Tryggðir í topp

Eftirfarandi grein birtist fyrst á Pressunni 8. apríl 2011.

- stutt áminning um aðild Icesave að breskum og hollenskum tryggingarsjóðum -

Í umræðunni um Icesave er ein staðreynd sem lítt hefur verið rædd. Staðreyndin er sú að bæði í Bretlandi og Hollandi gerðist Landsbankinn aukaaðili að þarlendum tryggingarsjóðum þegar Icesave var stofnað í þessum löndum. Þetta var gert í því augnamiði að standa jafnfætis þarlendum bönkum varðandi innlánstryggingar enda var slíkt augljóslega talið mikilvægt í markaðssetningu á Icesave.

Eins og Íslendingum er kunnugt um tryggðu bresku og hollensku tryggingarkerfin hærri upphæð en þær 20.887 evrur sem getið er um í tilskipun ESB um innistæðutryggingar. Þess vegna gerðist Landsbankinn aðili að breska innlánstryggingarkerfinu FSCS (Financial Services Compensation Scheme) sem tryggði innlán upp að 35.000 pundum og tryggingasjóði Hollenska Seðlabankans (De Nederlansche Bank, DNB) sem tryggði upphæðir að 38.000 evrum á þeim tíma (tryggingin var síðar hækkuð upp í 100 þúsund evrur annars vegar og 50 þúsund pund hins vegar). Var þetta gert með svokölluðu "top up" kerfi þar sem Landsbankinn keypti viðbótartryggingu af þarlendum innlánstryggingarsjóðum til að samanlögð trygging innlána væri sambærileg við það sem þarlendir bankar bjuggu við.

Af hverju skiptir þetta máli í umræðunni um Icesave? Jú, það er vegna þess að því hefur verið haldið fram – af þeim sem hafa viljað láta dómstólaleiðina líta út fyrir að vera áhættusamari en hún er í raun – að Hollendingar og Bretar gætu krafið íslensk stjórnvöld um skaðabætur vegna innistæðutrygginga umfram lágmarkstrygginguna.

Langsótt er að slík krafa verði sett fram þar sem tilskipunin gerir eingöngu kröfu um að sett verði upp kerfi í hverju landi sem uppfylli kröfur um lágmarkstryggingu. Því til stuðnings hefur m.a. verið bent á að áminningarbréf ESA afmarkar meint brot við lágmarkstrygginguna.

Til viðbótar þessum rökum má, með vísan í ofangreinda aðild Landsbankans að „top-up tryggingum“ í Bretlandi og Hollandi, telja mjög fjarstæðukennt að íslensk stjórnvöld verði krafin um fjárhæð umfram þá lágmarkstryggingu sem íslenska tryggingarkerfið byggði á í samræmi við Evróputilskipun um innistæðutryggingar. Það helgast af því að Icesave reikningar Landsbankans voru tryggðir umfram lágmarkstrygginguna þar sem Landsbankinn hafði keypt sig inn í viðbótartryggingar í þarlendum innistæðutryggingarsjóðum. Það er því ljóst að hollensku og bresku innistæðutryggingarsjóðirni báru ábyrgð á að tryggja innistæður umfram lágmarkstrygginguna. Sú ábyrgð lá ekki hjá hinum íslenska tryggingarsjóði.

Hér er því enn eitt dæmið um að verið sé að hrella íslenskan almenning að ósekju til að gangast við kröfu sem hefur afar veika stoð í lögum og reglum. Það vita Bretar og Hollendingar. Mikilvægt er að Íslendingar séu einnig meðvitaðir um þetta þegar þeir ganga til atkvæðagreiðslu 9. apríl.

Verum óhrædd - verum upplýst - segjum NEI.


Þjóð í höftum

Eftirfarandi grein birtist á Pressunni 15. mars 2011.

Þessa dagana eyða óeðlilega margir Íslendingar tíma sínum í umræður um málefni sem ættu í raun ekki að vera til umræðu miðað við þau fjölmörgu brýnu úrlausnarefni sem þjóðin stendur frammi fyrir. Ég er einn þessara Íslendinga. Málefnið er að sjálfsögðu Icesave. Miklu frekar kysi ég að nýta tíma minn í að sinna hugðarefnum sem veita mér og öðrum meiri gleði, eða til að taka þátt í umræðu um brýnni þjóðfélagsmál sem ekki verða umflúin: orkumál, atvinnumál, umhverfismál, menntamál og svo mætti lengi telja.

Þar sem ríkisstjórn Íslands hefur brugðist illilega í hagsmunagæslu fyrir íslenskan almenning og málsvörn í Icesave málinu hefur almenningur sjálfur þurft að halda uppi vörnum. Ég tel mér skylt að taka þátt í þeirri vörn.

Hvítt er svart og svart er hvítt

Illu heilli fyrir íslenska þjóð virðast ráðamenn haldnir þeirri þráhyggju að íslenskum skattgreiðendum sé nauðugur einn kostur að bera fjárhagstjón sem gjaldþrot islensks einkabanka olli á erlendri grund. En Íslendingar hafa aðra kosti í stöðunni. Íslendingar hafa þann kost að treysta á lög og reglu - treysta á stoðir réttarríkisins.

Í réttarríki sem byggir á frjálsum samningum lendir fjártjón við gjaldþrot banka á þeim sem eiga beina aðild að málinu: einkum hluthöfum og þeim sem lánað hafa fé til bankans, þ.m.t. innistæðueigendum. Þannig eru lögin. Þannig eru leikreglurnar.

Það er ef til vill tímanna tákn að reynt sé að telja íslenskum almenningi trú um að ekki sé þorandi að halda uppi vörnum og láta á það reyna fyrir dómstólum hver réttur Íslands sé í Icesave deilunni. „Dómsstólaleiðin er hættuleg“, er okkur sagt. Betra sé að láta undan og fallast á skilyrði samnings þar sem Íslendingar halda viðsemjendum sínum skaðlausum líkt og Íslendingar hafi þegar gjörtapað dómsmáli.

Gjaldeyrishöft og Icesave

Annað dæmi um málflutning þar sem hlutunum er snúið á hvolf í von um að almenningur beri ekki skynbragð á rökrænt samhengi hlutanna er umræðan um gjaldeyrishöft og áhrif Icesave á þau.

Markmið gjaldeyrishaftanna sem sett voru haustið 2008 var að hefta útstreymi gjaldeyris og forða verulegu falli á gengi krónunnar. Þó að sú ráðstöfun og gagnsemi hennar til lengri tíma sé umdeild ber flestum saman um að gjaldeyrishöftin komu i veg fyrir enn meira fall íslensku krónunnar í kjölfar bankahrunsins en raun ber vitni og að núverandi gengi krónunnar sé talsvert hærra en það væri ef gjaldeyrisviðskipti væru gefin frjáls. Skýr vísbending um að svo sé er sú staðreynd að gengi íslensku krónunnar utan haftanna, svokallað aflandsgengi, er um 60% lægra en skráð gengi seðlabankans.

Fyrir liggur að kostnaður ríkissjóðs vegna fyrirliggjandi Icesave-samninga (Icesave III) er mjög næmur fyrir gengisþróun krónunnar á samningstímanum og ljóst að hófleg lækkun krónunnar myndi margfalda þær upphæðir sem lenda á skattgreiðendum að öðru óbreytt.

Þeir útreikningar sem kynntir hafa verið að undanförnu á líklegum kostnaði ríkissjóðs vegna samningsins byggja á þeirri megin forsendu að gengi krónunnar haldist stöðugt á samningstímanum og þannig má segja að áframhaldandi gjaldeyrishöft séu ein forsenda þess að kostnaður vegna Icesave III verði innan viðráðanlegra marka.

Þá má hverjum manni vera ljóst að samningur, sem felur í sér skuldbindingar til langs tíma um ótilgreindar greiðslur í erlendri mynt sem numið geta tugum og jafnvel hundruðum milljarða, minnkar verulega svigrúm til afnáms gjaldeyrishafta á samningstímanum.

Í ljósi þessa samhengis er nær óskiljanlegt að því sé nú ítrekað haldið fram að samþykkt Icesave-samningsins í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl muni flýta fyrir afnámi gjaldeyrishafta og að höfnun samningsins muni festa þau í sessi. Þetta er eitt dæmi af mörgum um röksemdarfærslu sem gengur gegn heilbrigðri skynsemi þar sem reynt er að sannfæra almenning um að hvítt sé svart og svart sé hvítt.

„Auknar skuldir - bætt lánshæfi“ - getur það verið?

Af sama meiði er sú röksemdarfærsla að með því að takast á hendur skuldbindingar með samþykkt samningsins batni lánshæfimat ríkisins og aðgangur að erlendum lánamörkuðum opnist. Að aukin skuldsetning í erlendri mynt geri ríkissjóð að traustari skuldara og auki áhuga fjárfesta á frekari lánveitingum er svo fjarstæðukenndur málflutningur að kalla má móðgun við sæmilega skynsamt fólk að bera hann á borð. Að vísa til ummæla lánshæfimatsfyrirtækja, sem skömmu fyrir gjaldþrot bankanna settu þá í úrvalsflokk skuldara, gerir málflutninginn síst traustari.

Þótt þjóðin sé orðin langþreytt á umræðunni um Icesave og margir vilji heldur eyða tíma sínum í annað höfum við ekki efni á því að láta tómlæti ráða ferðinni. 

 Advice frame

Sveinn Tryggvason

Verkfræðingur og félagi í ADVICE-hópnum gegn Icesave

www.advice.is


Klappað og klárt?

Eftirfarandi grein eftir mig birtist í Morgunblaðinu 10. febrúar 2011.

Klappað og klárt Útdráttur

Á dögunum hélt formaður Sjálfstæðisflokksins ræðu í Valhöll. Að ræðu lokinni klöppuðu sumir fundarmanna á meðan aðrir sátu hljóðir. Lófatak fundarmanna magnaðist á undraverðan hátt í fjölmiðlum en þó var allra mest klappað á stjórnarheimilinu og meðal pólitískra andstæðinga Sjálfstæðisflokksins.  

Formaðurinn lagði á það áherslu í ræðu sinni að nýfengin afstaða hans til nýrra Icesave-samninga sé í fullu samræmi við þá skoðun sem hann hefur haldið á loft frá upphafi, að betra sé að leysa Icesave-deiluna með samningum en fyrir dómstólum. Máli sínu til stuðnings vitnaði formaðurinn í orð formanns flokksins til 27 ára, Ólafs Thors, frá því í landhelgisdeilunni við Breta árið1961 um að hroðalegustu svikin sem auðið er að fremja sé að svíkjast um að semja.

Það er rétt að viti borin þjóð sem býr á mörkum austurs og vesturs getur – og hefur farsællega unnið eftir þeirri skynsamlegu meginreglu að leita sátta og forðast beri stríð í lengstu lög. Enda erum við herlaus þjóð og höfum aldrei háð eiginlegt stríð við aðra þjóð. En við erum ekki réttlaus þjóð og á Íslandi með lögum skal land byggja. Þegar ekki er hægt að útkljá mál með sátt sem er aðgengileg fyrir deiluaðila er eðlilegt að leita til dómstóla. Þetta fyrirkomulag er grundvallaratriði réttarríkisins og jafnframt eðlilegur farvegur þegar fullvalda ríki eiga í deilum.

Hvort Icesave-samningurinn, sem nú liggur fyrir, telst aðgengileg sátt fyrir Íslendinga er vitanlega matsatriði. Fram hefur komið að formaður Sjálfstæðisflokksins telji kröfu Breta og Hollendinga ekki lögvarða en eftir „ískalt hagsmunamat” sé niðurstaða hans sú að best sé að samþykkja fyrirliggjandi samning. Þessu mati er ég ósammála.

Í fyrsta lagi geta það ekki talist rök í sjálfu sér að benda á að  Icesave-samkomulagið sé sem slíkt gott af þeirri ástæðu einni að um samkomulag sé að ræða. Horfa verður til efnis samkomulagsins til þess að meta, hvort í því felist betri málalyktir en þær að bíða úrskurðar dómstóls. Þótt Bjarni Benediktsson hafi frá upphafi málsins talað fyrir samningaleið er það ekki þar með sagt að hann sé skuldbundinn til að samþykkja eða tala fyrir samþykkt samningsins sem nú liggur fyrir – jafnvel þótt sá samningur kunni að vera sá besti sem viðsemjendur okkar munu bjóða. Þótt samningaleiðin hafi verið fyrsti valkostur  felst engin pólitískur viðsnúningur eða óábyrgt framferði í því að hafna þeim samningi sem nú liggur fyrir. 

SvavarGestsson Mbl

Í öðru lagi er sá málflutningur, sem talsmenn Icesave-samkomulags hafa borið á borð fyrir þjóðina, að fyrirliggjandi samningur sé miklu betri en hinir fyrri, ekki boðleg rök. Það ber vott um vonleysi og metnaðarleysi að meta fyrirliggjandi samning út frá þeim dæmalausa samningi sem Svavar Gestsson sótti með harðfylgi í greipar gáttaðra viðsemjenda sinna og rann óséður í gegnum Stjórnarráðið. Með viðlíka málatilbúnaði væri allt eins hægt að gangast undir kröfu nágrannans um að borga stöðumælasektir hans með þeim „rökum“ að við sleppum við að greiða bifreiðagjöldin hans eins og nágranninn heimtaði upphaflega.

Nú hefur formaður Sjálfstæðisflokksins illu heilli tekið undir þessa rökleysu og pólitískir andstæðingar hans fagna.

Ábyrg afstaða

Ef skoðun formannsins er sú að kröfur Hollendinga og Breta séu ekki lögvarðar er eina ábyrga afstaðan, sem hann getur tekið til málsins, að hafna fyrirliggjandi Icesave-samningum, enda er inntak þeirra hið sama og hinna fyrri: að almenningur greiði skuldir óreiðumanna. Slík afstaða væri í fullu samræmi við fyrri yfirlýsingar, í rökrænu samhengi við afstöðu formannsins til lögmætis krafnanna og í samræmi við grunngildi Sjálfstæðisflokksins og ályktun síðasta landsfundar.

Enn fremur væri slík afstaða til þess fallin að marka endalok fylgispektar flokksins við pilsfaldakapítalisma sem er um það bil að sökkva hverju vestrænu ríki á eftir öðru í skuldafen. Jafnframt myndi slík afstaða marka endurfundi við hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins um frelsi einstaklingsins og traust á réttarríkið. 

Bjarni Benediktsson og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins getur verið stoltur af því að eiga sinn þátt í því að fyrirliggjandi Icesave-samningar eru skárri en sú hörmung sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var tilbúin að samþykkja fyrir hönd þjóðarinnar en þjóðin hafnaði síðan með afgerandi hætti fyrir tilstilli forseta Íslands. Eftir stendur þó samningur sem gerir ráð fyrir að íslenskir skattgreiðendur borgi fyrir pólitísk inngrip Breta og Hollendinga til bjargar eigin bankakerfi. Sá samningur er á ábyrgð og í boði „norrænu velferðarstjórnar“ Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Að þeim samningi á Sjálfstæðisflokkurinn ekki að eiga neina hlutdeild, enda fælist í því pólitískur afleikur og samfylking kringum sjónarspil um að bankakerfi heimsins sé eitthvað annað en gjaldþrota.

Enn er tími til að breyta rétt. 


„Dólgafrjálshyggja” í Háskóla Íslands

Eftirfarandi grein eftir mig birtist í Morgunblaðinu í dag - 15. september 2010.

Tagline DólgafrjálshyggjaStjórnmálaumræða á Íslandi hefur oft verið skrýtin, stundum skemmtileg og  stöku sinnum jafnvel uppbyggileg og málefnaleg. Að undanförnu hefur umræðan þó einkum verið dapurleg. Hér er ekki átt við furður í bloggheimum eða nafnlausan rógburð í netmiðlum. Hér er átt við orðræðu vanstilltra stjórnmálamanna hvort heldur sem er úr ræðustóli Alþingis eða í viðtölum við fréttamenn. Oft má því miður sjá þreytu og stundum reiði og heift en rökstuddur málflutningur, skýr framtíðarsýn og málefnaleg skoðanaskipti eru sjaldséð. Þótt skiljanlegt sé að álag hafi áhrif á dómgreind og valdi ójafnvægi verður að gera þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir fari fram með sæmilegu fordæmi. Hins vegar ætti fólk að geta treyst því að umræða um þjóðmál í háskólasamfélaginu hvíli á traustum grunni.

Ég gerði mér því vonir um vandaða og upplýsandi umræðu þegar ég sá auglýsta fyrirlestrarröð sem Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands og EDDA öndvegissetur, sem einnig er sjálfstæð rannsóknarmiðstöð innan Háskóla Íslands standa fyrir þessar vikurnar og fjallar um frjálshyggju. Tilefni fyrirlestranna er útgáfa bókarinnar „Eilífðarvélin: Uppgjör við nýfrjálshyggjuna” sem Þjóðmálastofnun gefur út undir ritstjórn Kolbeins Stefánssonar, sérfræðings Þjóðmálastofnunar og doktorsnema í félagsfræði, sem jafnframt reið á vaðið með fyrsta fyrirlesturinn.

Væntingarnar voru að vísu hófstilltar í ljósi vonbrigða síðastliðið vor með framlag Háskóla Íslands til umræðunnar um lærdóma af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og urðu mér tilefni til greinarskrifa sem bar heitið „Háskóli Íslands í fallhættu”. Þar gerði ég m.a. athugasemd við áróðurskenndan málflutning Stefáns Ólafssonar, prófessors, sem átti ekkert skylt við vísindalega hlutlægni.

Það er skemmst frá því að segja að fyrirlestur Kolbeins Stefánssonar, sem samkvæmt auglýsingu fjallaði um „samfélagssýn frjálshyggjunnar og þær hugmyndir um einstaklinginn sem hún hvílir á”, var afleitur. Efnistök sýndu engin merki um vísindalega hlutlægni enda fór fyrirlesarinn ekki leynt með óbeit sína á viðfangsefninu. Hugtakanotkun var ruglingsleg og ónákvæm enda lagði fyrirlesari sig í þeim efnum fremur fram um hótfyndni en vandaða og yfirvegaða umfjöllun. Þannig kynnti fyrirlesarinn til sögunnar nýtt hugtak, „dólgafrjálshyggju”, sem ætla mætti að upprunnin væri hjá nafnlausum rógsmönnum í bloggheimum fremur en í rannsóknarstofnun innan Háskóla Íslands. Fyrirlesarinn staðhæfði að dólgafrjálshyggja væri sú tegund frjálshyggju sem ríkti á Íslandi og væri dólgafrjálshyggan orsök efnahagshrunsins. Ekki var gerð nein tilraun til að renna stoðum undir þá staðhæfingu. Áheyrendur gátu þó skilið að hér væri á ferðinni enn hræðilegri útgáfa af frjálshyggju en hin illræmda nýfrjálshyggja sem vinstrisinnaðir stjórnmálamenn og meintir fræðimenn hafa gjarnan dregið fram þegar eftirspurn hefur verið eftir einföldum og órökstuddum skýringum á örsökum efnahagshrunsins.

Svo nálægt en þó svo fjarri
Tilt   Nýfrjálshyggjan í framkvæmdEins og í erindi Stefáns Ólafssonar og var tilefni greinarskrifa minna síðastliðið vor, komst boðskapur Kolbeins Stefánssonar á köflum glettilega nálægt rót vandans. Þannig fjallaði Kolbeinn undir lok fyrirlestrarins um „nýfrjálshyggjuna í framkvæmd” þar sem þrjú fyrirbæri - 1) ríkisábyrgðir, 2) þrautavaralán Seðlabanka og 3) innstæðutryggingar - komu fyrir á sömu glærunni en síðasti punktur glærunnar var eftirfarandi staðhæfing: „Pilsfaldakapítalismi er nýfrjálshyggjan í framkvæmd”. Ef litið er burt frá því að hugtakið „pilsfaldakapítalismi” hafi ekki verið skilgreint til fullnustu er staðhæfingin  bersýnilega í andstöðu við málflutning um að nýfrjálshyggja sé afbrigði frjálshyggju enda hlýtur öllum að vera ljóst að frjálshyggjumenn hafa lengi barist gegn hvers kyns ríkisábyrgð, miðstýrðum peningakerfum og þrautavaralánum Seðlabanka og innistæðutryggingum. Þessu til stuðnings mætti nefna skrif Ludwig von Mises, Friedrich Hayek og Murray N. Rothbard sem eru til vitnis um andstöðu frjálshyggjumanna við „pilsfaldakapítalisma” og „nýfrjálshyggju”.

Þess ber þó að geta að Milton Friedman, meðal annarra hagfræðinga af hinum svokallaða Chicago-skóla, sem í ýmsu tilliti mætti kalla frjálshyggjumann var fylgjandi miðstýringu Seðlabanka á peningamagni (e. monetarism) sem á mikið skylt við keynesíska hagfræði en er algjörri í andstöðu við skoðanir Ludwig von Mises og annarra hagfræðinga af austurríska skólanum sem aðhyllast frjálshyggju á sviði peningamála.

En hvernig sem slíkum litbrigðum líður er ljóst að einhæfur, ómálefnalegur og mótsagnakenndur fyrirlestur Kolbeins Stefánssonar um frjálshyggju var slæm byrjun og ekki góð bókarkynning. Þótt málatilbúnaður af því tagi sem ritstjóri Eilífðarvélarinnar hafði uppi í nafni Þjóðmálastofnunar kunni að vera óhjákvæmilegur fylgikvilli í dægurmálaumræðu er hann algerlega óboðlegur sem framlag Háskóla Íslands til uppbyggilegrar stjórnmálaumræðu.

Ég vil því endurtaka hvatningu mína frá í vor um að rektor Háskóla Íslands og annað forystufólk íslenska fræðasamfélagsins geri betur.


Háskóli Íslands í fallhættu

Eftirfarandi grein eftir mig birtist í styttri útgáfu í Morgunblaðinu í dag - 8. maí 2010.

Fallhætta taglineHáskóli Íslands stóð fyrir fimm opnum umræðufundum dagana 26.-30. apríl 2010 um lærdóma af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Báru fundirnir heitið "Uppgjör, ábyrgð og endurmat". Fundirnir voru allir afar vel sóttir og ljóst að margir höfðu áhuga á að heyra hvað háskólamenn hefðu fram að færa. 

Sum erindin voru góð - skýr, málefnaleg og fróðleg. Ber þá helst að nefna erindi Huldu Þórisdóttur sem fjallaði um Efnahagshrunið sem afsprengi aðstæðna og fjötraðrar skynsemi (i), erindi Eiríks Jónssonar um Eftirlitsstofnanir fjármálakerfisins (ii) og Þórðar Bogasonar um Ráðherraábyrg (iii).

Nokkur erindi voru hins vegar á mörkunum að geta talist boðlegt framlag háskólasamfélagsins þar sem þau minntu meira á lélegar bloggfærslur en framlag akademíunnar til þjóðmálaumræðu. Órökstuddar alhæfingar, aulabrandarar á kostnað einstaklinga og óyfirveguð og ósanngjörn meðferð á viðfangsefninu á ekki heima í erindum háskólamanna sem taka sjálfa sig alvarlega. Að þessu leyti olli HÍ vonbrigðum.

Einsleit umræða

Annað sem einkenndi umræðuna og ályktanir og skoðanir frummælenda var einsleitnin. Því var haldið fram að sökudólgurinn væri frjálshyggjan, afskiptaleysið og skortur á lögum. Um leið var því slegið föstu að ástæður hrunsins hefðu legið í stærð bankanna miðað við stærð hagkerfisins og þannig getu Seðlabankans og ríkisins til að hlaupa undir bagga með bönkum á fallandi fæti. Enginn frummælenda hafði orð á því að frjálshyggjumenn hefðu áratugum saman bent á að þrautavaralán frá Seðlabönkum og ýmis önnur afskiptasemi ríkisins ýttu undir áhættusækni í fjármálakerfinu og reglubundið hrun. Afstaða flestra frummælenda var að þessu leyti einsleit og umgjörð Háskólans því ekki „vísindaleg".

Öfugmæli Stefáns Ólafssonar

Stefán Ólafsson, prófessor, var lengst allra frá vísindalegri hlutlægni enda rakst hvað á annars horn í erindi hans. Í stað þess að gera tilraun til að byggja á haldbærum rökum og álykta út frá þeim kaus prófessorinn að nýta tækifærið til að viðra gamalkunnar ásakanir á hendur pólitískum andstæðingum. Ásakanir sem prófessorinn fékk svo enn aftur tækifæri til að útvarpa gagnrýnislaust í Speglinum í Ríkisútvarpinu, þriðjudaginn 4. maí.

MisesHayek tiltEin furðulegustu öfugmæli í erindi Stefáns Ólafssonar fólust í staðhæfingunni um að tíðarandi frjálshyggjunnar greiddi leið fyrir taumlausa þróun bóluhagkerfis sem sprakk í hruninu. Þessa staðhæfingu lagði prófessorinn á borð fyrir áheyrendur án þess að geta þess að austurríski hagfræðiskólinn - sem með réttu mætti nefna hagfræði frjálshyggjumanna - útskýrir mjög nákvæmlega hvernig eignabólur verða til og springa - en Friedrich Hayek fékk einmitt nóbelsverðlaun í hagfræði 1974 fyrir framlag sitt til þessarar kenningar sem á ensku nefnist austrian business cycle theory - og á rætur sínar að rekja til skrifa Ludwig von Mises árið 1912.

Frjálshyggjumenn af austuríska skólanum hafa svo sannarlega varað við ósjálfbærni bóluhagkerfisins eins og fjölmörg dæmi sanna. Fyrir utan skrif hagfræðinga á borð við Mises og Hayek í gegnum tíðina mætti sem dæmi nefna áratugalanga baráttu bandaríska stjórnmálamannsins Ron Paul (sbr. þessa samantekt eða þetta viðtal). Einnig eru afdráttarlausar viðvaranir Peter Schiff vel þekktar en samatekt á sjónvarpsviðtölum við Schiff öðluðust mikla útbreiðslu á Youtube undir heitinu Peter Schiff was right. Ron Paul og Peter Schiff eru báðir miklir frjálshyggjumenn og vísa iðulega í austurríska hagfræðiskólann máli sínu til stuðnings.

Staðhæfing Stefáns Ólafssonar um að frjálshyggja hafi ýtt undir bóluhagkerfið er ekki einungis órökstudd og röng heldur fáránleg í ljósi aldar gamallar baráttu austurríska hagfræðiskólans gegn verðbólum.  

Öllu verra er þó að ranghugmyndir á borð við þær sem hrjá Stefán Ólafsson leiða til rangrar sjúkdómsgreiningar og geta orðið til þess að koma þjóðfélaginu í enn meiri flækju þar sem ábyrgð eins flækist í áhættu annars. Slíka samfélagsgerð mætti e.t.v. kalla "pilsfaldskapítalisma" - þar sem gróði er einkavæddur og tapið er þjóðnýtt - en slík samfélagsgerð á ekkert skylt við frjálshyggju.

Strámaðurinn Laffer

Í fyrirlestri sínum komst Stefán Ólafsson þó á köflum glettilega nálægt rót vandans. Þannig sýndi prófessorinn glæru yfir skuldasöfnun þjóðarinnar erlendis sem hann lýsti sem „bestu myndinni af hrunadansinum". Í stað þess að tengja aukna skuldasöfnun þjóðarinnar erlendis við flóðbylgju lánsfjár sem reið yfir heimsbyggðina á þessum árum - og var bein afleiðing peningastefnu seðlabanka heimsins í anda Keynes - fór fyrirlesarinn því miður út af sporinu og niður í skotgrafirnar.

Skotmarkið var hið sama og venjulega og reyndi prófessorinn að gera Arthur Laffer að „meistara frjálshyggjunnar" í þeim tilgangi að koma höggi á frjálshyggjuna með því að segja skrýtlu um ummæli Laffer í Þjóðmenningarhúsinu í október 2007. Það sem tekur broddinn úr skrýtlunni er að Laffer er enginn frjálshyggjumaður. Með tilliti til peningastefnu og þróunar skulda og peningamagns - sem var umræðuefni prófessorsins þegar hann fór út af sporinu - er Arthur Laffer býsna langt frá því að vera frjálshyggjumaður. Það þekkja allir sem vita af frægu veðmáli sem Laffer og fyrrnefndur Peter Schiff  gerðu í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni CNBC í ágúst 2006. Í viðtalinu varaði Peter Schiff við því að neysla væri drifin áfram af skuldum og gervihækkun fasteigna og hlutabréfa skapaði fölsk pappírsverðmæti. Áður en langt um liði myndi bólan springa og fólk skilið eftir í skuldafeni. Arthur Laffer sagði aftur á móti efnahag Bandaríkjanna aldrei hafa verið betri og að peningastefna seðlabankans væri frábær! Það er skemmst frá því að segja, sem naumast fer nú milli mála, að frjálshyggjumaðurinn Peter Schiff vann veðmálið.

 

Skoðanir og ummæli Arthur Laffer um peningastefnu eru augljóslega í andstöðu við skoðanir frjálshyggjumanna. Það hindraði Stefán Ólafsson samt ekki í því að reyna að gera strámann úr Laffer og nota í pólitískum áróðri enda sjálfsagt flestir áheyrenda sem leggja trúnað við það sem prófessor í Háskóla Íslands segir í erindi um jafn alvarlegt mál og hrun íslensks efnahags.

Litbrigði málefnalegrar umræðu eða einstefna og alhæfingar

Það er sök sér að tilhneiging prófessors í Háskóla Íslands til stjórnmálaáróðurs reki hann í ógöngur fjarri málefnalegri og fræðilegri umræðu. Það er öllu verra að Háskóli Íslands bjóði ekki upp á fjölbreyttari, uppbyggilegri og yfirvegaðari umgjörð en raun ber vitni.

Framtak HÍ um opna umræðufundi er lofsvert. Sumir fyrirlestrarnir voru góðir og gagnlegir og flestir áhugaverðir. Hjarðmenningin, einstefnan og gagnrýnisleysið má hins vegar ekki verða fræðasamfélaginu jafn skeinuhætt og tilfellið varð með íslenska fjármálakerfið. Ég hvet því rektor Háskóla Íslands og annað forystufólk íslenska fræðasamfélagsins til að gera betur.

 


Bastiat og það sem ekki sést

Bastiat tiltFranski rithöfundurinn Frédéric Bastiat skrifaði árið 1850 stutta dæmisögu sem þeir sem hana skilja geta dregið mikilvægan og sígildan lærdóm af. Dæmisaga Bastiat kallast á frönsku Ce qu'on voit et ce qu'on ne voit pas sem á íslensku myndi útleggjast það sem sést og það sem ekki sést.

Boðskapur sögunnar er sá að ekki sé ráðlegt að meta gæði aðgerða með því að líta eingöngu á þær afleiðingar sem fyrir augum ber og eru augljósar heldur þurfi jafnan að taka með í reikninginn þær afleiðingar sem ekki eru augljósar við fyrstu sýn.

Dæmisagan fjallar um búðareiganda sem verður fyrir því dag einn að sonur hans brýtur gluggarúðu í búð föður síns. Fólk sem drífur að reynir að hughreysta búðareigandann með þeim orðum að fátt sé svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Ef engar rúður brotnuðu yrði lítið um vinnu fyrir glergerðarmanninn og að rúðubrotið hafi í raun verið til góðs þar sem það skapaði atvinnu fyrir glergerðarmanninn.

Bastiat bendir á að þeir sex frankar sem búðareigandinn þurfti að greiða glergerðarmanninum fyrir nýja rúðu hefðu annars verið notaðir í að kaupa nýja skó. Afleiðing rúðubrotsins hafi því ekki eingöngu verið hið augljósa: að glergerðarmaðurinn útbjó nýja rúðu, heldur einnig að búðareigandinn eignaðist ekki nýja skó. Hin ósýnilega afleiðing var því sú að skógerðarmaðurinn missti af viðskiptum við búðareigandann. Afleiðingar rúðubrotsins voru því ekki ávinningur samfélagsins í formi nýrrar rúðu heldur þvert á móti tap samfélagsins í formi skópars sem aldrei varð til.

Þessi boðskapur kann að virðast svo sjálfsagður að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því að vel menntað og hugsandi nútímafólk falli í sömu gryfju og nágrannar búðareigandans í dæmisögu Bastiat. Því miður er einmitt þessi sama gryfja troðfull af hagfræðingum, stjórnmálamönnum og alls kyns fólki sem fellur fyrir rökvillunni um brotna gluggann.

Eitt algengasta dæmið um hvernig rökvillan um brotna gluggann þvælist fyrir stjórnmálamönnum er gamalkunnugt tal um að ríkið þurfi að skapa störf. Slík "sköpun" fer gjarnan fram með því að skattleggja (eða taka lán og þannig skattleggja framtíðina) og þar með eyðileggja ósýnileg störf víða í samfélaginu til að til þess að skapa sýnileg störf t.d. við að byggja tónlistarhús.

brokenWindow Harpa 

Skrif Paul Krugman, hagfræðings og Nóbelsverðlaunahafa, um hvernig árásirnar á Tvíburaturnana myndu örva hagkerfið og vera til góðs er líka ömurleg birtingarmynd sömu rökvillu. Fleiri dæmi eru um að keynesískir hagfræðingar hafi litið með velþóknun á eyðileggingar stríða og hamfara þar sem enduruppbyggingin sé svo góð fyrir hagkerfið! Það kæmi ekki á óvart þótt einhver íslenskur hagfræðingur eða stjórnmálamaður stigi fram á næstunni og lýsti gagnsemi eldgosa og hamfaraflóða til örvunar á íslensku efnahagslífi!

Myndskeiðið hér að neðan sýnir á örfáum mínútum nokkur dæmi um þetta.

Niðurlag

Töfraformúla Keynes um hvernig laga megi meinsemdir hagkerfisins með meiri eyðslu er sennilega ein lífseigasta birtingarmyndin á rökvillunni um brotna gluggann. Aðgerðir stjórnvalda víða um heim til "örvunar" eða "björgunar" eru nýjasta dæmið. Og um leið það dýrasta.  

Það er kominn tími til að hætta að endurnýta ónýtar hugmyndir sem hvíla á rökvillu sem Bastiat útskýrði fyrir heiminum fyrir 160 árum. Er það ekki?


Von til bjartsýni

Orð Gylfa Magnússonar á Alþingi í dag um að ekki megi láta það gerast aftur að bankar afli fjár í skjóli ríkisins voru óvænt ánægja miðað við fyrri yfirlýsingar ráðherrans og ríkisstjórnarinnar. Vekja orð ráðherrans von um að Ísland nái að vinna á rót vandans sem innbyggður er í nútíma fjármálakerfi og er hin eiginlega grunnorsök fjármálahrunsins hér heima og erlendis. Orðrétt sagði Gylfi:

Við getum ekki látið það líðast að fjármálafyrirtæki afli fjár í trausti þess að hið opinbera muni hlaupa undir bagga ef að menn tefla of djarft

Ennfremur sagði Gylfi:

Áhættan af rekstri fjármálafyrirtækja á fyrst og fremst að vera hjá eigendum fjármálafyrirtækja. Þeir mega vissulega njóta þess ef vel gengur, en þeir eiga líka að bera megnið af skellinum ef illa gengur

Ofangreind orð eru kærkomin tilbreyting frá margítrekaðri orðræðu sem því miður er algengt svar  margra stjórnmálamanna úr öllum flokkum um að nauðsynlegustu viðbrögð við bankahruninu séu að styrkja, auka og herða eftirlit með bönkum. Eins og ég hef áður bent á hafa tilraunir til að láta opinbert eftirlit koma í staðinn fyrir sjálfsprottið aðhald viðskiptavina fjármálafyrirtækja sýnt sig að vera algjörlega misheppnaðar. Árvekni hvers einstaks borgara og viðleitni til að gæta hagsmuna sinna er eina leiðin til að hreinsa út ósjálfbæra starfsemi.

Megin niðurstaða RNA

Við lestur skýrslu RNA um bankahrunið ætti flestum að vera ljóst að bankahrunið er fyrst og fremst því um að kenna að eigendur og stjórnendur bankanna gátu farið og fóru vægast sagt "glannalega" í lánveitingum til sjálf sín og annarra og beittu mjög "óvönduðum" aðferðum við að hylja raunverulega stöðu bankanna svo ekki sé fastar að orði kveðið þótt ærin ástæða sé til! Þetta er megin niðurstaða rannsóknarnefndarinnar og mjög brýnt að þau sakamál sem þurfa að fá sinn gang í réttarkerfinu geri það án tafar. 

Meira af því sem virkar ekki? Nei takk!

Skýrslan er einnig til vitnis um átakanlegt getuleysi FME til að rækja skyldur sínar og augljóst að stofnunin hafði enga burði til að fylgjast með hvað þegar hafði átt sér stað í bönkunum hvað þá að koma í veg fyrir hrunið. Eftirlitsstofnanir í Bandaríkjunum, Bretlandi eða annars staðar sem eru mörgum stærðargráðum stærri en FME höfðu heldur enga möguleika á því að koma í veg fyrir hrunið. Þetta ætti að vera að býsna sterk vísbending um að þetta fyrirkomulag virkar ekki. Þess utan ætti það að vera sjálfgefið að 'retróspektíft' eftirlit kemur ekki í veg fyrir að "rán" sé framið og getur í besta falli rannsakað ránsvettvang og þannig stuðlað að því að hægt sé að sækja gerendur til saka fyrir dómstólum.

Stærð gjaldeyrisvaraforðans - Hlutverk seðlabanka

Réttlætingin fyrir því að eftirlitið (FME) þurfi að vaxa í takt við bankakerfið er sú að ríkið þurfi að hlaupa undir bagga ef illa fer. Það sama á við um stærð gjaldeyrisvaraforðans. Hversu oft hafa landsmenn ekki heyrt að gjaldeyrisvaraforðinn hafi þurft að stækka af því að bankarnir voru orðnir svo stórir. Til hvers? Til að hægt sé að "bjarga" þeim - 'beila þá út'. Þarna liggur ein af grundvallar meinsemdum nútíma bankastarfsemi. Meinsemdin er alþjóðleg, hún er kerfislæg og hún er í raun bundin í lög. Eitt af lögbundnum hlutverkum Seðlabanka er að vera lánveitandi til þrautavara (Lender of last resort). Þessi beina og óbeina ríkisábyrgð sem fjármálafyrirtæki skýla sér við er ekki einungis réttlæting fyrir opinberu eftirliti heldur enn fremur fyrirkomulag sem eykur áhættusækni í bankakerfinu (moral hazard) og eykur í sjálfu sér líkur á fjármálalegum óstöðugleika og hruni.

Gripdeildarkapítalismi eða von um bjartari framtíð

Það ætti að vera augljóst að besta leiðin til að fá banka (og bankakerfi) til að hegða sér á skikkanlegan og «sjálfbæran» hátt sé að notast til virkni hins frjálsa markaðar þar sem þeir sparifjáreigendur og aðrir lánveitendur sem treysta óreiðumönnum fyrir fé sínu gera það á eigin reikning og risiko. Það er jafn augljóst að markaðurinn myndi fljótt og örugglega hreinsa út þá banka sem ekki eru traustsins verðir. Í raun má segja að bankahrunið á Íslandi (og í raun mun víðar) sé slík hreinsun - en því miður er skattfé (og peningaprentun með tilheyrandi verðbólgu) notað til að tryggja að sama ónýta kerfið - sem gerir óreiðumönnum kleift að stunda "gripdeildarkapítalisma" - heldur velli enn um sinn. Maður getur þó vonað að orð viðskiptaráðherra á Alþingi í dag séu fyrirheit um breytta og betri tíma í þessum efnum.

Ulfarsfell Reykjavik


mbl.is Aldrei aftur „too big to fail“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grein mín í Berlingske Tidende - Ført bag lyset

Í byrjun vikunnar fjallaði leiðari danska blaðsins Berlingske Tidende um Icesave. Þar var afstaðan afdráttarlaus sú að Íslendingar ættu að að "taka ábyrgð á krísunni og borga" - veskú! Deginum áður hafði hinn geðþekki Íslandsvinur og utanríkisráðherra Danmerkur til margra ára, Uffe Elleman-Jensen, skrifað á blogg Berlingske að Ísland þyrfti að standa við skuldbindingar sínar - sérstaklega ef landið gerði sér vonir um að vera með í "det europæiske fællesskab" sem er krúttheiti Ellemanns fyrir ESB.

Ofangreind skrif urðu mér tilefni til að skrifa stutta grein í þeim tilgangi að verja málstað Íslendinga í Icesave-málinu út frá þeim rökum sem ég taldi best þótt ríkisstjórn Íslands hafi látið undir höfuð leggjast að kynna sjónarmið Íslands í erlendum fjölmiðlum. Greinina sendi ég til Berlingske Tidende og var hún birt bæði í prent og vefútgáfum blaðsins fimmtudaginn 11. mars 2010 og má nálgast hér.

FoertBagLyset BilledetekstSmall

Þar sem einn kunnasti  fjölmiðlamaður Íslands, Egill Helgason, hafði gert leiðaraskrifum Berlingske góð skil í á bloggsíðu sinni vikunni lét ég Silfur Egils á Eyjunni vita af birtingu greinarinnar. Ég geri fastlega ráð fyrir að Egill fylgi málinu eftir og láti lesendur sína vita af svargrein minni þegar hann hefur tök á...


Svikaforðakerfið - og varðmenn þess

Eftirfarandi grein eftir mig birtist í Morgunblaðinu í dag - 11. mars. 2010.

ÚtdrátturÞað er fátítt að álitsgjafar í íslenskum fjölmiðlum færi fram rök í anda hins svokallaða austuríska hagfræðiskóla. “Nú fylgjum við allir Keynes”, á Richard Nixon að hafa sagt, og virðast ráðamenn vestan hafs og austan trúa því að hægt sé að komast upp úr kreppu með lyfjablöndu Keynes: aukinni eyðslu og skuldsetningu, eins og nýleg dæmi sanna. Skemmst er frá því að segja að austuríski hagfræðiskólinn tekur einarða afstöðu gegn Keynes og telur lyfjablöndu hans í raun eitur sem veldur kreppu fremur en að koma í veg fyrir þær.

PeterSchiff TiltLesendur Morgunblaðsins fengu nýlega tækifæri til að kynnast viðhorfum austuríska hagfræðiskólans þegar blaðið birti viðtal við Peter Schiff hagfræðing og frambjóðanda til bandarísku öldungadeildarinnar. Aðspurður um afstöðu sína til brotaforðakerfisins (fractional reserve banking), þar sem bönkum er einungis skylt að halda eftir litlum hluta innistæðna, svaraði Schiff m.a.: “Mér sjálfum finnst kerfi sem byggist á innleysanlegum innistæðum og brotaforða ekki sjálfbært eða fjárhagslega traust. En leyfum markaðnum að ákveða það.”

Ósjálfbærni brotaforðakerfisins, sem Schiff nefnir, felst í því að enginn banki hefur aðgang að sjóðum til að greiða öllum innstæðueigendum innstæður sínar samtímis, ef þeir óska þess. Í raun geta bankar einungis borgað brot af þeim fjármunum sem innstæðueigendur treysta bönkum fyrir á hverjum tíma. Vanalega er þessu lýst á þann veg að enginn banki þoli “áhlaup” (bank run) – þ.e. þegar margir innstæðueigendur sama banka reyna að taka út fé sitt.

Svikaforðakerfi og innlánstryggingar
MblGreinTiltEinn þekktasti hagfræðingur austuríska skólans, Murray N. Rothbard, kallar brotaforðakerfið ekki “fractional reserve banking” heldur svikaforðakerfi (fraudulent reserve banking). Í merkri bók hans, “The Case Against The Fed”, má finna ítarlegan rökstuðning gegn brotaforðakerfinu sem í stuttu máli er lýst sem “löglegri fölsun”.

Rothbard rekur í bók sinni hvernig bandaríska innlánstryggigarkerfið var búið til í því skyni að blekkja almenning og telja honum trú um að innstæður væru tryggar enda þótt bankarnir sjálfir og bankakerfið í heild væri gjaldþrota. Útilokað væri að tryggja innstæður við þær aðstæður, enda eiga innstæðutryggingarsjóðir ekki eignir nema sem samsvarar broti af þeim innstæðum sem þeim er ætlað að tryggja.

Varðmenn kerfisins

Hið svokallaða Icesave-mál er eitt umdeildasta mál íslenskrar stjórnmálasögu frá upphafi. Málefnalegum rökum til stuðnings málstað íslenskra skattgreiðenda um að þeim bæri ekki að ábyrgjast Icesave-skuldirnar hefur verið ýtt til hliðar af ríkisstjórn Íslands, sem kallar sig “fyrstu hreinu vinstristjórnina”. Þess í stað hefur sjónarmiðum bresku og hollensku ríkisstjórnanna verið haldið uppi af svo miklu harðfylgi af stjórnarliðum að almenningur trúði því að Icesave-skuldirnar væru “skuldbindingar okkar”.

Þessum röngu hugmyndum hefur nú verið hrundið og má í því sambandi benda á greinar Sigurðar Líndals, Lárusar Blöndals og Stefáns Más Stefánssonar. Til vara hefur núverandi ríkisstjórn alið á hugmynd um “siðferðilega ábyrgð” Íslendinga á Icesave. Þess vegna eigi Íslendingar skilið hóprefsingu sem verði þjóðinni ógleymanleg áminning. Ekki dettur Dönum í hug að þeir sem þjóð beri ábyrgð á skjalafalsi Stein Bagger og fölskum ársreikningum fyrirtækis hans, IT Factory. Bandaríkjamönnum kemur heldur ekki til hugar að þeir sem þjóð beri ábyrgð á svikamyllu Bernard Madoff. Í báðum tilvikum var um að ræða svik, skjalafals og önnur lögbrot.

Icesave reikningar Landsbankans í Hollandi og Bretlandi fólu aftur á móti ekki í sér önnur svik en þau sem eru innbyggð í alla nútíma bankastarfsemi og byggja á brotaforðakerfi – og eru ekki talin varða við lög. Þessu kerfi er núverandi ríkisstjórn mjög í mun að viðhalda.

Niðurlag
Það er því ekki aðeins brotaforðakerfið sem austuríski hagfræðiskólinn varar við heldur ekki síður innstæðutryggingakerfið sem heldur uppi fölsku trausti almennings á bankakerfinu og gerir sparifjáreigendur andvaralausa og um leið ófæra að veita bönkum það aðhald sem er eina leiðin til að tryggja eðlilega viðskiptahætti.

Tilraunir til að láta opinbert eftirlit koma í staðinn fyrir sjálfsprottið aðhald viðskiptavina fjármálafyrirtækja hefur sýnt sig að vera algjörlega misheppnaðar. Árvekni hvers einstaks borgara og viðleitni hans til að gæta hagsmuna sinna er eina færa leiðin. Eingöngu á þann hátt er unnt að tryggja frelsi og fjárhagslegt sjálfstæði þjóðar og stuðla að almennri velsæld.

Í Icesave-málinu felast hagsmunir hollensku og bresku ríkisstjórnanna einkum í því að viðhalda því falska trausti sem almenningur hefur á bankakerfum heimsins. Núverandi ríkisstjórn Íslands virðist reiðubúin til að neyða íslenska skattgreiðendur til þess að borga skuldir óreiðumanna til þess að viðhalda þessu falska og innstæðulausa trausti.


Að tryggja innistæðulaust traust

Inngangur

Hið svokallaða Icesave-mál er eitt umdeildasta mál íslenskrar stjórnmálasögu. Pólitískt líf einstaka stjórnmálamanna hefur verið lagt að veði og samstarf núverandi stjórnarflokka hefur á köflum hangið á bláþræði og málið valdið úrsögn ráðherra úr ríkisstjórn og stuðlað að klofningi hjá öðrum stjórnarflokknum, enda hafa forystumenn stjórnarflokkanna gengið hart fram í að afla málinu stuðnings. Einstaka stjórnarþingmenn, sem lýst höfðu efasemdum eða andstöðu við málið, voru beittir þrýstingi og því ítrekað haldið fram að efnahagsleg einangrun, útskúfun og önnur ógæfa myndi lenda á landi og þjóð ef Alþingi samþykkti ekki ríkisábyrgð.

Þannig hefur málsvörn ríkisstjórnar Íslands verið – allt frá því að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra færði þjóðinni fyrstu fréttir af “glæsilegri niðurstöðu” samninganefndarinnar þar til Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kvað þjóðaratkvæðagreiðslu um málið vera “markleysu” þar sem fyrir lægi mun betra tilboð!

GreinaCollage 02sMálefnalegum rökum til stuðnings málstað íslenskra skattgreiðenda um að þeim bæri ekki að ábyrgjast Icesave-skuldirnar hefur verið ýtt til hliðar af ríkisstjórn Íslands. Þess í stað hefur sjónarmiðum bresku og hollensku ríkisstjórnanna verið haldið uppi af svo miklu harðfylgi og af slíkum sannfæringarkrafti af stjórnarliðum að íslenskur almenningur trúði því að honum bæri lagaleg skylda til að axla þessar byrðar. Fólki var talin trú um að Icesave-skuldir Landsbankans við breska og hollenska sparifjáreigendur væri “skuldbinding okkar”.

Þessum ranghugmyndum hefur nú verið hrundið. Fjölmargir mætir menn hafa fært gild rök til stuðnings máli Íslands – rökum sem varða allt frá tæknilegum atriðum um meðferð krafna til stjórnarskrárbundinna ákvæða um réttmætar skuldbindingar ríkisins. Í því sambandi má m.a. benda á greinar Sigurðar Líndals lagaprófessors, Lárusar L. Blöndals hæstaréttarlögmanns og Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors, auk þess sem samtökin InDefence hafa unnið ötullega að því að kynna málstað Íslendinga, bæði fyrir Íslendingum sjálfum og erlendum fjölmiðum.

Það er þó ekki fyrr en á allra síðustu mánuðum, eftir að vaxandi fjöldi málsmetandi erlendra aðila á borð við ritstjóra Financial Times, hafa lýst stuðningi við málstað Íslands, að íslenskur almenningur hefur áttað sig. Svo virðist sem vaxandi hópur almennings geri sér í dag grein fyrir því að hin svokallaða “skuldbinding okkar” í Icesave-málinu er ekki til. Það er því eðlileg og réttlát krafa Íslendinga að á það verði látið reyna fyrir þar til bærum dómsstólum hvort meint skuldbinding sé fyrir hendi.

Í millitíðinni er það óeðlilegt og andstætt hagsmunum Íslands að láta undan óbilgjörnum kröfum Breta og Hollendinga þótt hægt sé að hafa á því nokkurn skilning að yfirdrifnar þvingunaraðgerðir bresku ríkistjórnarinnar hafi skotið íslenskum ráðamönnum skelk í bringu þegar óvissan og hræðslan var hér sem mest.

Siðferðileg ábyrgð – sameiginleg refsing

Frá upphafi – og þó enn meir eftir því sem fjarað hefur undan rökum um lagalegar skuldbindingar Íslendinga í Icesave-málinu – hefur borið á því að undanlátsemi núverandi ríkistjórnar gagnvart kröfum Breta og Hollendinga hafi verið réttlætt með vísan í “siðferðilega ábyrgð” Íslendinga. Vandasamt er að gera grein fyrir því hvernig talsmenn þessa sjónarmiðs telja að sú siðferðilega ábyrgð sé tilkomin. Þó má segja að endurtekið stef í þessari ranghugmynd sé sú að íslenskir kjósendur beri ábyrgð á því stjórnarfari og andrúmslofti sem á að hafa myndast á Íslandi á undanförnum árum – engar reglur hafi gilt um fjármálastarfsemi hér á landi, lítið sem ekkert eftirlit hafi verið, einkavæðing, græðgisvæðing, óheft frjálshyggja, o.s.frv. – og því sé eðlilegt að landsmenn taki út sameiginlega refsingu og bæti það tap sem Bretar og Hollendingar hafi orðið fyrir í þessu andrúmslofti.

Of langt mál er að hrekja hér allar staðreyndavillur og rökleysur þeirra sem alið hafa á ranghugmyndinni um “siðferðilega ábyrgð” Íslendinga á Icesave. En vert er að benda á að þær reglur, sem gilda um fjármálastarfsemi á Íslandi, eru í aðalatriðum hinar sömu og gilda í öðrum vestrænum löndum, enda bróðurparturinn af gildandi lögum um fjármálastarfsemi á Íslandi bein þýðing laga sem gilda innan ESB og gildistaka þeirra í íslenska löggjöf tilkomin vegna beinna tilskipana frá ESB. Íslensk lög um innistæðutryggingar (lög nr. 98/1999) er dæmi um slíka löggjöf.

Vefritið Andríki hefur ítrekað bent á þá staðreynd að lög um íslenskan fjármálamarkað eru mörg og umfangsmikil enda vandfundin sú starfsemi sem er jafn kyrfilega bundin í lögum og reglum og undir jafn miklu eftirliti. Hinn 5. febrúar 2009 birtust auglýsingar í Morgublaðinu, Fréttablaðinu og Viðskiptablaðinu frá Andríki þar sem vakin er athygli á þessari staðreynd. Engu að síður hafa ráðherrar núverandi ríkisstjórnar og ýmsir aðrir álitsgjafar, sem almenningur hefur talið ástæðu til að taka trúanlega, ítrekað komist upp með að halda því fram í fjölmiðlum að meginástæða bankahrunsins og undirliggjandi orsök Icesave-málsins hafi verið ónógar reglur og brostið eftirlit. Þessari röngu sjúkdómsgreiningu er síðan fylgt eftir með því að bjóða stærri skammt af ónýtu meðali: fleiri reglur og meira eftirlit.

Fyrir utan þá margkveðnu öfugmælavísu um að íslenskur fjármálamarkaður hafi starfað í lagalegu tómarúmi byggir málflutningurinn um siðferðilega ábyrgð Íslendinga og réttlætingin fyrir Icesave-samningunum á forkastanlegri hugmynd um “sameiginlega refsingu” (e. collective punishment) sem þykir ekki forsvaranleg í grunnskólum landsins og hefur verið bönnuð í milliríkjadeilum skv. 4. gr. Genfarsáttmálans.

Af einhverjum ástæðum hafa núverandi stjórnvöld á Íslandi, sem kalla sig “fyrstu hreinu vinstristjórnina”, ákveðið að láta undan öllum kröfum Breta og Hollendinga og gengið hart fram í að ábyrgð á Icesave-málinu skuli falla á almenning á Íslandi.

BaggerMadoffIcesaveEkki dettur Dönum í hug að þeir sem þjóð beri ábyrgð á skjalafalsi Stein Bagger og fölskum ársreikningum fyrirtækis hans, IT Factory. Bagger og fyrirtæki hans báru danska kennitölu, störfuðu undir dönsku eftirliti og vöktu mikla aðdáun og hlutu mikið lof danskra fjölmiðla og atvinnulífs. Bagger var valinn viðskiptamaður ársins af einu virtasta endurskoðunarfyrirtæki Danmerkur og tvö ár í röð var IT Factory valið upplýsingatæknifyrirtæki ársins af Computerworld. Ekki dettur Bandaríkjamönnum heldur í hug að þeir sem þjóð beri ábyrgð á svikamyllu Bernard Madoff sem talin er að hafi kostað fjárfesta um 18 milljarða bandaríkjadala.

Í báðum tilvikum var um að ræða svik, skjalafals og önnur lögbrot. Icesave reikningar Landsbankans í Hollandi og Bretlandi fólu aftur á móti ekki í sér önnur svik en þau sem eru innbyggð í alla nútíma bankastarfsemi og byggja á brotaforðakerfi (fractional reserve banking) – og eru ekki talin varða við lög. Um þau svik verður fjallað hér að neðan.

Innbyggt greiðsluþrot bankakerfis

Þótt hér verði ekki gerð tilraun til að rekja þróun bankastarfsemi er mikilsvert í tengslum við Icesave-málið að skilja eitt tiltekið einkenni nútíma bankastarfsemi. Einkennið er það að enginn banki hefur aðgang að sjóðum til að greiða öllum innistæðueigendum bankans innistæður sínar ef þeir óskuðu þess. Í raun geta bankar einungis borgað lítið brot af þeim fjármunum sem innistæðueigendur treysta bönkum fyrir á hverjum tíma. Vanalega er þessu lýst á þann veg að enginn banki þoli “áhlaup” (bank run) – þ.e. þegar margir innistæðueigendur sama banka reyna að taka út fé sitt.

Þeir sem aðhyllast hinn svokallaða austuríska hagfræðiskóla hafa lengi gagnrýnt þetta fyrirkomulag og bent á að slíkt kerfi feli í sér innbyggt greiðsluþrot sem geti komið fram af minnsta tilefni. Slíkt kerfi sé í raun algjörlega ósjálfbært og geti því ekki staðist til lengdar eins og dæmin sanni. Einn af kunnari hagfræðingum austuríska skólans, Murray N. Rothbard, kallar brotaforðakerfið ekki “fractional reserve banking” heldur svikaforðakerfi – “fraudulent reserve banking”. Í merkri bók sinni, “The Case Against The Fed”, fjallar Rothbard um tilurð gjaldmiðla, stofnun Seðlabanka Bandaríkjanna (The Federal Reserve System) og eiginleika nútíma banka- og peningakerfa. Þar má m.a. finna ítarlegan rökstuðning hans gegn brotaforðakerfinu sem í stuttu máli er lýst sem “löglegri fölsun” (Legalized Counterfeiting). Um tilurð innistæðutryggingar segir Rothbard:

By the advent of Franklin Roosevelt, the fractional-reserve banking system had collapsed, revealing its inherent insolvency; the time was ripe for a total and genuine reform, for a cleansing of the American monetary system by putting an end, at long last, to the mendacities and the seductive evils of fractional-reserve banking. Instead, the Roosevelt Administration unsurprisingly went in the opposite direction: plunging into massive fraud upon the American public by claiming to rescue the nation from unsound banking through the new Federal Deposit Insurance Corporation (FDIC).

Þannig lýsir Rothbard því hvernig bandaríska innlánstryggingarkerfið var búið til í því skyni að blekkja almenning og telja honum trú um að bankainnistæður þeirra væru tryggar enda þótt bankarnir sjálfir og bankakerfið í heild væri gjaldþrota. Útilokað sé að tryggja innistæður við þær aðstæður enda eiga innistæðutryggingarsjóðir ekki eignir nema sem samsvara broti af þeim innistæðum sem þeim er ætlað að tryggja.

Rothbard bendir einnig á að í raun sé það blekking að nota orðið „trygging“ í þessu sambandi enda snúist raunverulegar tryggingar um þann valmöguleika fólks að geta varið sig gegn ófyrirsjáanlegum og handahófskenndum áföllum. Eins og sagan sýnir eru lausafjárvandamál fjármálastofnana ekki handahófskenndir atburðir án tengsla heldur hringrás þar sem vandræði eins banka smitast fljótt til annarra banka.

Niðurlag

Það er því ekki aðeins brotaforðakerfið sem austuríski hagfræðiskólinn hefur varað við og talað gegn áratugum saman heldur ekki síður innistæðutryggingakerfið sem heldur uppi fölsku trausti almennings á bankakerfinu og gerir sparifjáreigendur andvaralausa og um leið ófæra að veita bönkum það aðhald sem er eina leiðin til að tryggja eðlilega viðskiptahætti.

Tilraunir til að láta reglugerðaskóg og opinbert eftirlit koma í staðinn fyrir sjálfsprottið aðhald viðskiptavina fjármálafyrirtækja hafa sýnt sig að vera algjörlega misheppnaðar. Árvekni hvers einstaks borgara og viðleitni til að gæta hagsmuna sinna er eina leiðin til að hreinsa út ósjálfbæra starfsemi. Eingöngu þannig má tryggja frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar og stuðla að almennri velsæld.

Í Icesave-málinu felast hagsmunir hollensku og bresku ríkisstjórnanna einkum í því að viðhalda því innistæðulausa trausti sem almenningur hefur á bankakerfum heimsins. Núverandi ríkisstjórn Íslands virðist reiðubúin til að neyða íslenska skattgreiðendur til þess að borga skuldir óreiðumanna til þess að viðhalda þessu falska, innistæðulausa trausti.

 

- oo -

Frekari upplýsingar

The Mises Institute.: Stofnun sem kennd er við einn af frumkvöðlum austuríska hagfræðiskólans, Ludwig von Mises.

The Case Against The Fed: Bók Rothbard sem PDF (einnig fáanleg án endurgjalds á iTunes U).

Dead Banks Walking: Grein eftir forseta Mises-stofnunarinnar, Douglas French, um slæm áhrif innlánstrygginga. Fyrirlestur French um sama efni á Youtube.

Money, Banking and the Federal Reserve: Myndband frá Mises-stofnuninni sem m.a. byggir á skrifum Rothbard og Mises.

Money, Bank Credit, and Economic Cycles: Bók (Hlaða niður sem PDF) eftir spænska hagfræðinginn Jesús Huerta de Soto um málið.


mbl.is Mikill áhugi erlendra miðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband