10.2.2011 | 11:30
Klappað og klárt?
Eftirfarandi grein eftir mig birtist í Morgunblaðinu 10. febrúar 2011.
Á dögunum hélt formaður Sjálfstæðisflokksins ræðu í Valhöll. Að ræðu lokinni klöppuðu sumir fundarmanna á meðan aðrir sátu hljóðir. Lófatak fundarmanna magnaðist á undraverðan hátt í fjölmiðlum en þó var allra mest klappað á stjórnarheimilinu og meðal pólitískra andstæðinga Sjálfstæðisflokksins.
Formaðurinn lagði á það áherslu í ræðu sinni að nýfengin afstaða hans til nýrra Icesave-samninga sé í fullu samræmi við þá skoðun sem hann hefur haldið á loft frá upphafi, að betra sé að leysa Icesave-deiluna með samningum en fyrir dómstólum. Máli sínu til stuðnings vitnaði formaðurinn í orð formanns flokksins til 27 ára, Ólafs Thors, frá því í landhelgisdeilunni við Breta árið1961 um að hroðalegustu svikin sem auðið er að fremja sé að svíkjast um að semja.
Það er rétt að viti borin þjóð sem býr á mörkum austurs og vesturs getur og hefur farsællega unnið eftir þeirri skynsamlegu meginreglu að leita sátta og forðast beri stríð í lengstu lög. Enda erum við herlaus þjóð og höfum aldrei háð eiginlegt stríð við aðra þjóð. En við erum ekki réttlaus þjóð og á Íslandi með lögum skal land byggja. Þegar ekki er hægt að útkljá mál með sátt sem er aðgengileg fyrir deiluaðila er eðlilegt að leita til dómstóla. Þetta fyrirkomulag er grundvallaratriði réttarríkisins og jafnframt eðlilegur farvegur þegar fullvalda ríki eiga í deilum.
Hvort Icesave-samningurinn, sem nú liggur fyrir, telst aðgengileg sátt fyrir Íslendinga er vitanlega matsatriði. Fram hefur komið að formaður Sjálfstæðisflokksins telji kröfu Breta og Hollendinga ekki lögvarða en eftir ískalt hagsmunamat sé niðurstaða hans sú að best sé að samþykkja fyrirliggjandi samning. Þessu mati er ég ósammála.
Í fyrsta lagi geta það ekki talist rök í sjálfu sér að benda á að Icesave-samkomulagið sé sem slíkt gott af þeirri ástæðu einni að um samkomulag sé að ræða. Horfa verður til efnis samkomulagsins til þess að meta, hvort í því felist betri málalyktir en þær að bíða úrskurðar dómstóls. Þótt Bjarni Benediktsson hafi frá upphafi málsins talað fyrir samningaleið er það ekki þar með sagt að hann sé skuldbundinn til að samþykkja eða tala fyrir samþykkt samningsins sem nú liggur fyrir jafnvel þótt sá samningur kunni að vera sá besti sem viðsemjendur okkar munu bjóða. Þótt samningaleiðin hafi verið fyrsti valkostur felst engin pólitískur viðsnúningur eða óábyrgt framferði í því að hafna þeim samningi sem nú liggur fyrir.
Í öðru lagi er sá málflutningur, sem talsmenn Icesave-samkomulags hafa borið á borð fyrir þjóðina, að fyrirliggjandi samningur sé miklu betri en hinir fyrri, ekki boðleg rök. Það ber vott um vonleysi og metnaðarleysi að meta fyrirliggjandi samning út frá þeim dæmalausa samningi sem Svavar Gestsson sótti með harðfylgi í greipar gáttaðra viðsemjenda sinna og rann óséður í gegnum Stjórnarráðið. Með viðlíka málatilbúnaði væri allt eins hægt að gangast undir kröfu nágrannans um að borga stöðumælasektir hans með þeim rökum að við sleppum við að greiða bifreiðagjöldin hans eins og nágranninn heimtaði upphaflega.
Nú hefur formaður Sjálfstæðisflokksins illu heilli tekið undir þessa rökleysu og pólitískir andstæðingar hans fagna.
Ábyrg afstaða
Ef skoðun formannsins er sú að kröfur Hollendinga og Breta séu ekki lögvarðar er eina ábyrga afstaðan, sem hann getur tekið til málsins, að hafna fyrirliggjandi Icesave-samningum, enda er inntak þeirra hið sama og hinna fyrri: að almenningur greiði skuldir óreiðumanna. Slík afstaða væri í fullu samræmi við fyrri yfirlýsingar, í rökrænu samhengi við afstöðu formannsins til lögmætis krafnanna og í samræmi við grunngildi Sjálfstæðisflokksins og ályktun síðasta landsfundar.
Enn fremur væri slík afstaða til þess fallin að marka endalok fylgispektar flokksins við pilsfaldakapítalisma sem er um það bil að sökkva hverju vestrænu ríki á eftir öðru í skuldafen. Jafnframt myndi slík afstaða marka endurfundi við hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins um frelsi einstaklingsins og traust á réttarríkið.
Bjarni Benediktsson og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins getur verið stoltur af því að eiga sinn þátt í því að fyrirliggjandi Icesave-samningar eru skárri en sú hörmung sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var tilbúin að samþykkja fyrir hönd þjóðarinnar en þjóðin hafnaði síðan með afgerandi hætti fyrir tilstilli forseta Íslands. Eftir stendur þó samningur sem gerir ráð fyrir að íslenskir skattgreiðendur borgi fyrir pólitísk inngrip Breta og Hollendinga til bjargar eigin bankakerfi. Sá samningur er á ábyrgð og í boði norrænu velferðarstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Að þeim samningi á Sjálfstæðisflokkurinn ekki að eiga neina hlutdeild, enda fælist í því pólitískur afleikur og samfylking kringum sjónarspil um að bankakerfi heimsins sé eitthvað annað en gjaldþrota.
Enn er tími til að breyta rétt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Sveinn, þessi grein er afbragð. U-beygja forystu Sjálfstæðisflokksins í málinu er óskiljanleg og hörmuleg í alla staði.
Baldur (IP-tala skráð) 10.2.2011 kl. 23:50
Sammála þér, Sveinn minn, í góðri grein þinni - en meira þarf til.
Tryggvi Gíslason, 17.2.2011 kl. 23:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.