Óþægileg umræða?

Pínu svekkjandi að missa af Al Gore í morgun - hefði svo sannarlega viljað vera þarna. Hann hlaut mjög mikið lófatak frá áheyrendum eftir góðan fyrirlestur enda bæði sviðsvanur og með þaulæft prógram. Það fór víst aðeins minna fyrir umræðum enda kannski ekki skrýtið að Gore sé ekki mikið fyrir óæfðar spurningar - hvað þá rökræðu um efnisatriði málsins. Ætli það sé ekki bara gamaldags og hálf asnalegt að efast enda ku vera vísindalegur kórsöngur (scientific consensus, svo ég taki nettan Kristján-heiti-ég-Ólafson á þetta) á bak við Gore um þetta.

Reyndar fann breskur dómstóll upp á þeim dónaskap fyrir nokkru að efast um sannleiksgildi myndarinnar An Inconvenient Truth - fann 9 villur. Fussumsvei.  

inconvenientprize9

Og þessi vill meina að villurnar séu 35!

Eru þetta ekki bara allt saman lobbýistar frá olíufélögunum sem reyna að sverta Al Gore með áróðri eins og þessu litla myndskeiði. 


mbl.is Framtíðarlandið fagnar komu Gore
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég mætti. Fyrirlesturinn var þrælgóður, enda þaulæft "performance" eins og þú bendir á. Það gáfust 20-30 mínútur í spurningar svo vandinn var ekki að Gore gæfi ekki færi á sér, spurningarnar sem hann fékk voru bara svo lélegar og algerlega lausar við krítík. Í stað þess að velja fólk af handahófi til spurninga hefði verið miklu betra fyrirkomulag að senda inn spurningar fyrirfram (eða á staðnum í SMS) og velja svo úr þær bestu. Þetta er svo verðmætur tími að það var synd að hann færi í mismunandi útgáfur af "þú ert frábær og ég er sammála þér" dulbúið í spurningaformi.

Ég hefði t.d. haft gaman af að sjá Gore svara spurningunni um það hvort Íslendingar eigi að axla ábyrgð í losunarmálum heimsins með því að taka til okkar álver og framleiða þar með "aðeins" 1.6 tonn af CO2 fyrir hvert tonn af áli á móti ca. 20 tonnum eins og raunin er í flestum öðrum álverum heimsins (þó að miðað við þessi hlutföll megi vissulega ennþá tala um "koltvísýringsverksmiðjur" með ál sem aukaafurð). Það hefði verið fróðlegt að sjá upplitið á salnum ef svarið hefði verið á þann veg sem ég býst við.

Heilt yfir eru samt nokkrar óumdeildar staðreyndir í þessum málum:

  • Magn CO2 í andrúmsloftinu er langt yfir því sem það hefur verið í nokkur hundruð árþúsund og það er að megninu til vegna brennslu mannsins á kolefnaeldsneyti
  • Hitinn á jörðinni hefur hækkað um 0,5°C á síðustu 100 árum
  • Í vísindasögunni er sjaldgæft að sjá jafnmikla samstöðu vísindasamfélagsins um nokkurn hlut eins og það að maðurinn eigi þátt í þessari hitaaukningu. Þetta er sami vísindaprósessinn og færði okkur nútíma læknavísindi, iðnbyltinguna og Pepsi Maxið þannig að við skulum fara varlega í að vantreysta honum. Það er hins vegar enn deilt um það hversu stór þessi hlutur er, hversu mikil hitaukningin muni verða og hvaða afleiðingar hún muni hafa.

Ég hef áður bent á að þetta er ekki stóra vandamálið sem þarf að leysa. Vandamálið sem þarf að leysa er fátæktin í heiminum, þannig að það verði ekki bara við - ríku þjóðirnar - sem geta tekist á við mögulegar afleiðingar af loftslagsbreytingum (af mannavöldum eða ekki) heldur líka hinar. Það er ekkert stórmál að takast á við fólksflutninga, jafnvel tugmilljóna manna, í breytingum sem verða á áratugum með þægilegum fyrirvara EF það er nægilegt fjármagn á viðkomandi svæðum til að takast á við þá.

Ég minni á að á síðustu 50 árum höfum við "tekið við" meira en 3 milljörðum nýrra jarðarbúa á sama tíma og meðallífsskilyrði hafa snarbatnað - og það var ekki einu sinni skipulagt.

- - -

Þetta var orðið svo ítarlegt að ég gerði úr þessu bloggfærslu hjá mér.

Hjálmar Gíslason (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 10:41

2 Smámynd: Morten Lange

Ef menn vilja ræða þessu af alvöru - hví ekki skrifa grein eða bæta við grein sem er fyrir á Wikipedia ? Þar er einmitt aðalmálið að halla ekki á neinn þegar hægt er að vitna í hágæða heimildum. ( Tílkun á hágæða fer eftir tegund fullyrðinga sem er sett fram og hvers konar efni er til umræðu að vísu )

Þetta er til á ensku, en það væri ekki vitlaust að skrifa síðu um umræðuna um hnattræna veðurfarsbreytinga líka undir   is.wikipedia.org

Morten Lange, 11.4.2008 kl. 12:14

3 Smámynd: Sveinn Tryggvason

Vá Hjálmar. Ég þarf að fara að lengja færslurnar mínar sé ég :)
Þú ert nátturulega svo skynsamur að sjá að málatilbúningur Gore er ekki skotheldur og leyfir þér því að efast (sem er meira en margir leyfa sér). Af því að ég hef svo gaman af rökæðu vil ég leyfa mér að taka fyrir ágæta punkta þína um "óumdeildar staðreyndir". Best að gera það í sér færslu við fyrsta hentugleika.

Sveinn Tryggvason, 11.4.2008 kl. 18:22

4 Smámynd: Sveinn Tryggvason

Wiki-umræða er nátturulega ágæt hugmynd, Morten. Ef ég þekki Wikipedia (þar sem allur almenningur getur bætt við og breytt innihaldinu) er í raun um að ræða að meirihlutinn ráði. Mér er ljóst ég er í minnihluta með skoðanir mínar og því líklegt að  "mainstream-skoðunin" verði ofaná í Wiki-uppsetningu. Aðalmálið er þó að ég myndi gjarnan vilja sjá meira af umræðu og rökræðu um þetta mikilvæga mál. Í dag eru efasemdarmenn litnir hornauga.

Sveinn Tryggvason, 11.4.2008 kl. 18:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband