Að tryggja innistæðulaust traust

Inngangur

Hið svokallaða Icesave-mál er eitt umdeildasta mál íslenskrar stjórnmálasögu. Pólitískt líf einstaka stjórnmálamanna hefur verið lagt að veði og samstarf núverandi stjórnarflokka hefur á köflum hangið á bláþræði og málið valdið úrsögn ráðherra úr ríkisstjórn og stuðlað að klofningi hjá öðrum stjórnarflokknum, enda hafa forystumenn stjórnarflokkanna gengið hart fram í að afla málinu stuðnings. Einstaka stjórnarþingmenn, sem lýst höfðu efasemdum eða andstöðu við málið, voru beittir þrýstingi og því ítrekað haldið fram að efnahagsleg einangrun, útskúfun og önnur ógæfa myndi lenda á landi og þjóð ef Alþingi samþykkti ekki ríkisábyrgð.

Þannig hefur málsvörn ríkisstjórnar Íslands verið – allt frá því að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra færði þjóðinni fyrstu fréttir af “glæsilegri niðurstöðu” samninganefndarinnar þar til Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kvað þjóðaratkvæðagreiðslu um málið vera “markleysu” þar sem fyrir lægi mun betra tilboð!

GreinaCollage 02sMálefnalegum rökum til stuðnings málstað íslenskra skattgreiðenda um að þeim bæri ekki að ábyrgjast Icesave-skuldirnar hefur verið ýtt til hliðar af ríkisstjórn Íslands. Þess í stað hefur sjónarmiðum bresku og hollensku ríkisstjórnanna verið haldið uppi af svo miklu harðfylgi og af slíkum sannfæringarkrafti af stjórnarliðum að íslenskur almenningur trúði því að honum bæri lagaleg skylda til að axla þessar byrðar. Fólki var talin trú um að Icesave-skuldir Landsbankans við breska og hollenska sparifjáreigendur væri “skuldbinding okkar”.

Þessum ranghugmyndum hefur nú verið hrundið. Fjölmargir mætir menn hafa fært gild rök til stuðnings máli Íslands – rökum sem varða allt frá tæknilegum atriðum um meðferð krafna til stjórnarskrárbundinna ákvæða um réttmætar skuldbindingar ríkisins. Í því sambandi má m.a. benda á greinar Sigurðar Líndals lagaprófessors, Lárusar L. Blöndals hæstaréttarlögmanns og Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors, auk þess sem samtökin InDefence hafa unnið ötullega að því að kynna málstað Íslendinga, bæði fyrir Íslendingum sjálfum og erlendum fjölmiðum.

Það er þó ekki fyrr en á allra síðustu mánuðum, eftir að vaxandi fjöldi málsmetandi erlendra aðila á borð við ritstjóra Financial Times, hafa lýst stuðningi við málstað Íslands, að íslenskur almenningur hefur áttað sig. Svo virðist sem vaxandi hópur almennings geri sér í dag grein fyrir því að hin svokallaða “skuldbinding okkar” í Icesave-málinu er ekki til. Það er því eðlileg og réttlát krafa Íslendinga að á það verði látið reyna fyrir þar til bærum dómsstólum hvort meint skuldbinding sé fyrir hendi.

Í millitíðinni er það óeðlilegt og andstætt hagsmunum Íslands að láta undan óbilgjörnum kröfum Breta og Hollendinga þótt hægt sé að hafa á því nokkurn skilning að yfirdrifnar þvingunaraðgerðir bresku ríkistjórnarinnar hafi skotið íslenskum ráðamönnum skelk í bringu þegar óvissan og hræðslan var hér sem mest.

Siðferðileg ábyrgð – sameiginleg refsing

Frá upphafi – og þó enn meir eftir því sem fjarað hefur undan rökum um lagalegar skuldbindingar Íslendinga í Icesave-málinu – hefur borið á því að undanlátsemi núverandi ríkistjórnar gagnvart kröfum Breta og Hollendinga hafi verið réttlætt með vísan í “siðferðilega ábyrgð” Íslendinga. Vandasamt er að gera grein fyrir því hvernig talsmenn þessa sjónarmiðs telja að sú siðferðilega ábyrgð sé tilkomin. Þó má segja að endurtekið stef í þessari ranghugmynd sé sú að íslenskir kjósendur beri ábyrgð á því stjórnarfari og andrúmslofti sem á að hafa myndast á Íslandi á undanförnum árum – engar reglur hafi gilt um fjármálastarfsemi hér á landi, lítið sem ekkert eftirlit hafi verið, einkavæðing, græðgisvæðing, óheft frjálshyggja, o.s.frv. – og því sé eðlilegt að landsmenn taki út sameiginlega refsingu og bæti það tap sem Bretar og Hollendingar hafi orðið fyrir í þessu andrúmslofti.

Of langt mál er að hrekja hér allar staðreyndavillur og rökleysur þeirra sem alið hafa á ranghugmyndinni um “siðferðilega ábyrgð” Íslendinga á Icesave. En vert er að benda á að þær reglur, sem gilda um fjármálastarfsemi á Íslandi, eru í aðalatriðum hinar sömu og gilda í öðrum vestrænum löndum, enda bróðurparturinn af gildandi lögum um fjármálastarfsemi á Íslandi bein þýðing laga sem gilda innan ESB og gildistaka þeirra í íslenska löggjöf tilkomin vegna beinna tilskipana frá ESB. Íslensk lög um innistæðutryggingar (lög nr. 98/1999) er dæmi um slíka löggjöf.

Vefritið Andríki hefur ítrekað bent á þá staðreynd að lög um íslenskan fjármálamarkað eru mörg og umfangsmikil enda vandfundin sú starfsemi sem er jafn kyrfilega bundin í lögum og reglum og undir jafn miklu eftirliti. Hinn 5. febrúar 2009 birtust auglýsingar í Morgublaðinu, Fréttablaðinu og Viðskiptablaðinu frá Andríki þar sem vakin er athygli á þessari staðreynd. Engu að síður hafa ráðherrar núverandi ríkisstjórnar og ýmsir aðrir álitsgjafar, sem almenningur hefur talið ástæðu til að taka trúanlega, ítrekað komist upp með að halda því fram í fjölmiðlum að meginástæða bankahrunsins og undirliggjandi orsök Icesave-málsins hafi verið ónógar reglur og brostið eftirlit. Þessari röngu sjúkdómsgreiningu er síðan fylgt eftir með því að bjóða stærri skammt af ónýtu meðali: fleiri reglur og meira eftirlit.

Fyrir utan þá margkveðnu öfugmælavísu um að íslenskur fjármálamarkaður hafi starfað í lagalegu tómarúmi byggir málflutningurinn um siðferðilega ábyrgð Íslendinga og réttlætingin fyrir Icesave-samningunum á forkastanlegri hugmynd um “sameiginlega refsingu” (e. collective punishment) sem þykir ekki forsvaranleg í grunnskólum landsins og hefur verið bönnuð í milliríkjadeilum skv. 4. gr. Genfarsáttmálans.

Af einhverjum ástæðum hafa núverandi stjórnvöld á Íslandi, sem kalla sig “fyrstu hreinu vinstristjórnina”, ákveðið að láta undan öllum kröfum Breta og Hollendinga og gengið hart fram í að ábyrgð á Icesave-málinu skuli falla á almenning á Íslandi.

BaggerMadoffIcesaveEkki dettur Dönum í hug að þeir sem þjóð beri ábyrgð á skjalafalsi Stein Bagger og fölskum ársreikningum fyrirtækis hans, IT Factory. Bagger og fyrirtæki hans báru danska kennitölu, störfuðu undir dönsku eftirliti og vöktu mikla aðdáun og hlutu mikið lof danskra fjölmiðla og atvinnulífs. Bagger var valinn viðskiptamaður ársins af einu virtasta endurskoðunarfyrirtæki Danmerkur og tvö ár í röð var IT Factory valið upplýsingatæknifyrirtæki ársins af Computerworld. Ekki dettur Bandaríkjamönnum heldur í hug að þeir sem þjóð beri ábyrgð á svikamyllu Bernard Madoff sem talin er að hafi kostað fjárfesta um 18 milljarða bandaríkjadala.

Í báðum tilvikum var um að ræða svik, skjalafals og önnur lögbrot. Icesave reikningar Landsbankans í Hollandi og Bretlandi fólu aftur á móti ekki í sér önnur svik en þau sem eru innbyggð í alla nútíma bankastarfsemi og byggja á brotaforðakerfi (fractional reserve banking) – og eru ekki talin varða við lög. Um þau svik verður fjallað hér að neðan.

Innbyggt greiðsluþrot bankakerfis

Þótt hér verði ekki gerð tilraun til að rekja þróun bankastarfsemi er mikilsvert í tengslum við Icesave-málið að skilja eitt tiltekið einkenni nútíma bankastarfsemi. Einkennið er það að enginn banki hefur aðgang að sjóðum til að greiða öllum innistæðueigendum bankans innistæður sínar ef þeir óskuðu þess. Í raun geta bankar einungis borgað lítið brot af þeim fjármunum sem innistæðueigendur treysta bönkum fyrir á hverjum tíma. Vanalega er þessu lýst á þann veg að enginn banki þoli “áhlaup” (bank run) – þ.e. þegar margir innistæðueigendur sama banka reyna að taka út fé sitt.

Þeir sem aðhyllast hinn svokallaða austuríska hagfræðiskóla hafa lengi gagnrýnt þetta fyrirkomulag og bent á að slíkt kerfi feli í sér innbyggt greiðsluþrot sem geti komið fram af minnsta tilefni. Slíkt kerfi sé í raun algjörlega ósjálfbært og geti því ekki staðist til lengdar eins og dæmin sanni. Einn af kunnari hagfræðingum austuríska skólans, Murray N. Rothbard, kallar brotaforðakerfið ekki “fractional reserve banking” heldur svikaforðakerfi – “fraudulent reserve banking”. Í merkri bók sinni, “The Case Against The Fed”, fjallar Rothbard um tilurð gjaldmiðla, stofnun Seðlabanka Bandaríkjanna (The Federal Reserve System) og eiginleika nútíma banka- og peningakerfa. Þar má m.a. finna ítarlegan rökstuðning hans gegn brotaforðakerfinu sem í stuttu máli er lýst sem “löglegri fölsun” (Legalized Counterfeiting). Um tilurð innistæðutryggingar segir Rothbard:

By the advent of Franklin Roosevelt, the fractional-reserve banking system had collapsed, revealing its inherent insolvency; the time was ripe for a total and genuine reform, for a cleansing of the American monetary system by putting an end, at long last, to the mendacities and the seductive evils of fractional-reserve banking. Instead, the Roosevelt Administration unsurprisingly went in the opposite direction: plunging into massive fraud upon the American public by claiming to rescue the nation from unsound banking through the new Federal Deposit Insurance Corporation (FDIC).

Þannig lýsir Rothbard því hvernig bandaríska innlánstryggingarkerfið var búið til í því skyni að blekkja almenning og telja honum trú um að bankainnistæður þeirra væru tryggar enda þótt bankarnir sjálfir og bankakerfið í heild væri gjaldþrota. Útilokað sé að tryggja innistæður við þær aðstæður enda eiga innistæðutryggingarsjóðir ekki eignir nema sem samsvara broti af þeim innistæðum sem þeim er ætlað að tryggja.

Rothbard bendir einnig á að í raun sé það blekking að nota orðið „trygging“ í þessu sambandi enda snúist raunverulegar tryggingar um þann valmöguleika fólks að geta varið sig gegn ófyrirsjáanlegum og handahófskenndum áföllum. Eins og sagan sýnir eru lausafjárvandamál fjármálastofnana ekki handahófskenndir atburðir án tengsla heldur hringrás þar sem vandræði eins banka smitast fljótt til annarra banka.

Niðurlag

Það er því ekki aðeins brotaforðakerfið sem austuríski hagfræðiskólinn hefur varað við og talað gegn áratugum saman heldur ekki síður innistæðutryggingakerfið sem heldur uppi fölsku trausti almennings á bankakerfinu og gerir sparifjáreigendur andvaralausa og um leið ófæra að veita bönkum það aðhald sem er eina leiðin til að tryggja eðlilega viðskiptahætti.

Tilraunir til að láta reglugerðaskóg og opinbert eftirlit koma í staðinn fyrir sjálfsprottið aðhald viðskiptavina fjármálafyrirtækja hafa sýnt sig að vera algjörlega misheppnaðar. Árvekni hvers einstaks borgara og viðleitni til að gæta hagsmuna sinna er eina leiðin til að hreinsa út ósjálfbæra starfsemi. Eingöngu þannig má tryggja frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar og stuðla að almennri velsæld.

Í Icesave-málinu felast hagsmunir hollensku og bresku ríkisstjórnanna einkum í því að viðhalda því innistæðulausa trausti sem almenningur hefur á bankakerfum heimsins. Núverandi ríkisstjórn Íslands virðist reiðubúin til að neyða íslenska skattgreiðendur til þess að borga skuldir óreiðumanna til þess að viðhalda þessu falska, innistæðulausa trausti.

 

- oo -

Frekari upplýsingar

The Mises Institute.: Stofnun sem kennd er við einn af frumkvöðlum austuríska hagfræðiskólans, Ludwig von Mises.

The Case Against The Fed: Bók Rothbard sem PDF (einnig fáanleg án endurgjalds á iTunes U).

Dead Banks Walking: Grein eftir forseta Mises-stofnunarinnar, Douglas French, um slæm áhrif innlánstrygginga. Fyrirlestur French um sama efni á Youtube.

Money, Banking and the Federal Reserve: Myndband frá Mises-stofnuninni sem m.a. byggir á skrifum Rothbard og Mises.

Money, Bank Credit, and Economic Cycles: Bók (Hlaða niður sem PDF) eftir spænska hagfræðinginn Jesús Huerta de Soto um málið.


mbl.is Mikill áhugi erlendra miðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G.Helga Ingadóttir

Áhugaverð grein, ég segi Dómstólaleiðin er réttur okkar ..

G.Helga Ingadóttir, 5.3.2010 kl. 13:32

2 Smámynd: Sveinn Tryggvason

Á vefritinu Smugunni má finna grein eftir Indriða H. Þorláksson sem sýnir ágætlega öfugsnúna afstöðu hans til Icesave-málsins og útskýrir um leið af hverju svo illa hefur verið haldið á lofti málstað Íslendinga í hinum svokölluðu samningaviðræðum.

Greinin ber titilinn "Baráttan við stórkapitalismann" og má álykta sem svo að Indriði telji sig vera að berjast gegn "stórkapítalisma" með framferði sínu. Eins og ég hef fært rök fyrir í greinum mínum í Morgunblaðinu, Berlingske Tidende og á bloggi mínu eru Indriði H., Steigrímur J. og co. með aðgerðum sínum að verja alþjóðlega bankastarfsemi sem byggir á ónýtum grunnstoðum. Grunnstoðum sem verða að fá að falla til að hægt sé að byggja up að nýju.

Sveinn Tryggvason, 23.3.2010 kl. 09:16

3 identicon

Kærar þakkir Sveinn :) Ég er mikið búinn að leita að svona samantekt á Íslensku.

H. Valsson (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 21:04

4 Smámynd: Egill Helgi Lárusson

Áhugaverð grein. Vandinn við Austurríska skólann er hins vegar sá að þeir eru með úrelt viðhorf til peninga (gullfótinn). Ég staldraði aðeins við í ritum þessa annars ágæta skóla í leit minni að sannleikanum eftir að hrunið skall á. Margt af því sem þeir segja er rökrétt en annað ekki. Það var hjá Stephen Zarlenga sem ég fann sannleikann um peningakerfið. Mæli með bókinni hans.

 www.umbot.org

Egill Helgi Lárusson, 8.11.2010 kl. 00:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband