Skrumskælingar á lýðskrumsummælum

Þótt fyrirsögnin að þessari færslu líti e.t.v. út fyrir að vera hluti af upphitunaræfingu í Tjáningu 102 sem ég var svo lukkulegur að upplifa hjá Erlingi Sigurðarsyni í MA fyrir ekkert mjög mörgum árum þá er það bara tilviljun held ég. Og þó. Málatilbúnaðurinn sem hér er til umfjöllunar á þó það skylt við mentó að hann minnir einna helst á Morfís þar sem orð andstæðingsins eru gjarnan slitin úr samhengi og rökum snúið á hvolf til að skora stig. Og svo eru nokkrir af aðalleikurunum sennilega búnir að elda grátt silfur saman síðan þeir voru sjálfir í menntaskóla uppúr miðri síðustu öld. Kannski langsótt tenging :)

Eins og margir aðrir horfði ég á viðtal við Davíð Oddsson á dögunum - gerði meira segja gott betur og horfði á viðtalið í heild á vefnum. Ég dreg ekki dul á það að ég hef lengi verið hrifinn af Davíð enda einn af fáum íslenskum stjórnmálamönnum (fyrrverandi sem núverandi) sem í raun hafði skýra pólitíska sýn. Davíð er að auki rökfastur, samkvæmur sjálfum sér og með einstaka lagni við að flytja mál sitt þannig að fólk skilur. (Best að eyða samt ekki of mörgum kílóbætum í að mæra Davíð hér.)

En Davíð Oddson er ekki lengur sjórnmálamaður. Hann er formaður bankastjórnar Seðlabankans. Sú krítík sem Davíð hefur fengið í kjölfar viðtalsins er að vissu leyti réttmæt þar sem honum ber að fylgja ákveðnum ramma um það hvernig Seðlabankinn tjáir sig um efnahagsmál. Þó ég þekki ekki vel þann lagaramma sem um hér um ræðir kann vel að vera að Davíð hafi farið út fyrir hann í umræddu viðtali - það væri allavega ekki í algjörlega óvænt hegðun. Að þessu leyti er eðlilegt og málefnalegt að krítisera Davíð og minna á að hann er málpípa Seðlabankans.

Einnig er skiljanlegt að fólk velti upp spurningum um það hvort Davíð beri að nokkru leyti ábyrgð á þeirri ofþenslu sem hér hefur verið sem m.a. hefur valdið þvi að ungt fólk á  í dag mjög erfitt með að koma sér upp þaki yfir höfuðið sbr. ágætt komment "Daða" við færslu Egils Helga um málið. Ég tel reyndar að ástandið í íslensku efnahagslífi sé að töluverðu leyti "timburmenn" vegna hraðrar þróunar úr lokuðu hagkerfi hafta yfir í opið markaðshagkerfi. Þróunar sem m.a. Davíð getur verið stoltur af að hafa átt þátt í að hrinda af stað og leitt hefur til almennrar kaupmáttaraukningar. Margir fóru sannarlega of geyst í Hummer-jeppum og fjórhjólum og 100% húsnæðislánum í erlendri mynt þegar gengisvísitalan var 118 en ekki 180 eins og hún er í dag en hæpið er að kenna barþjóninum um að maður hafi drukkið of mikið og endað útí skurði í beygluðum Hummer.

Það er hins vegar líka töluvert framboð af ómálefnalegri og furðulegri krítik í kjölfar viðtalsins við Davíð. Leiðari Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu 23. september er í aðra röndina málefnaleg krítík um að yfirlýsingar Davíðs samræmist ekki ramma Seðlabankans en í hina röndina ævintýraleg mistúlkun á ummælum Davíðs um að það séu "lýðskrumarar af versta tagi" sem gefa í skyn hægt sé að leysa aðsteðjandi vanda með þvi einu að taka upp evru. Einhvernveginn fær Þorsteinn ummæli Davíðs til að vera svar við skoðunum Jónasar H. Haralz um peningamálastefnu Seðlabankans og kryddar málið með smá tímaflakki til tíðar Geirs Hallgrímssonar! Spurning hvort þarna sé á ferðinni persónuleg agenda Þorsteins sem hafi meira með óuppgerðar sakir við Davíð en peningamaálstefnu Seðlabankans. Ef svo er væri ekki úr vegi að minna ristjóra útbreiddasta dagblaðs landsins á ábyrgð hans. 

Davíð og Þorsteinn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband