Svikaforðakerfið - og varðmenn þess

Eftirfarandi grein eftir mig birtist í Morgunblaðinu í dag - 11. mars. 2010.

ÚtdrátturÞað er fátítt að álitsgjafar í íslenskum fjölmiðlum færi fram rök í anda hins svokallaða austuríska hagfræðiskóla. “Nú fylgjum við allir Keynes”, á Richard Nixon að hafa sagt, og virðast ráðamenn vestan hafs og austan trúa því að hægt sé að komast upp úr kreppu með lyfjablöndu Keynes: aukinni eyðslu og skuldsetningu, eins og nýleg dæmi sanna. Skemmst er frá því að segja að austuríski hagfræðiskólinn tekur einarða afstöðu gegn Keynes og telur lyfjablöndu hans í raun eitur sem veldur kreppu fremur en að koma í veg fyrir þær.

PeterSchiff TiltLesendur Morgunblaðsins fengu nýlega tækifæri til að kynnast viðhorfum austuríska hagfræðiskólans þegar blaðið birti viðtal við Peter Schiff hagfræðing og frambjóðanda til bandarísku öldungadeildarinnar. Aðspurður um afstöðu sína til brotaforðakerfisins (fractional reserve banking), þar sem bönkum er einungis skylt að halda eftir litlum hluta innistæðna, svaraði Schiff m.a.: “Mér sjálfum finnst kerfi sem byggist á innleysanlegum innistæðum og brotaforða ekki sjálfbært eða fjárhagslega traust. En leyfum markaðnum að ákveða það.”

Ósjálfbærni brotaforðakerfisins, sem Schiff nefnir, felst í því að enginn banki hefur aðgang að sjóðum til að greiða öllum innstæðueigendum innstæður sínar samtímis, ef þeir óska þess. Í raun geta bankar einungis borgað brot af þeim fjármunum sem innstæðueigendur treysta bönkum fyrir á hverjum tíma. Vanalega er þessu lýst á þann veg að enginn banki þoli “áhlaup” (bank run) – þ.e. þegar margir innstæðueigendur sama banka reyna að taka út fé sitt.

Svikaforðakerfi og innlánstryggingar
MblGreinTiltEinn þekktasti hagfræðingur austuríska skólans, Murray N. Rothbard, kallar brotaforðakerfið ekki “fractional reserve banking” heldur svikaforðakerfi (fraudulent reserve banking). Í merkri bók hans, “The Case Against The Fed”, má finna ítarlegan rökstuðning gegn brotaforðakerfinu sem í stuttu máli er lýst sem “löglegri fölsun”.

Rothbard rekur í bók sinni hvernig bandaríska innlánstryggigarkerfið var búið til í því skyni að blekkja almenning og telja honum trú um að innstæður væru tryggar enda þótt bankarnir sjálfir og bankakerfið í heild væri gjaldþrota. Útilokað væri að tryggja innstæður við þær aðstæður, enda eiga innstæðutryggingarsjóðir ekki eignir nema sem samsvarar broti af þeim innstæðum sem þeim er ætlað að tryggja.

Varðmenn kerfisins

Hið svokallaða Icesave-mál er eitt umdeildasta mál íslenskrar stjórnmálasögu frá upphafi. Málefnalegum rökum til stuðnings málstað íslenskra skattgreiðenda um að þeim bæri ekki að ábyrgjast Icesave-skuldirnar hefur verið ýtt til hliðar af ríkisstjórn Íslands, sem kallar sig “fyrstu hreinu vinstristjórnina”. Þess í stað hefur sjónarmiðum bresku og hollensku ríkisstjórnanna verið haldið uppi af svo miklu harðfylgi af stjórnarliðum að almenningur trúði því að Icesave-skuldirnar væru “skuldbindingar okkar”.

Þessum röngu hugmyndum hefur nú verið hrundið og má í því sambandi benda á greinar Sigurðar Líndals, Lárusar Blöndals og Stefáns Más Stefánssonar. Til vara hefur núverandi ríkisstjórn alið á hugmynd um “siðferðilega ábyrgð” Íslendinga á Icesave. Þess vegna eigi Íslendingar skilið hóprefsingu sem verði þjóðinni ógleymanleg áminning. Ekki dettur Dönum í hug að þeir sem þjóð beri ábyrgð á skjalafalsi Stein Bagger og fölskum ársreikningum fyrirtækis hans, IT Factory. Bandaríkjamönnum kemur heldur ekki til hugar að þeir sem þjóð beri ábyrgð á svikamyllu Bernard Madoff. Í báðum tilvikum var um að ræða svik, skjalafals og önnur lögbrot.

Icesave reikningar Landsbankans í Hollandi og Bretlandi fólu aftur á móti ekki í sér önnur svik en þau sem eru innbyggð í alla nútíma bankastarfsemi og byggja á brotaforðakerfi – og eru ekki talin varða við lög. Þessu kerfi er núverandi ríkisstjórn mjög í mun að viðhalda.

Niðurlag
Það er því ekki aðeins brotaforðakerfið sem austuríski hagfræðiskólinn varar við heldur ekki síður innstæðutryggingakerfið sem heldur uppi fölsku trausti almennings á bankakerfinu og gerir sparifjáreigendur andvaralausa og um leið ófæra að veita bönkum það aðhald sem er eina leiðin til að tryggja eðlilega viðskiptahætti.

Tilraunir til að láta opinbert eftirlit koma í staðinn fyrir sjálfsprottið aðhald viðskiptavina fjármálafyrirtækja hefur sýnt sig að vera algjörlega misheppnaðar. Árvekni hvers einstaks borgara og viðleitni hans til að gæta hagsmuna sinna er eina færa leiðin. Eingöngu á þann hátt er unnt að tryggja frelsi og fjárhagslegt sjálfstæði þjóðar og stuðla að almennri velsæld.

Í Icesave-málinu felast hagsmunir hollensku og bresku ríkisstjórnanna einkum í því að viðhalda því falska trausti sem almenningur hefur á bankakerfum heimsins. Núverandi ríkisstjórn Íslands virðist reiðubúin til að neyða íslenska skattgreiðendur til þess að borga skuldir óreiðumanna til þess að viðhalda þessu falska og innstæðulausa trausti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Það sem þú heldur fram hérna er að bankakerfið yfirleitt fái ekki staðist. Tilraunir til að setja á fót innlánstryggingar sparifjáreigendum til stuðnings séu gagnslausar og í verstafalli sviksamlegar. Þetta er harður dómur yfir bankastarfseminni og ætla ég hún eigi harða gagnrýni inni hjá okkur. En þetta er ekkert nýtt vandamál og spekingar þ.m.t. Keynes hafa reynt að leggja gott til þó það megi teljast ófullnægjandi.

- Vandamálið er að mínum dómi að ekkert fullkomið kerfi er til sem er óskeikult til framtíðar. Eðli peninga er kvikult og það festir enginn verðgildi þeirra til langframa. Þeir byggja á trausti þegar í nauðirnar rekur. Því aðeins eru verðmæti tekin gild að menn telji að það sé traustur bakhjarl. Þó að traust sé endurnýjanleg auðlynd þá er hún afskaplega rokgjörn.

Að sumu leyti varð orðstýr Íslenskra athafnamanna góður að þeir vísuðu á traust efnahagslíf Íslands og ríkissjóð sem skilaði afgangi. Þeir sem efuðust um að þetta traust væri verðskuldað fengu maklegar ákúrur. Þar fórum við fremst í flokki gegn dönum af þjóðernisástæðum en ekki vitrænum. Allt gert í góðri trú. En í viðskiptum sem byggjast á trausti dugar ekki góð trú og þess vegna var vísað á Innistæðutryggingasjóðinn. Þegar hann var tæmdur var vísað á Seðlabankann sem varð í raun gjaldþrota en ríkissjóður látinn hlaupa undir bagga.

Bráðbirgðarlögin voru kannski óumflýjanleg en þau hafa reynst stórskaðleg.

Íslendingar ætla að því að mér skilst á forystumönnum Framsóknar, jafnvel Sjálstæðisflokks að hafna greiðsluskyldu ríkisins fyrir hönd "óráðsíumanna". Þarna er djarft spilað í þröngri stöðu.

Bankastarfsemi heimsins verður að hafa sinn gang í öllum sínum ófullkomleika einsog önnur mannana verk. Íslendingar verða ekki látnir setja þeirri starfsemi ný lög eða reglur. Ef við spilum ekki með verður okkur skipað á hliðarlínuna. Mér finnst það ekkert óeðlilegt því þar hafa Íslendingar verið frá því ég man eftir mér þar til fyrir fáum árum að þáttakan gat orðið bein og óþvinguð.

Vandamálið er að sökum skorts hefðar og kunnáttu eigum við ekkert erindi inná alþjóðamarkað með fjármálastarfsemi. Alveg sérstaklega ef við ætlum okkur að setja öðrum leikreglurnar og dæma síðan sjálf hvort rétt sé eftir þeim farið.

Gísli Ingvarsson, 11.3.2010 kl. 23:36

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Sæll Sveinn!

Skil ekki alveg hvað þú ert að fara varðandi brotaforðakerfið, sem er beinlínis undirstaða allrar bankastarfsemi.  Ef bankar verða að hafa 100% innlána í reiðufé, þá lána þeir ekkert út og þá er engin ástæða til að taka við innlánum in the first place.  Jafnframt verður þá ekki sá tilflutningur frá "dauðu" fé til "lifandi" fjár í fjárfestingum og uppbyggingu, sem bankakerfið sér um í hagkerfinu og er helsta hlutverk þess.  Ég held að þú getir varla verið að meina þetta, en vil gjarnan skilja hvernig þú sérð þetta fyrir þér.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.3.2010 kl. 23:52

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Heyr heyr! Eins og talað út úr mínu hjarta.  Ég er mikill aðdáandi Schiff og hef fylgst með rökum hans frá því löngu fyrir hrun. Hann varðai hástöfum við þvi sem varð löngu fyrir hrun, en menn kepptust við að úthrópa hann sem svartagallsrausara og úrtölumann, eins og raunar var gert hér við þá sem voguðu sér að reisa vísifingur til varnar.

Schiff er annars af hinni merku bankaætt Schiff, sem var samvaxin Rothschildunum í den. Ein af þeim ættum sem heldur heiminum nú í kverkataki.  Hann er þó "the odd one out" virðist vera.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.3.2010 kl. 23:58

4 Smámynd: Sveinn Tryggvason

Gísli Ingvarsson: Það er rétt ég er einmitt að halda því fram, með röksemdum austuríska hagfræðiskólans - manna á borð við Ludvig von Mises, Friedrich Hayek, Rothbard og Thomas E. Woods - að bankakerfið fáist ekki staðist. Vísbending um það var þegar nær allir bankar heims lentu í lausafjárvanda og þurftu að leita í prentsmiðjur seðlabanka eftir hjálp. Hvort sem við lítum á "ófullkomleika" bankakerfisins sem minniháttar galla eða innbyggt gjaldþrot gerir innistæðutryggingakerfið það að verkum að fólk hefur falskt traust á kerfinu og almenningur/viðskiptavinir bankanna veita bönkum ekki það aðhald sem til þarf til að hreinsa út þá sem tefla of djarft og þyrftu að fara á hausinn.

Lánaflóð frá erlendum bönkum til íslenskra banka á grundvelli góðrar skuldastöðu íslenska ríkisins er einmitt gott dæmi um þann pilsfaldskapítalisma sem ég er að gagnrýna - sjá nánar Súpan er vond...

Vilhjálmur Þorsteinsson: Brotaforðakerfið er einmitt undirstaða bankakerfisins. Sú undirstaða er að mínu mati mjög ótraust, svo ekki sé meira sagt. Ég tel hlutverk banka vera að «miðla» fé milli þeirra sem vilja spara (fresta neyslu sinni) til þeirra sem vilja fjárfesta (til að mæta framtíðar neyslu). Að lána 5x, 10x eða 15x innlán eykur óneitanlega áhættuna á lausafjárvanda og gjaldþroti. Viðskiptavinir banka þurfa að vera meðvitaðir um þá áhættu og velja sér banka eftir því hve áhættusæknir þeir eru. Þegar bankar eru álitnir "too big to fail" og Seðlabankar hafa leyfi til að "prenta peninga" til að koma þeim til bjargar er engin von til þess að kerfið leiðrétti sig eins og það þarf að gera og myndi gera ef það starfaði skv. lögmálum frjáls markaðar. Moggagrein mín byggist að hluta á þessari bloggfærslu minni en í lok hennar bendi ég á bækur greinar og fyrirlestra sem útskýra málið mun ýtarlegar.

Jón Steinar Ragnarsson: Gaman að heyra. Það er merkilegt að menn virðast ekki enn átta sig á hversu nákvæmlega Peter Schiff tókst að segja fyrir um t.d. húsnæðisbóluna og ástæður hennar. Þú ert vafalítið búinn aðhorfa á ræðu eða reiðilestur Schiff sem hann hélt yfir amerískum veðlána-sölumönnum árið 2006 þar sem hann fer mjög nákvæmlega yfir hvað þeir muni upplífa á komandimisserum.

Sveinn Tryggvason, 12.3.2010 kl. 10:15

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Athyglisvert að sjá Samfylkingarprédíkarann Vilhjálm verja þetta kerfi.  Segir mér meira en mörg orð um stöðu okkar.

Jón Steinar Ragnarsson, 12.3.2010 kl. 15:48

6 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Það verður erfitt að sannfæra kapítalistana um að "öruggt" bankakerfi og "örugg" viðskipti séu eftirsóknarverð gæði. Það er innibyggt sterkt element áhættusækni í löngun manna til að stunda viðskipti yfirleitt. Öryggisfíklar ná ekki langt í þeim bransa nema á afar löngum tíma og flestir ungir og upprennandi viðskiptamenn hafa ekki tíma til að bíða. Þess vegna er boginn spenntur til hins ítrasta á verðbréfamörkuðum og hiklaust talið sjálfsagt að bankar láni til kauphallarviðskipta. Hraðinn í kaupum og sölu á að ná inn hagnaði á endanum sem borgar upp lánið og gott betur. Ég sé ekki fyrir mér að þessari hegðun verði reynt að breyta en kannski eru mögulegar strúkturbreytingar sem gera "hrikalega" áhættu of flókna til að rétt sé að taka hana. Skortsala hefur verið talin til "mannréttinda" í viðskiptalífinu. Skortstaða Íslensku bankanna gegn krónunni var líka talin sjálfsögð "varnarbarátta" þeirra í erfiðri lausafjárstöðu.

Þó rétt sé að átta sig á veikleika bankastarfseminnar almennt megum við ekki gleyma því sértæka við okkar einkabanka að þar mynduðust óeðlileg krosstengsl á milli þeirra sem áttu bankann og þeirra sem fengu mestu fyrirgreiðsluna af því að þeir voru einmitt "eigendurnir". Þeir fengu meira að segja að veðsetja uppbólgin hlut sinn í bankanum fyrir milljarða lánum. Þetta er ekkert sem við getum kennt bankakerfi heimsins um. Eina leiðin til að hindra svona framvegis er að eftirlit með Íslenskum bönkum verði ekki á hendi innlendra heldur "leigt" af Dönum eða Norðmönnum.

En ef þú Sveinn getur fundið lausnina með öðrum góðum mönnum þá er ég alls ekki mótfallinn því, ég bara haldinn þeirri áráttu að halda að mannleg breytni og þar með talin erfðasyndin græðgi muni snúa út úr öllu lögum og reglum. Svört lánastarfsemi og neðanjarðarhagkerfi er aldre langt undan þegar athafnamönnum finnst að sér þrengt. Við munum þurfa lengi að súpa seiðið af þessu fjármálakerfi og vinna innan þess með kostum þess og göllum. Við þurfum að læra. Það er það sem Icesafe fjallar um: að kenna Íslendingum hvað það þýðir að stunda heimsviðskipti.

Gísli Ingvarsson, 12.3.2010 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband