Tryggðir í topp

Eftirfarandi grein birtist fyrst á Pressunni 8. apríl 2011.

- stutt áminning um aðild Icesave að breskum og hollenskum tryggingarsjóðum -

Í umræðunni um Icesave er ein staðreynd sem lítt hefur verið rædd. Staðreyndin er sú að bæði í Bretlandi og Hollandi gerðist Landsbankinn aukaaðili að þarlendum tryggingarsjóðum þegar Icesave var stofnað í þessum löndum. Þetta var gert í því augnamiði að standa jafnfætis þarlendum bönkum varðandi innlánstryggingar enda var slíkt augljóslega talið mikilvægt í markaðssetningu á Icesave.

Eins og Íslendingum er kunnugt um tryggðu bresku og hollensku tryggingarkerfin hærri upphæð en þær 20.887 evrur sem getið er um í tilskipun ESB um innistæðutryggingar. Þess vegna gerðist Landsbankinn aðili að breska innlánstryggingarkerfinu FSCS (Financial Services Compensation Scheme) sem tryggði innlán upp að 35.000 pundum og tryggingasjóði Hollenska Seðlabankans (De Nederlansche Bank, DNB) sem tryggði upphæðir að 38.000 evrum á þeim tíma (tryggingin var síðar hækkuð upp í 100 þúsund evrur annars vegar og 50 þúsund pund hins vegar). Var þetta gert með svokölluðu "top up" kerfi þar sem Landsbankinn keypti viðbótartryggingu af þarlendum innlánstryggingarsjóðum til að samanlögð trygging innlána væri sambærileg við það sem þarlendir bankar bjuggu við.

Af hverju skiptir þetta máli í umræðunni um Icesave? Jú, það er vegna þess að því hefur verið haldið fram – af þeim sem hafa viljað láta dómstólaleiðina líta út fyrir að vera áhættusamari en hún er í raun – að Hollendingar og Bretar gætu krafið íslensk stjórnvöld um skaðabætur vegna innistæðutrygginga umfram lágmarkstrygginguna.

Langsótt er að slík krafa verði sett fram þar sem tilskipunin gerir eingöngu kröfu um að sett verði upp kerfi í hverju landi sem uppfylli kröfur um lágmarkstryggingu. Því til stuðnings hefur m.a. verið bent á að áminningarbréf ESA afmarkar meint brot við lágmarkstrygginguna.

Til viðbótar þessum rökum má, með vísan í ofangreinda aðild Landsbankans að „top-up tryggingum“ í Bretlandi og Hollandi, telja mjög fjarstæðukennt að íslensk stjórnvöld verði krafin um fjárhæð umfram þá lágmarkstryggingu sem íslenska tryggingarkerfið byggði á í samræmi við Evróputilskipun um innistæðutryggingar. Það helgast af því að Icesave reikningar Landsbankans voru tryggðir umfram lágmarkstrygginguna þar sem Landsbankinn hafði keypt sig inn í viðbótartryggingar í þarlendum innistæðutryggingarsjóðum. Það er því ljóst að hollensku og bresku innistæðutryggingarsjóðirni báru ábyrgð á að tryggja innistæður umfram lágmarkstrygginguna. Sú ábyrgð lá ekki hjá hinum íslenska tryggingarsjóði.

Hér er því enn eitt dæmið um að verið sé að hrella íslenskan almenning að ósekju til að gangast við kröfu sem hefur afar veika stoð í lögum og reglum. Það vita Bretar og Hollendingar. Mikilvægt er að Íslendingar séu einnig meðvitaðir um þetta þegar þeir ganga til atkvæðagreiðslu 9. apríl.

Verum óhrædd - verum upplýst - segjum NEI.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Í fyrsta lagi, hefur evrópubandalagið aukið trygginguna umfram þessa lágmarksupphæð.  Þetta hefur verið gert til að mæta því tapi sem varð ... og, er einnig það ákvæði sem evrópudómstóllin mun taka tillit til.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 10.4.2011 kl. 19:51

2 Smámynd: Jón Sveinsson

ÞETTA VAR EITT AF ÞVÍ SEM STJÓRNIN VILDI LEYNA ÞJÓÐINNI.

Jón Sveinsson, 10.4.2011 kl. 22:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband