31.3.2009 | 11:43
Baulað í bómull - bullað í hring
Með blíðuhótum byrjar Guðmundur Andri Thorsson pistil sinn, "Baulað úr bómull", sem birtist í Fréttablaðinu mánudaginn 30. mars. Lýsir hann ánægju með að geta horft á danskar og norskar sjónvarpsstöðvar sem endurvarpað er í gegnum Sjónvarp Símans. En þar með er fagurgalinn rokinn og við tekur fremur undarleg lesning sem fer nokkuð fyrir brjóstið á mér sem starfsmanni Símans.
Nú er það ekki óalgengt í þjóðmálaumræðunni hér á Íslandi að staðreyndir og málefnaleg umræða verði að víkja fyrir ósannindum, hálfsannnleik og áróðri. Nú er mjög hægur leikur að benda á þær fjölmörgu staðreyndavillur sem Guðmundur Andri ber á borð í grein sinni í Fréttablaðinu - enda verður það gert hér að neðan.
Erfiðara er að gera sér í hugarlund hvað það er sem knýr Guðmund Andra til þess að flytja áróður sinn gegn Símanum og SkjáEinum. Ef Guðmundur Andri Thorsson væri ekki nýbúinn að sverja af sér fylgispekt við Baug gæti maður freistast til að álykta sem svo að þarna væri enn ein birtingarmynd þess hvernig Baugsmiðlum sé beitt gegn samkeppnisaðilum samstæðunnar eða öðrum þeim sem eigendur þeirra telja ástæðu til að beina spjótum sínum að. En hvað er það þá sem fær höfundinn til að drepa niður penna?
Varla vakir fyrir höfundi að upplýsa lesendur um Símann eða eðli fjarskiptamarkaðarins þar sem greinin ber það með sér að þekking höfundar á þeim málum sé ekki mikil. Fyrir utan rangfærslur Guðmundar Andra í bland við ranghugmyndir og sérkennilegar tuggur á borð við að Síminn sé "eitt af þessum Flokksfyrirtækjum Davíðstímans" er greinin lítið annað en lýsing höfundar á því hvað honum finnist um auglýsingar Símans (og SkjáBíó) - eins brennandi þjóðfélagsmál og það nú er að bera slíkt á borð fyrir lesendur Fréttablaðsins á leiðaraopnu.
Nú er ástæðulaust fyrir mig að amast yfir því við mann út í bæ að auglýsingar fyrirtækisins sem ég vinn hjá falli honum misvel í geð. Auglýsingar eru mismunandi og fólk er mismunandi. Það sem einum finnst fagurt finnst öðrum ljótt. Það sem einum finnst hin besta skemmtun finnst öðrum vera ómenning hin versta. Og komum við þar að kjarna málsins sem virðist fara algjörlega framhjá Guðmundi Andra um hvað Síminn hefur að bjóða.
Brautryðjandi tækni Símans og þjónusta á borð við SkjárBíó gefur fólki einmitt kost á því að velja. Velja að horfa á það sjónvarpsefni sem því sjálfu finnst skemmtilegt eða fróðlegt þegar því hentar. Þvert á það sem Guðmundur Andri virðist ætla býður SkjárBíó ekki einvörðungu upp á nýjar myndir frá Hollywood (t.a.m. Batman, eða annað sem sumum þykir forheimskandi en öðrum þykir frábær skemmtun) heldur einnig upp á fjölmargar heimildarmyndir (sem sumum finnast áhugaverðar en öðrum drepleiðinlegar), bíómyndir frá sk. óháðum framleiðendum (Fjalakötturinn), íslenskar myndir og svona mætti lengi telja. Auk þessa er mikið efni sem ekki þarf að greiða sérstaklega fyrir s.s. barnaefni, fréttir og viðtalsþættir af íslenskum sjónvarpsstöðvum. Allt þetta og margt fleira þegar þér hentar, eins og sagt er í auglýsingunni.
Að SkjárBíó skuli í auglýsingu velja að nota grænlenska dýralífsmynd (eða eitthvað álíka) sem dæmi um "leiðinlegt sjónvarpsefni" er fremur vísbending um það til hvaða markhóps auglýsingunni er beint en að um sé að ræða "tilskipun Símans um það hvað sé leiðinlegt", eins og Guðmundur Andri virðist telja. Nú er nokkuð langt um liðið síðan útvarp og sjónvarp var gefið frjálst á Íslandi og landsmenn þurfa í minna mæli en áður að búa við tilskipanir og miðstýringu á því hvað skuli borið á borð í fjölmiðlum. Sjónvarp Símans er miklu fremur liður í því að auka valfrelsi fólks í þessum efnum og ætti Guðmundur Andri því ekki þurfa að hafa áhyggjur af því að tilskipanir um sjónvarpsáhorf séu væntanlegar úr þeirri átt (hvernig svo sem miðstýringargleði annarra líður).
Nú er Guðmundur Andri Thorsson ekki einhver maður út í bæ að viðra illa rökstuddar skoðanir sínar á bloggsíðu sem fáir skoða - nóg framboð er af slíku frá minni spámönnum. Það ætti að vera pistlahöfundi sem skrifað hefur greinar og pistla nær samfellt frá 1980 ljóst að margir taka mark á því sem þeir lesa og sjá í fjölmiðlum þótt væntanlega hafi augu margra opnast fyrir því að fjölmiðlafólk er eins og annað fólk með skoðanir og hagsmuni sem kunna að þvælast fyrir "fagmennsku" þeirra, eins og lesa má um í bókunum Fjölmiðlar.
Ég tel Guðmund Andra í pistli sínum hafa farið heldur óvarlega með það vald sem hann hefur í krafti þess að fá pistla sína birta á leiðaraopnu í einu mest lesna dagblaði landsins og að ekki sé til of mikils mælst að hann gæti sanngirnis og hugi að staðreyndum áður en hann með með stílbrögðum vegur að fyrirtækjum og starfsheiðri fólks.
Nokkrar rangfærslur í grein Guðmundar Andra Thorssonar
- Síminn á framfæri ríkisins? Að minnsta kosti vafinn í bómull.
Síminn er ekki á framfæri ríkisins. Ólíkt mörgum öðrum fyrirtækjum í geiranum er rekstur Símans góður og fjárflæði gott. Samdráttur er þegar orðinn í flestum þáttum atvinnulífs og fer Síminn ekki varhluta af því. Óvissa er um gengismál, gjaldeyrishöft, gjaldeyrisskiptasamninga og ýmis önnur atriði sem hafa áhrif á flestöll íslensk fyrirtæki en ekki er með neinu móti hægt að halda því fram með rökum að Síminn sé á framfæri ríkisins.
- Einokunarfyrirtæki í þykjustu samkeppni (málamyndasamkeppni).
Síminn er í mjög svo raunverulegri og virkri samkeppni á öllum mörkuðum sem fyrirtækið starfar á. Nokkur fyrirtæki reka eigin fjarskiptakerfi auk þess sem fleiri þjónustuaðilar nýta sér fjarskiptakerfi þessara fyrirtækja (í heildsölu) til að bjóða þjónustu (í smásölu). Síminn er því hvorki með formlega né de-facto einokun á þeim mörkuðum sem fyrirtækið starfar á. Sá hluti fjarskiptakerfisins sem skilgreina má sem "náttúrulega einokun" (og samanstendur af passívum fjarskiptainnviðum s.s. ljósleiðurum, koparheimtaugum o.þ.h.) er í eigu Mílu og er verðlagningu og aðgengi að þessum hluta fjarskiptakerfa landsins stýrt af Póst- og fjarskiptastofnun skv. lögum þar sem jafnt aðgengi allra er tryggt. - Rukkar býsna hátt gjald fyrir þjónustu sem enginn veit hvað kostar.
Þessi stutta setning felur í sér staðhæfingar sem sem reyndar er ómögulegt að sannreyna en eru þó báðar rangar að mínum dómi.
Annars vegar er það staðhæfingin um að verð á þjónustu Símans sé "býsna hátt": Þetta er vitanlega afstætt. Ef borið er saman við verð í OECD ríkjum er áhrifamesta breytan í þeim samanburði gengisskráning íslensku krónunnar. Þegar gengi ISK var (of) hátt skráð (2002-2006) var þjónustan dýrari en víða annars staðar á meðan þjónustan er mjög ódýr núna miðað við gengisskráningu undanfarinna mánaða.
Samanburður á verði milli fjarskiptafyrirtækja á Íslandi er flókin enda þarf að bera saman upphafsverð, mínútuverð, hringimynstur og lúkningargjöld milli fyrirtækjanna svo nokkuð sé nefnt til að samanburðurinn sé marktækur en ekki tóm auglýsingamennska um ókeypis hitt og þetta eins og sum fyrirtæki hafa komist upp með að bera á borð fyrir neytendur. Teliegen er óháður erlendur rannsóknaraðili sem ber saman kostnað við fjarskiptaþjónustu í fjölmörgum löndum. Niðurstöður þeirra eru afgerandi, að sk. "Betri leiðir" Símans væru ódýrasta farsímaþjónustan sem völ var á árið 2007 og 2008. Á sama tíma auglýstu samkeppnisaðilar Símans "sína" útgáfu af raunveruleikanum um "lægsta verðið", ókeypis eða fríkeypis þótt flestum mætti vera ljóst að ekkert af veraldlegum gæðum sé ókeypis.
Hins vegar er það staðhæfingin um að engi viti hvað þjónustan kosti: Ég þekki ekki til annarra viðskiptageira sem hafa viðlíka kostnaðareftirlit og lagt er á Símann vegna markaðsráðandi stöðu fyrirtækisins, alþjónustukvaðar og fleiri þátta sem ríkið leggur á fyrirtækið. Lögboðin krafa er um kostnaðarlegan aðskilnað og fara æði mörg ársverk hjá eftirlitsaðilum sem og Símanum í að sannreyna að verðlagning sé í samræmi við lög og reglur.
- Auglýsing Símans segir eitthvað sem "var víst ekki einu sinni satt".
Erfitt er að átta sig á því hvað Guðmundur Andri er að fara með þessari óskýru og órökstuddu staðhæfingu.
- Auglýsingin óhemju dýr.
Guðmundur Andri veit alveg örugglega ekki hvað umræddar auglýsingar kostuðu Símann. Eitt er þó víst: ef öll fyrirtæki landsins hætta að hreyfa sig verða neikvæð margfeldisáhrif samdráttarins þeim mun meiri auk þess sem fyrirtæki sem á í harðri samkeppni, líkt og Síminn, hefur ekki efni á að sitja með hendur í skauti og vera áhorfandi í eigin örlagadansi.
Fyrir þá sem ekki hafa séð auglýsingu Símans sem virðast hafa verið kveikjan að pistli Guðmundar Andra á leiðaraopnu Fréttablaðsins þá er hún hér að neðan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:25 | Facebook
Athugasemdir
Mér fannst þetta ágætisgrein hjá honum, stutt og hnitmiðuð, vakti mann til umhugsunar um eignarhald, samkeppni og peninga sem eytt er til auglýsingagerðar. Held að hann hafi bara ýmislegt til síns máls þótt örugglega megi deila um ýmislegt sem sagt er. Menn hafa rétt til að hafa skoðanir og hafa líka rétt til þess að hafa rangt fyrir sér.
Svargreinin hér að ofan er hins vegar eins og nýja símaauglýsingin, allt of löng, óáhugaverð og vekur mann engan vegin til umhugsunar...nema þá kannski að hörð viðbrögðin stafi af því að kannski sé eitthvað rétt í grein Guðmundar...??
Ingimar Eydal, 31.3.2009 kl. 11:51
Ingimar Eydal: Það er rétt að grein Guðmundar Andra var stutt og kannski hnitmiðuð en hún var jafnframt laus við sanngirni og staðreyndir - sem ég tel nauðsynleg krydd í málefnalega umræðu.
Réttur fólks til að hafa rangt fyrir sér felur í sér sérlega ábyrgð þegar menn bera ranghugmyndir sínar á borð fyrir alþjóð líkt og Guðmundur Andri gerir í grein sinni. Þótt allir hafi vitanlega rétt á því að viðra sínar skoðanir er ekki þar með sagt að allar skoðanir séu jafn góðar og gildar.
Auk þess kýs ég fremur langt mál en að fara með rangt mál.
Sveinn Tryggvason, 31.3.2009 kl. 20:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.