Klúður í uppsiglingu vegna vanhæfi Evu Joly? Egill Helgason kann ekki að meta svoleiðis vangaveltur.

greinBrynjarsNielsonarÞrátt fyrir stóryrði einstaka frambjóðenda í aðdraganda Alþingiskosninga um hvernig sækja skuli ákveðinn hóp manna til saka vegna fjármálahrunsins geri ég mér nokkrar vonir um að réttarríkið muni þrátt fyrir allt lifa af eftir kosningar. Ef menn vilja ekki að væntanleg málaferli gegn einstaklingum sem taldir eru bera ábyrgð á hruninu (og hafi jafnvel gerst sekir um glæpsamlegt athæfi) fari út um þúfur er mikilsvert að embætti sérstaks saksóknara og aðrir sem sækja og rannsaka þessi mál vandi sig þannig að málin eyðileggist ekki af tæknilegum ástæðum - eins og t.a.m. vegna vanhæfis rannsóknaraðila. Fyrir mitt leyti vonast ég til þess að þessi mál verði rannsökuð almennilega og að þeir sem gerst hafa sekir um lögbrot verði sóttir til saka.

Hún var því kærkomin frétt Sigríðar Mogensen á Stöð 2 í gærkvöldi ( einnig á visir.is) þar sem vakin er athygli á athugasemdum Brynjars Nielssonar, hæstaréttarlögmanns, sem hann viðraði í grein í Morgunblaðinu í gær vegna ráðningar norsk/franska rannsóknardómarans Evu Joly þar sem hæstaréttarlögmaðurinn færir ágæt rök fyrir því að vegna fyrri ummæla sinna um stjórnendur bankanna sé Eva Joly vanhæf til að koma að rannsókn mála. Ennfremur geti aðkoma hennar hreinlega gert það að verkum að saksókn ónýtist.

Í grein sinn segir Brynjar:

Í kjölfar bankahrunsins virðist sem flestum þyki eðlilegt að lýsa því yfir opinberlega að stjórnendur fjármálafyrirtækja og svokallaðir auðmenn séu glæpamenn og landráðamenn í senn. Jafnframt er þess krafist að þeir verði lokaðir inni og eignir þeirra frystar. Þegar hlustað er á slíkan málflutning stjórnmálamanna og fjölmiðlamanna, sem þó gjarnan telja sig sérstaka málsvara lýðræðis og mannréttinda, er ástæða til að óttast um örlög réttarríkisins. Og ekki minnkar óttinn, þegar þeir sem fara með rannsókn og saksókn taka undir slíkan málflutning. Saksóknarvald er vandmeðfarið og umgengst ekki að hentugleikum.

Brynjar vitnar síðar í ummæli sem höfð eru eftir Evu Joly m.a. þess efnis að hún sé þess fullviss að stjórnendur bankanna hafi gerst brotlegir við lög. Um þetta segir Brynjar:

Með yfirlýsingum af þessu tagi er brotið gegn hlutlægnisreglu rannsakanda og ákæruvalds samkvæmt framangreindum ákvæðum laga um rannsókn sakamála. Það er sennilega einsdæmi í réttarsögu þessa lands, að minnsta kosti í seinni tíð, að þeir komi að rannsókn sakamála, sem lýst hafa yfir sekt þeirra sem rannsaka skal. Þessi fyrrverandi rannsóknardómari frá Frakklandi er því fullkomlega vanhæfur til að koma að rannsókn sérstaks saksóknara. Ráðningin getur hugsanlega valdið því að rannsókn og möguleg saksókn ónýtist, þar sem sakborningar hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð.

Einhverra hluta vegna ræðst Egill Helgason, sem átti stóran þátt í því að fá Evu Joly til landsins, harkalega að hæstaréttarlögmanninum fyrir greinarskrif sín. Egill kallar rök Brynjars "fjarstæðukenndar fullyrðingar" og segist eiginlega ekki hafa heyrt aðra eins vitleysu og lýkur bloggfærslu sinni á fremur ómálefnalegri tilraun til að rýra trúverðugleika hæstaréttarlögmannsins. 

Nú skal ég ekki leggja dóm á það hvort Eva Joly er vanhæf eður ei vegna einhverra ummæla sem hún kann að hafa látið falla í viðtölum fyrir eða eftir að hún var ráðin. Ábending Brynjars Níelssonar, hæstaréttarlögmanns, tel ég hins vegar bæði velviljaða og ágætlega rökstudda á meðan árás Egils Helgasonar á Brynjar vegna skrifanna er undarleg í meira lagi. 

Maður getur ekki annað en vonað að dómsmálaráðherra og aðrir þeir sem bera ábyrgð á því að þessum málum verði fylgt eftir á forsendum réttarríkisins hlusti á athugsemdir sem þessar og geri ráðstafanir til að afstýra því klúðri sem hugsanlega er í uppsiglingu.


mbl.is VG í sókn - Samfylking stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið ofboðslega er það einkennilegt hvað þið Sjálfstæðismenn eruð í mikilli vörn fyrir auðmenn og útrásarvíkinga. Það er kannski ekki svo skrýtið, þetta eru jú allt saman vinir ykkar þegar upp er staðið. Ég skora á þig að lyfta nú hausnum upp úr sandkassanum til hægri og lesa eftirfarandi grein. Þessi grein segir allt sem maður hefur vitað svo lengi, þessi grein skilur hins vegar eftir þær spurningar, ,,hvernig sannfærið þið hægrimenn ykkur um að kjósa Sjálfstæðisflokkinn"'? Prófuðu að rayna fara í gegn um greinina með jákvæðu hugarfari og ef þú ert skynsamur, þá verðlaunar þú einhvern annan flokk með atkvæði þínu, eða engna flokk en í næstu kosningum, alla vega ekki Sjálfstæðisflokkinn. Lestu og njóttu =>http://eyjan.is/silfuregils/2009/04/16/arfleifd-sjalfstaedisflokksins-grein-eftir-helga-hjalmarsson/

Valsól (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 00:01

2 Smámynd: Sveinn Tryggvason

Valsól: Takk fyrir ábendingu um grein Helga - við snöggan yfirlestur sýnist mér ég vera sammála æði mörgu í þessari grein enda gagnrýni ég, sem frjálshyggjumaður, Sjálfstæðisflokkinn gjarnan frá því sjónarmiði og er m.a. sammála því sem Gunnlaugur Jónnson hefur verið að skrifa um þau mál (m.a. í Þjóðmál) og Helgi nefnir í sinni grein. Ætli ég skrifi ekki vörn fyrir frjálshyggjuna hér á þetta blogg við tækifæri. Ekki vanþörf á - enda er hún sökuð um hluti sem frjálshyggjumenn hafa barist gegn í áratugi (sbr. Hayek og von Mises um peningamál og samkeppni gjaldmiðla).

Mér þykir undarlegt að lesa órökstuddar yfirlýsingar þínar, Valsól, um að ég sé í einhverskonar "vörn fyrir auðmenn og útrásarvíkinga". Í réttarríki hafa reyndar allir sem ákærðir eru fyrir brot rétt á vörn (þótt margir séu tilbúnir til að hengja án dóms og laga um þessar mundir) en tilgangur minn með færslu minni var einmitt að verkja athygli á hugsanlegu vanhæfi rannsóknaraðila þannig að væntanleg vörn fælist ekki einfaldlega í að benda á formgalla í rannsókn eða saksókn í stað þess að fjálla um efnisatriði - sekt eða sakleysi.

Viðbrögði þín við færslu minni eru því svipuð og viðbrögð Egils Helgasonar við grein Brynjars Níelsonar - ómálefnaleg. 

Sveinn Tryggvason, 17.4.2009 kl. 08:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband