14.7.2008 | 23:57
Varúð! Umræða - Global Warming is not a Crisis
Samtökin Intelligence Squared, sem standa fyrir umræðu "í beinni" um ýmis mál, tóku sig til á dögunum og fengu nokkra vandaða menn til að rökræða eftirfarandi staðhæfingu: "Global warming is not a crisis". Að bjóða upp á umræðu um þetta mál telja margir vera fáheyrðan dónaskap enda hefur maður oftsinnis heyrt að nú sé umræðunni lokið um hnattræna hlýnun (tilveru hennar, ástæður og afleiðingar) og komið sé að aðgerðum (sem oftar en ekki fela í sér skattlagningu af einhverju tagi).
Þeir sem töluðu fyrir staðhæfingunni um að hnattræn hlýnun væri ekki krísa voru þeir Michael Crichton, Richard S. Lindzen, Philip Stott á meðan Brenda Ekwurzel, Gavin Schmidt, Richard C.J. Somerville færðu rök gegn staðhæfingunni. Mæli með því að fólk hlusti eða horfi á umræðurnar (sjá neðar í þessari færslu). Athyglisvert er að skoða niðurstöður skoðanakönnunar sem IQ2 birtir á heimasíðu sinni og ég dró saman í eina mynd hér að neðan.
Skoðanakönnunin var framkvæmd bæði fyrir og eftir umræðurnar auk þess sem boðið er upp á að láta skoðun sína í ljós á netinu. Greinilegt að rök Crichton, Lindzen og Stott um að hnattræn hlýnun sé ekki krísa hlutu góðan hljómgrunn enda fjölgar fylgendum staðhæfingarinnar úr tæplega 30% í rúmlega 46%. Reyndar er það eftirtektarvert í raun hve margir voru fylgjandi staðhæfingunni fyrir umræðurnar miðað við hversu rækilega búið er að heilaþvo almenning með hræðsluáróðri um hnattræna hlýnun. Það kann þó að vera að þeir sem á annað borð mæta á fyrilestra sem þessa séu fremur hugsandi efahyggjumenn en gengur og gerist og það skýri þetta háa hlutfall. Ég mæli með að fólk hlusti á rök með og á móti og myndi sér skoðun - umræðunni er vonandi ekki lokið.
Á YouTube er hægt að horfa á umræðuna (í 10 hlutum) hér að neðan en jafnframt er hægt að hlusta á hana á heimasíðu IQ2.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.7.2008 kl. 00:33 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.