Absúrd Brown og Gimsteinn Medínu

Skömmu áður en stórmennið og forsætisráðherra Breta, Gordon Brown, setti nokkra stórhættulega íslenska aðila á lista yfir hryðjuverkasamtök sendi hann múslímum í Kúvæt kveðju í tilefni af Ramadan, föstumánuði múslíma. Eins og höfundar myndbandsins hér að neðan (frá Council of Ex-Muslims of Britain
http://www.ex-muslim.org.uk) færa rök fyrir er kveðja Brown gagnrýniverð í sjálfu sér, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Sett í samhengi við aðgerðir forsætisráðherrans gagnvart Íslendingum er kveðja Gordon Brown absúrd! 

Í myndbandinu er það nefnt í framhjáhlaupi að útgáfufyrirtækið Random House hafi nýlega þurft að hætta við útgáfu skáldsögunnar The Jewel of Medina eftir Sherry Jones, af hræðslu við að bókin, sem fjallar um barnunga eiginkonu Múhameðs spámanns, kynni að verða kveikja að ofbeldisverkum múslíma.

Það minnti mig á að í dag var frá því greint í fjölmiðlum að Auður Jónsdóttir, rithöfundur og skólasystir mín úr MA, hefði gert stóran útgáfusamning við Random House í Þýskalandi. Auður þarf þá bara að passa sig á því að velja ekki röng viðfangsefni í bókum sínum ef hún gerir sér von um að fá þær útgefnar hjá forlaginu.


Fiat Empire - Seðlabankinn og stjórnarskráin (í BNA)

Bogi Ágústsson hefur tekið mörg viðtöl við áhugaverða menn í gegnum tíðina sem sýnd hafa verið á RUV. Eitt sem komið er til ára sinna er viðtal eða öllu heldur umræðuþáttur sem Bogi stjórnaði þar sem Milton Friedman ræddi við nokkra menn sem voru og eru áberandi í þjóðmálaumræðunni á Íslandi.

Í gærkvöldi var svo sýnt mjög gott viðtal Boga við Antonin Scalia, hæstaréttardómara í Bandaríkjunum um stjórnarskrá Bandaríkjanna, hlutverk hennar og mikilvægi. Nú hafa margir haldið því fram að ríkisstjórnir Bandaríkjanna, Bretlands og fleiri landa hafi á undanförnum árum gengið mjög langt í því að takmarka borgaraleg og stjórnarskrárvarin réttindi m.a. með vísan í baráttu gegn hryðjuverkum. Sú gagnrýni hefur oft verið á rökum reist að mínu viti. Við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af því hvernig slík löggjöf getur verið misnotuð og beitt í tilvikum sem eru langt frá þeim aðstæðum sem löggjöfinni upphaflega var ætlað að virka í. Það ætti hins vegar ekki að koma á óvart að ríkisstjórnir gangi eins langt og þær geta og þess vegna er mikilvægt að standa vörð um hlutverk stjórnarskárinnar sem aðhald við stjórnvöld og tilburði til að auka valdsvið sitt.

En það eru ekki eingöngu nýlegir tilburðir stjórnvalda til að auka valdsvið sitt til að berjast gegn hryðjuverkum sem fólk hefur haft efasemdir um. Lítt áberandi hópur fólks, m.a. með Ron Paul í forsvari, heldur því fram m.a. með því að vísa í upprunalega þýðingu Bandarísku stjórnarskrárinnar (líkt og Antonin Scalia gerir) að þau lög sem seðlabanki Bandaríkjanna starfar eftir séu í andstöðu við stjórnarskrá landsins. Heimildarmyndin hér að neðan fjallar einmitt um það efni. Mjög áhugavert.


Viðtal við næsta forseta Bandaríkjanna

Hér að neðan er YouTube "playlist" með viðtali Bill Oreilly frá Fox News við Barack Obama - næsta forseta Bandaríkjanna (nema eitthvað magnað gerist í nótt). Viðtalið, sem er í fjórum hlutum, er ágætt m.a. fyrir þær sakir að Oreilly leyfir sér að vera nokkuð ágengur og Obama er aldrei þessu vant hálf kindarlegur í svörum sínum. Í upphafi fyrsta hlutans er Obama m.a. spurður út í s.k. öryggismál og "War on Terror". Svör Obama eru áhugaverð...


mbl.is Obama kominn með forustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ron Paul og gullfóturinn

Nú eru örfáir dagar í forsetakosningar í Bandaríkjunum. Eins og oft áður hafa önnur baráttumál þurft að víkja fyrir efnahagsmálum sem megin málefni kosninganna. Efnahagsmál hafa þó aldrei verið jafn krítisk og þau eru einmitt núna - fyrir BNA og heiminn allan. Mikið er ritað og rætt um að hið efnahagslega hrun sem nú blasir við (eða er í gangi) sé áfellisdómur og jafnvel dauðadómur yfir kapítalismanum og frjálshyggjunni (og "nýfrjálshyggjunni" sem ég veit reyndar ekki hvað er) eins og margir vilja meina.

Nú liggur það í augum uppi eitthvað verulega mikið er í ólagi þegar fjármálakerfi heimsins er að hruni komið. Það er því eðlilegt og nauðsynlegt að endurskoða allt og vera tilbúinn til að breyta því sem breyta þarf til að koma hlutunum á réttan kjöl á ný. Það þurfa hægrimenn vissulega að vera tilbúnir að gera. Vil aftur benda á Christ Martenson fyrir þá sem nenna að skoða vel rökstudda  skoðun um hvað sé að .

10USDollarsEinn af megingöllum kerfisins er að  seðlabankar hafa í dag (eftir að gullfóturinn var endanlega afnuminn) engar takmarkanir á sér hvað varðar seðlaprentun og eins og dæmin sýna eru ríksistjórnir mjög viljugar til að ausa peningum út í hagkerfið og þannig gjaldfella alla peninga sem fyrir eru í kerfinu.

Þessi veigamikli þáttur vestrænna hagkerfa er mjög langt frá því að vera hugarfóstur frjálshyggjunnar enda hafa menn eins og Ludwig von Mises og aðrir hagfræðingar af austuríska skólanum bent á að peningar verði til (eða ættu að verða til) á markaðnum - en ekki í ríkisstofnunum með seðlaprentun án tengsla við raunverulega verðmætasköpun (e. fiat currency).

Sound money still means today what it meant in the nineteenth century: the gold standard.

Ludwig von Mises

Einn af þeim örfáu stjórmálamönnum sem setur þessi málefni á oddinn í sínu málflutningi er Ron Paul, sem bauð sig fram sem forsetaefni repúblikana. Málefnið er allt annað en einfalt og málflutningur Ron Paul þykir jafnvel leiðinlegur enda býður hann ekki upp á mannfórnir (eins og er í tísku á Íslandi í dag) né fagurgala (eins og Bandaríkjamenn ætla að kjósa yfir sig eftir örfáa daga). Myndbandið hér að neðan er útvarpsviðtal (já ég veit, ekki mjög sexý - en innihaldið er gott) við Ron Paul. Viðtalið gefur einhverja innsýn inní málflutning frjálshyggjumanna um þessi málefni...

Hér er svo samantekt þar sem því er haldið fram að að enfahagslegt hrun BNA sé framundan þar sem Ron Paul kemur líka við sögu...


Líf í skugga RUV

Það var fróðlegt viðtalið sem Sölvi Tryggvason tók við Sigríði Margréti Oddsdóttur, sjónvarpsstjóra Skjásins, og Pál Magnússon, útvarpsstjóra um þá gagnrýni sem fram hefur komið á stefnu stjórnvalda um að RUV skuli heimilt að afla tekna með sölu auglýsinga. Nú má vera flestum ljóst sem á annað borð horfa á sjónvarp að RUV hefur á síðustu mánuðum og misserum fært sig upp á skaftið hvað varðar auglýsingar í sjónvarpi. Kastljós hefur um nokkurt skeið verið brotið upp með auglýsingahléum og nýlega voru stuttir skemmtiþættir á borð við Útsvar og Gott kvöld bútaðir í sundur til að koma fyrir girnilegum auglýsinga-slottum.

Picture 1Nú er það ekki óskynsamleg ráðstöfun fyrir sjónvarpsstöð sem aflar tekna með auglýsingasölu að haga dagskrá og uppbyggingu sjónvarpsþátta þannig að hámarka megi auglýsingatekjur - ekkert athugavert við það og starfsfólk RUV er að gera fína hluti hvað það varðar. Hins vegar er hin hliðin á þessum peningi sú að með þessu er RUV að ganga miklu mun lengra en aðrar ríkisreknar sjónvarpsstöðvar sem ætlað er að starfa í almannaþágu (e. public service). Í nágrannalöndum okkar tíðkast það ekki að ríkisreknu stöðvarnar (BBC, DR, SVT, NRK o.fl.) séu á auglýsingamarkaði og alls ekki með auglýsingahléum inní fréttaþáttum og innlendum skemmtiþáttum eins og RUV gerir í dag.

Fyrir utan hvað "auglýsingamennska" RUV dregur úr því almannaþjónustuhlutverki sem er í raun tilvistarréttlæting stofnunarinnar má vera ljóst að einkareknar sjónvarpsstöðvar eiga mjög erfitt með að lifa og vaxa í skugga ríkisfjölmiðils sem starfar með þessum hætti. Fréttir gærdagsins af uppsögnum á einkareknu ljósvakamiðlunum ættu að vekja stjórnvöld til umhugsunar um þessi mál.

Ég myndi fyrir mitt leyti sakna Dr. House og ég veit að tengdó myndi sakna Survivor. Fólk hlýtur að geta orðið sammála um að það sé varla hlutverk ríkisstofnunar að bera á borð þess háttar léttmeti.

70_land3_huge


3- 0 : Ísland á EM í fúss. Íííhaaa.

Góður bolti. Soldið vondur völlur - eiginlega alveg skelfilega vondur en mesta furða hvað þær náðu góðu spili (nokkuð sem ekki sést alltaf þegar karlalandsliðið spilar jafnvel við góðar aðstæður). Danir segja stundum, "livet er for kort til kvindefodbold". Ekki hér ekki núna. Glæsilegur árangur hjá stelpunum okkar. Þetta eru flottar fyrirmyndir fyrir stelpurnar mínar.

Takk fyrir góða skemmtun.

(Íþróttafréttamennirnir sem lýstu leiknum á RUV hefðu samt mátt sleppa því að lýsa því yfir að "írska liðið væri bara lélegt" - það þótti mér ekki frábært).


Darling & Flashheart

Í dag er við hæfi að rifja upp lítilmótlega persónu að nafni Darling úr þáttum Rowan Atkinson um Captain Blackadder. Hér að neðan er brot úr þætti þar sem Darling fær makleg málagjöld fyrir að vilja ekki koma flugkappanum og kvennaljómanum Lord Flashheart til bjargar þegar sá síðarnefndi hrapaði af himnum ofan í mikilli svaðilför. Hljómar eitthvað kunnuglega.


Hraðnámskeið um efnahagsmál (orkumál og umhverfismál)

Fyrir tilviljun rakst ég á síðu Chris Martensson sem er með því áhugaverðara sem ég hef séð lengi. Chris ræðir um þróun efnahagsmála, orkumála og umhverfismála - eða 3E's (Economy, Energy & Environment) eins og hann kallar það.

Einhvern daginn mun ég skrifa meira um málið en til að byrja með vil ég hvetja fólk til að skoða síðuna hans og horfa á Crash Course vídeó-klippurnar hans um þessi mál.

Myndin hér að neðan er tekin úr einum af fyrirlestrum Chris...

ChrisM - Money Stock

 


Orð dagsins

Fleygustu orð dagsins tel ég vera niðurlag pistils á Vef-Þjóðviljanum - www.andriki.is - í dag.

Svo er það góð regla að hafna öllum tilboðum um stækkun sem menn fá á netinu.

Pistillinn fjallaði um ESB og Ollie Rehn og trakteringar hans síðustu dagana.


Obama í stuði

Eins og ég hef áður látið í ljós eru stjórmálaskoðanir Barack Obama ekki þær sömu og mínar. En góður ræðumaður er hann og ekki að furða að margir heillist af honum. Hér er hann í banastuði við Al Smith Memorial Dinner. Mjög fyndinn...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband