegum en vinsælum mannfórnum eða hvort ríkistjórnin hafi ekki minnsta grun um hvernig þjóðin eigi að vinna sig út úr ógöngunum, er erfitt að segja. Hvort tveggja er líklegast því miður tilfellið.

Þeir sem töldu skipulagsbreytingu í Seðlabankanum vera hið brýnasta verk hafa gjarnan "rökstutt" mál sitt með því að þar á bæ vantaði mjög uppá fagleg vinnubrögð, þekkingu, menntun og fleira í þeim dúr sem snýr að formlegum hæfniskröfum. 

Nú eru tveir af þremur bankastjórum Seðlabankans hagfæðingar - Ingimundur Friðriksson er þjóðhagfræðingur og Eiríkur Guðnason hagfræðingur - á meðan Davíð Oddson er lögfræðingur með einhverja reynslu af stjórnunarstörfum. Reynslu sem a.m.k. Göran Person þótti einhvers virði. Þar að auki vinna fleiri hagfræðingar í bankanum en ég hef tölu á þannig að ekki skortir fræðimennskuna eða hina rómuðu "fagmennsku" sem æði margir eru uppteknir af. Hagfræði er þar að auki fræðigrein þar sem nokkuð margir og ólíkir skólar takast á um hvað snúi upp og niður í heimi hagfræðinnar, hegðun mannsins o.fl.

Fyrir utan lítt rökstuddar dylgjur um formlegar hæfniskröfur eru mistök bankastjórnar Seðlabankans ekki augljósar og jafnvel vandfundnar enda ku Jóhanna Sigurðardóttir ekki hafa gert athugasemdir við peningastjórn Seðlabankans í fyrri ríkisstjórn.    

Engu að síður má færa ágæt rök fyrir því að sumt af því sem Davíð Oddsson hefur sagt undanfarna mánuði hafi ekki verið hjálplegt, verið illa tímasett, ekki verið hans að segja o.s.frv. og að því sé það ekki fráleit krafa að hann víki. Að gera þá kröfu að meginþema endurreisnarinnar, eins og sumir hafa gert, drepur málunum á dreif og er til þess fallið að draga athyglina frá hinum raunverulegu vandamálum.

Af hverju ekki?

Tvær ástæður eru fyrir því að ég tek ekkert sérstaklega undir þá kröfu að stjórn Seðlabankans þurfi að víkja:

Í fyrsta lagi blasir það við að Davíð Oddsson hefur í mörg ár ekki notið sannmælis í íslenskum fjölmiðlum. Ótal dæmi úr s.k. Baugsmiðlum í gengum tíðina eru til vitnis um mjög rækilega og árangursríka áróðursherferð gegn Davíð, sem líklega hefur litað mjög afstöðu almennings til hans í seinni tíð. Davíð hefur vart mátt mæla orð utan heimilis síns án þess að fjölmiðlar snúi því og túlki á versta veg á meðan t.a.m. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kemst upp með að grípa fram í fyrir Forseta Íslands með mjög hrokafullum hætti án þess að hósti eða stuna heyrist í fjölmiðlum (ég man ekki eftir öðrum en Andríki sem tóku það atvik til umfjöllunar). Krafan um að Davíð skuli víkja úr Seðlabankanum hefur því óneitanlega yfirbragð pólitískrar hefnigirni og lýðskrums.

Í öðru lagi (og öllu mikilvægara) tel ég brotthvarf Davíðs úr Seðlabankanum einfaldlega ekki til gagns til að vinna þjóðina út úr þeim vanda sem hún er í. Okkur væri nær að huga að hver rót efnahagshrunsins er og vinna í úrbótum á þeim grundvelli fremur en að búa til pólitíska reyksprengju úr Davíð Oddssyni.

Mögulegar rætur vandans að mínu mati gætu verið:

  1. Exponential Money - m.ö.ö viðvarandi peningaflóð vegna þess hvernig nútíma peningakerfi eru í eðli sínu (sjá nánar neðst í þessari færslu).
  2. Ríkisábyrgð á bankastarfsemi - bankarnir hér heima fengu allt að 'AAA rating' þegar best (les: verst) lét. Við þær aðstæður þurfa lánveitendur ekki að huga að í hvað lánsfé fer heldur reiða sig eingöngu á það að skattgreiðendur muni borga brúsann ef illa fer. Til áréttingar þá er þetta er ekki frjálshyggja (eða "nýfrjálshyggja" sem líka er mjög vinsæll blóraböggull).
  3. Falskt öryggi eftirlitsiðnaðarins - (sem er nær því að vera áhugamannasamfélag um eftirlit)
  4. Peningagræðgi mannsins - (þetta er eitt af því fáa sem vinstrimenn hafa ekki fengið algjörlega  'galt i halsen')

    [hver af ofangreindum punktum er verðugt efni í bloggfærslur og doktorsritgerðir]

Svona mætti sjálfsagt lengi telja áður en röðin kemur að Davíð og co. í Seðlabankanum.

En "fólkið" vill sjá mannfórnir og nú er ný ríkisstjórn Íslands einmitt um það bil að verða við þeirri "ósk" í von um að vinsældir ríkisstjórnarinnar aukist. Um leið göngum við inn í öld sýndarmennskunnar.

Skipt um rúðuþurrkur 

Svo ég leyfi mér að grípa til myndlíkingar, þá er þetta svipað og vera í rútu sem er um það bil að hrapa niður í hyldjúpt gil. Í stað þess að rétta kúrsinn, skipta um rútu eða gera eitthvað annað sem forðar farþegum frá stórslysi ákveður bílstjórinn að skipta um rúðuþurrkur og hækka í útvarpinu. 

Hér að neðan er fyrirlestur Chris Martenson, Crash Course, þar sem gerð er mjög áhugaverð og vel rökstudd tilraun til að útskýra það sem er að gerast í efnahagskerfi heimsins í dag. Það kann að koma sumum á óvart, en Davíð Oddsson kemur hvergi við sögu í þessum fyrirlestri.


mbl.is Pólitískar hreinsanir og ofsóknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Takk fyrir vel skrifaðan pistil.  Hann breytir þó ekki þeirri meginstaðreynd að Seðlabankinn er rúinn öllu trausti.  Það skiptir engu máli hvað þar var gert, hvort það var rétt eða rangt.  Það sem upp úr stendur er að öðlast traust og virðingu bankans í alþjóðlegu samhengi. 

Hluti af þeirri endureisn er að skipta bankastjórninni út.  

Sveinn Ingi Lýðsson, 6.2.2009 kl. 08:46

2 Smámynd: Sveinn Tryggvason

Takk sömuleiðis, nafni. Það er rétt að Seðlabankinn er rúinn trausti - en ég tel það vera að töluverðu leyti vegna þess hvernig menn tala um það sem þar fer fram, bæði þá ópólitísku 'fagmenn' sem þar vinna eftir bestu samvisku sem og pólitískt skipaða yfirstjórn. Ég tel einmitt skipta öllu máli hvort menn séu "sekir" eða "saklausir" af afglöpum í starfi þegar til stendur að reka þá fyrir afglöp í starfi.

Það ætti ekki að vera nóg að hrópa "she's a witch" til að henda fólki á bálköstinn þótt stemningin í þjóðfélaginu sé vissulega þannig þessa dagana. Seðlabankinn starfar skv. lögum og þarf að fylgja tilteknum markmiðum sem lögin segja til um. Það kann að vera að vandamálið liggja að einhverju leyti í því að þau markmið séu röng. Ábyrgðin á að breyta því liggur hjá Alþingi.

Sveinn Tryggvason, 8.2.2009 kl. 16:29

3 Smámynd: Björn Leví Gunnarsson

Nei það er rétt, það þarf fyrst að vigta hana á móti önd ...

Að öllu gamni slepptu þá ber framkvæmdavaldið fyrstu ábyrgð, alþingi svo númer 2. Staðreyndin er hins vegar sú að alþingi virðist vera að vinna fyrir framkvæmdavaldið og ber því jafn mikla ábyrgð á þeirri þróun hér hefur verið undanfarin ár. 

Óháð því hverjir hafa notið sannmælis í fjölmiðlum og hverjir hafa hrópað úlfur, úlfur þá kemur alltaf að skuldadögum. Lausnin er einföld í eðli sínu, borga skal þau lán sem þú tekur. Framkvæmdin er erfið vegna þess að lánin fengu að vinda upp á sig svo margfalt að maður vonast til þess að það komi overflow villa.

Hvernig stendur á því að á meðan ríkissjóður gat státað sig af því að losna við allar skuldir þá hafi ALLIR aðrir fengið að safna þeim? Get ég virkilega fengið lán, keypt fyrir það eign, veðsett eignina til þess að kaupa aðra eign og koll af kolli þangað til ég á allt í heiminum og í raun skulda ég bara fyrsta lánið plús vexti af öllum hinum? Hvað þýðir það? Það þýðir einfaldlega að ég verð að skapa verðmæti til þess að geta greitt þessa vexti ... sem er handstýrt af hverjum? Jú, seðlabanka kærum.

Seðlabanki tilskipar hversu mikil verðmætasköpun skal eiga sér stað með lánum. Úpps ... krafan sett aðeins of há var það ekki?

Sem slíkt væri það ekkert vandamál ef það væru ekki til svo miklir peningar til þess að lána. En þeir voru til... hvaðan komu þeir?

Eignir (húsnæði) hækkaði í verði og setti allt í einu fullt af pening í vasa almennings sem hafði aldrei verið þar áður. Auðlindir voru allt í einu verðmerktar (kvóti) og urðu þannig að pening í hagkerfinu á einni nóttu. Þjónusta sem enginn þurfti áður varð föl fyrir seðla (markaðsráðgjöf, Mba nám ...). Peningar urðu til "úr engu" ... það sem áður var óverðmerkt fékk verðmiða.

Fullt af pening að lána plús gríðarlega há krafa um framleiðni í gegnum háa stýrivexti = hagkerfi sem stækkar og stækkar hraðar og hraðar, svo hratt að mjög fljótlega átta allir sig á að það er ekki innistæða fyrir stækkuninni. En vegna þess hversu hratt kerfið óx þá voru vextirnir búnir að fara fram úr viðráðanlegu hófi.

Nú er komið að skuldadögum. Það þarf að borga himinháa vexti seðlabankans. Það þarf að borga höfuðstólinn af lánunum. Það þarf að borga fyrir mistök.

Björn Leví Gunnarsson, 10.2.2009 kl. 04:52

4 Smámynd: Offari

Það furðulega við þessa aðför að Davíð er að hún kemur aðallega frá þeim sem verst létu. Nauðgarar hafa stundum sagt að hegðun fórnarlambsins réttlæti gjörðir þeirra. Davíð hefur tapað fyrir þessum áróðri og því tapað traustinu.

Ég tel því æskilegt að að hann fari jafnvel þótt ég telji hann ekki eiga sök á hruninu svo hægt verði að snúa sér að öðrum mikilvægari málum.

Offari, 11.2.2009 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband