Bastiat og það sem ekki sést

Bastiat tiltFranski rithöfundurinn Frédéric Bastiat skrifaði árið 1850 stutta dæmisögu sem þeir sem hana skilja geta dregið mikilvægan og sígildan lærdóm af. Dæmisaga Bastiat kallast á frönsku Ce qu'on voit et ce qu'on ne voit pas sem á íslensku myndi útleggjast það sem sést og það sem ekki sést.

Boðskapur sögunnar er sá að ekki sé ráðlegt að meta gæði aðgerða með því að líta eingöngu á þær afleiðingar sem fyrir augum ber og eru augljósar heldur þurfi jafnan að taka með í reikninginn þær afleiðingar sem ekki eru augljósar við fyrstu sýn.

Dæmisagan fjallar um búðareiganda sem verður fyrir því dag einn að sonur hans brýtur gluggarúðu í búð föður síns. Fólk sem drífur að reynir að hughreysta búðareigandann með þeim orðum að fátt sé svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Ef engar rúður brotnuðu yrði lítið um vinnu fyrir glergerðarmanninn og að rúðubrotið hafi í raun verið til góðs þar sem það skapaði atvinnu fyrir glergerðarmanninn.

Bastiat bendir á að þeir sex frankar sem búðareigandinn þurfti að greiða glergerðarmanninum fyrir nýja rúðu hefðu annars verið notaðir í að kaupa nýja skó. Afleiðing rúðubrotsins hafi því ekki eingöngu verið hið augljósa: að glergerðarmaðurinn útbjó nýja rúðu, heldur einnig að búðareigandinn eignaðist ekki nýja skó. Hin ósýnilega afleiðing var því sú að skógerðarmaðurinn missti af viðskiptum við búðareigandann. Afleiðingar rúðubrotsins voru því ekki ávinningur samfélagsins í formi nýrrar rúðu heldur þvert á móti tap samfélagsins í formi skópars sem aldrei varð til.

Þessi boðskapur kann að virðast svo sjálfsagður að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því að vel menntað og hugsandi nútímafólk falli í sömu gryfju og nágrannar búðareigandans í dæmisögu Bastiat. Því miður er einmitt þessi sama gryfja troðfull af hagfræðingum, stjórnmálamönnum og alls kyns fólki sem fellur fyrir rökvillunni um brotna gluggann.

Eitt algengasta dæmið um hvernig rökvillan um brotna gluggann þvælist fyrir stjórnmálamönnum er gamalkunnugt tal um að ríkið þurfi að skapa störf. Slík "sköpun" fer gjarnan fram með því að skattleggja (eða taka lán og þannig skattleggja framtíðina) og þar með eyðileggja ósýnileg störf víða í samfélaginu til að til þess að skapa sýnileg störf t.d. við að byggja tónlistarhús.

brokenWindow Harpa 

Skrif Paul Krugman, hagfræðings og Nóbelsverðlaunahafa, um hvernig árásirnar á Tvíburaturnana myndu örva hagkerfið og vera til góðs er líka ömurleg birtingarmynd sömu rökvillu. Fleiri dæmi eru um að keynesískir hagfræðingar hafi litið með velþóknun á eyðileggingar stríða og hamfara þar sem enduruppbyggingin sé svo góð fyrir hagkerfið! Það kæmi ekki á óvart þótt einhver íslenskur hagfræðingur eða stjórnmálamaður stigi fram á næstunni og lýsti gagnsemi eldgosa og hamfaraflóða til örvunar á íslensku efnahagslífi!

Myndskeiðið hér að neðan sýnir á örfáum mínútum nokkur dæmi um þetta.

Niðurlag

Töfraformúla Keynes um hvernig laga megi meinsemdir hagkerfisins með meiri eyðslu er sennilega ein lífseigasta birtingarmyndin á rökvillunni um brotna gluggann. Aðgerðir stjórnvalda víða um heim til "örvunar" eða "björgunar" eru nýjasta dæmið. Og um leið það dýrasta.  

Það er kominn tími til að hætta að endurnýta ónýtar hugmyndir sem hvíla á rökvillu sem Bastiat útskýrði fyrir heiminum fyrir 160 árum. Er það ekki?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Tryggvason

Það má kanski við þetta bæta að einhverjir nemar í stjórnmálafræði við HÍ og e.t.v. aðrir hafa kynnst dæmisögu Bastiat í gegnum framúrskarandi bók Henry Hazlitt, Economics in One Lesson (pdf), sem í íslenskri þýðingu bar titilinn Hagfræði í hnotskurn. Bókin er m.a. fáanleg í bóksölu Andríkis sem fjallað hefur um boðskap Bastiat og bók Hazlitt oftar en einu sinni.

Sveinn Tryggvason, 16.4.2010 kl. 10:04

2 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Hárrétt! Mér hefur blöskrað þetta tal stjórnmálamanna um að þeir séu að skapa störf með aukinni skattheimtu. Það blasir við að þeir eru að grafa undan hagkerfinu.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 17.4.2010 kl. 07:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband