9.5.2010 | 00:00
Háskóli Íslands í fallhættu
Eftirfarandi grein eftir mig birtist í styttri útgáfu í Morgunblaðinu í dag - 8. maí 2010.
Háskóli Íslands stóð fyrir fimm opnum umræðufundum dagana 26.-30. apríl 2010 um lærdóma af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Báru fundirnir heitið "Uppgjör, ábyrgð og endurmat". Fundirnir voru allir afar vel sóttir og ljóst að margir höfðu áhuga á að heyra hvað háskólamenn hefðu fram að færa.
Sum erindin voru góð - skýr, málefnaleg og fróðleg. Ber þá helst að nefna erindi Huldu Þórisdóttur sem fjallaði um Efnahagshrunið sem afsprengi aðstæðna og fjötraðrar skynsemi (i), erindi Eiríks Jónssonar um Eftirlitsstofnanir fjármálakerfisins (ii) og Þórðar Bogasonar um Ráðherraábyrg (iii).
Nokkur erindi voru hins vegar á mörkunum að geta talist boðlegt framlag háskólasamfélagsins þar sem þau minntu meira á lélegar bloggfærslur en framlag akademíunnar til þjóðmálaumræðu. Órökstuddar alhæfingar, aulabrandarar á kostnað einstaklinga og óyfirveguð og ósanngjörn meðferð á viðfangsefninu á ekki heima í erindum háskólamanna sem taka sjálfa sig alvarlega. Að þessu leyti olli HÍ vonbrigðum.
Einsleit umræða
Annað sem einkenndi umræðuna og ályktanir og skoðanir frummælenda var einsleitnin. Því var haldið fram að sökudólgurinn væri frjálshyggjan, afskiptaleysið og skortur á lögum. Um leið var því slegið föstu að ástæður hrunsins hefðu legið í stærð bankanna miðað við stærð hagkerfisins og þannig getu Seðlabankans og ríkisins til að hlaupa undir bagga með bönkum á fallandi fæti. Enginn frummælenda hafði orð á því að frjálshyggjumenn hefðu áratugum saman bent á að þrautavaralán frá Seðlabönkum og ýmis önnur afskiptasemi ríkisins ýttu undir áhættusækni í fjármálakerfinu og reglubundið hrun. Afstaða flestra frummælenda var að þessu leyti einsleit og umgjörð Háskólans því ekki vísindaleg".
Öfugmæli Stefáns Ólafssonar
Stefán Ólafsson, prófessor, var lengst allra frá vísindalegri hlutlægni enda rakst hvað á annars horn í erindi hans. Í stað þess að gera tilraun til að byggja á haldbærum rökum og álykta út frá þeim kaus prófessorinn að nýta tækifærið til að viðra gamalkunnar ásakanir á hendur pólitískum andstæðingum. Ásakanir sem prófessorinn fékk svo enn aftur tækifæri til að útvarpa gagnrýnislaust í Speglinum í Ríkisútvarpinu, þriðjudaginn 4. maí.
Ein furðulegustu öfugmæli í erindi Stefáns Ólafssonar fólust í staðhæfingunni um að tíðarandi frjálshyggjunnar greiddi leið fyrir taumlausa þróun bóluhagkerfis sem sprakk í hruninu. Þessa staðhæfingu lagði prófessorinn á borð fyrir áheyrendur án þess að geta þess að austurríski hagfræðiskólinn - sem með réttu mætti nefna hagfræði frjálshyggjumanna - útskýrir mjög nákvæmlega hvernig eignabólur verða til og springa - en Friedrich Hayek fékk einmitt nóbelsverðlaun í hagfræði 1974 fyrir framlag sitt til þessarar kenningar sem á ensku nefnist austrian business cycle theory - og á rætur sínar að rekja til skrifa Ludwig von Mises árið 1912.
Frjálshyggjumenn af austuríska skólanum hafa svo sannarlega varað við ósjálfbærni bóluhagkerfisins eins og fjölmörg dæmi sanna. Fyrir utan skrif hagfræðinga á borð við Mises og Hayek í gegnum tíðina mætti sem dæmi nefna áratugalanga baráttu bandaríska stjórnmálamannsins Ron Paul (sbr. þessa samantekt eða þetta viðtal). Einnig eru afdráttarlausar viðvaranir Peter Schiff vel þekktar en samatekt á sjónvarpsviðtölum við Schiff öðluðust mikla útbreiðslu á Youtube undir heitinu Peter Schiff was right. Ron Paul og Peter Schiff eru báðir miklir frjálshyggjumenn og vísa iðulega í austurríska hagfræðiskólann máli sínu til stuðnings.
Staðhæfing Stefáns Ólafssonar um að frjálshyggja hafi ýtt undir bóluhagkerfið er ekki einungis órökstudd og röng heldur fáránleg í ljósi aldar gamallar baráttu austurríska hagfræðiskólans gegn verðbólum.
Öllu verra er þó að ranghugmyndir á borð við þær sem hrjá Stefán Ólafsson leiða til rangrar sjúkdómsgreiningar og geta orðið til þess að koma þjóðfélaginu í enn meiri flækju þar sem ábyrgð eins flækist í áhættu annars. Slíka samfélagsgerð mætti e.t.v. kalla "pilsfaldskapítalisma" - þar sem gróði er einkavæddur og tapið er þjóðnýtt - en slík samfélagsgerð á ekkert skylt við frjálshyggju.
Strámaðurinn Laffer
Í fyrirlestri sínum komst Stefán Ólafsson þó á köflum glettilega nálægt rót vandans. Þannig sýndi prófessorinn glæru yfir skuldasöfnun þjóðarinnar erlendis sem hann lýsti sem bestu myndinni af hrunadansinum". Í stað þess að tengja aukna skuldasöfnun þjóðarinnar erlendis við flóðbylgju lánsfjár sem reið yfir heimsbyggðina á þessum árum - og var bein afleiðing peningastefnu seðlabanka heimsins í anda Keynes - fór fyrirlesarinn því miður út af sporinu og niður í skotgrafirnar.
Skotmarkið var hið sama og venjulega og reyndi prófessorinn að gera Arthur Laffer að meistara frjálshyggjunnar" í þeim tilgangi að koma höggi á frjálshyggjuna með því að segja skrýtlu um ummæli Laffer í Þjóðmenningarhúsinu í október 2007. Það sem tekur broddinn úr skrýtlunni er að Laffer er enginn frjálshyggjumaður. Með tilliti til peningastefnu og þróunar skulda og peningamagns - sem var umræðuefni prófessorsins þegar hann fór út af sporinu - er Arthur Laffer býsna langt frá því að vera frjálshyggjumaður. Það þekkja allir sem vita af frægu veðmáli sem Laffer og fyrrnefndur Peter Schiff gerðu í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni CNBC í ágúst 2006. Í viðtalinu varaði Peter Schiff við því að neysla væri drifin áfram af skuldum og gervihækkun fasteigna og hlutabréfa skapaði fölsk pappírsverðmæti. Áður en langt um liði myndi bólan springa og fólk skilið eftir í skuldafeni. Arthur Laffer sagði aftur á móti efnahag Bandaríkjanna aldrei hafa verið betri og að peningastefna seðlabankans væri frábær! Það er skemmst frá því að segja, sem naumast fer nú milli mála, að frjálshyggjumaðurinn Peter Schiff vann veðmálið.
Skoðanir og ummæli Arthur Laffer um peningastefnu eru augljóslega í andstöðu við skoðanir frjálshyggjumanna. Það hindraði Stefán Ólafsson samt ekki í því að reyna að gera strámann úr Laffer og nota í pólitískum áróðri enda sjálfsagt flestir áheyrenda sem leggja trúnað við það sem prófessor í Háskóla Íslands segir í erindi um jafn alvarlegt mál og hrun íslensks efnahags.
Litbrigði málefnalegrar umræðu eða einstefna og alhæfingar
Það er sök sér að tilhneiging prófessors í Háskóla Íslands til stjórnmálaáróðurs reki hann í ógöngur fjarri málefnalegri og fræðilegri umræðu. Það er öllu verra að Háskóli Íslands bjóði ekki upp á fjölbreyttari, uppbyggilegri og yfirvegaðari umgjörð en raun ber vitni.
Framtak HÍ um opna umræðufundi er lofsvert. Sumir fyrirlestrarnir voru góðir og gagnlegir og flestir áhugaverðir. Hjarðmenningin, einstefnan og gagnrýnisleysið má hins vegar ekki verða fræðasamfélaginu jafn skeinuhætt og tilfellið varð með íslenska fjármálakerfið. Ég hvet því rektor Háskóla Íslands og annað forystufólk íslenska fræðasamfélagsins til að gera betur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það skilja fæstir muninn á þessu tvennu...Það sem kallað hefur verið ný-íhaldsemi (neocon) og það sem á Íslandi er kallað nýfrjálshyggja. Það er svo ranglega kallað fjálshyggja.
Það eru samt mjög margir sem hafa tekið frjálshyggjuna út fyrir öll mörk og notað hana til að leysa félagsleg vandamál. Eða horfa á félagsleg vandamál eins og fjárhagsleg.
Það sem þú ert að benda á er alveg rétt..er einn af þeim sem er meðvitaður um þessar kenningar.
Eru þessar kenningar kenndar í háskólum á Íslandi ?
Mig grunar að svarið sé nei.
Vilhjálmur Árnason (IP-tala skráð) 9.5.2010 kl. 16:17
Takk fyrir pistillin.
Er fyllilega meðvitaður um það sem þú ert að benda á. Hef kynnt mér vel þessar kenningar.
Tók saman gögn úr seðlabanka sem sýna vandann vel.
http://this.is/villi/?page_id=691
Vilhjálmur Árnason (IP-tala skráð) 9.5.2010 kl. 16:34
Ég er hræddur um að þessar kenningar fái litla umfjöllun í HÍ. Raunar spurði ég hagfræðistúdenta - sem höfðu gefið sig á tal við mig eftir einn umræðufundanna - hvort þeir hefðu haft einhver kynni af austurríska hagfræðiskólanum í sínu námi. Svar þeirra var nei, þótt þeir hefðu heyrt eitthvað um hann rætt í námskeiði um stofnana-hagfræði.
Einhverjir stúdentar fá þó nasasjón af þessum þankagangi (t.d. Bastiat) við lestur Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlitt sem sumir stjórnmálafræðinemar komast í tæri við.
Sveinn Tryggvason, 9.5.2010 kl. 23:41
Sæll. Má ég birta þessa grein í eFréttum.is? Hafðu samband...
Gunnar Kristinn Þórðarson (IP-tala skráð) 10.5.2010 kl. 22:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.