Von til bjartsýni

Orð Gylfa Magnússonar á Alþingi í dag um að ekki megi láta það gerast aftur að bankar afli fjár í skjóli ríkisins voru óvænt ánægja miðað við fyrri yfirlýsingar ráðherrans og ríkisstjórnarinnar. Vekja orð ráðherrans von um að Ísland nái að vinna á rót vandans sem innbyggður er í nútíma fjármálakerfi og er hin eiginlega grunnorsök fjármálahrunsins hér heima og erlendis. Orðrétt sagði Gylfi:

Við getum ekki látið það líðast að fjármálafyrirtæki afli fjár í trausti þess að hið opinbera muni hlaupa undir bagga ef að menn tefla of djarft

Ennfremur sagði Gylfi:

Áhættan af rekstri fjármálafyrirtækja á fyrst og fremst að vera hjá eigendum fjármálafyrirtækja. Þeir mega vissulega njóta þess ef vel gengur, en þeir eiga líka að bera megnið af skellinum ef illa gengur

Ofangreind orð eru kærkomin tilbreyting frá margítrekaðri orðræðu sem því miður er algengt svar  margra stjórnmálamanna úr öllum flokkum um að nauðsynlegustu viðbrögð við bankahruninu séu að styrkja, auka og herða eftirlit með bönkum. Eins og ég hef áður bent á hafa tilraunir til að láta opinbert eftirlit koma í staðinn fyrir sjálfsprottið aðhald viðskiptavina fjármálafyrirtækja sýnt sig að vera algjörlega misheppnaðar. Árvekni hvers einstaks borgara og viðleitni til að gæta hagsmuna sinna er eina leiðin til að hreinsa út ósjálfbæra starfsemi.

Megin niðurstaða RNA

Við lestur skýrslu RNA um bankahrunið ætti flestum að vera ljóst að bankahrunið er fyrst og fremst því um að kenna að eigendur og stjórnendur bankanna gátu farið og fóru vægast sagt "glannalega" í lánveitingum til sjálf sín og annarra og beittu mjög "óvönduðum" aðferðum við að hylja raunverulega stöðu bankanna svo ekki sé fastar að orði kveðið þótt ærin ástæða sé til! Þetta er megin niðurstaða rannsóknarnefndarinnar og mjög brýnt að þau sakamál sem þurfa að fá sinn gang í réttarkerfinu geri það án tafar. 

Meira af því sem virkar ekki? Nei takk!

Skýrslan er einnig til vitnis um átakanlegt getuleysi FME til að rækja skyldur sínar og augljóst að stofnunin hafði enga burði til að fylgjast með hvað þegar hafði átt sér stað í bönkunum hvað þá að koma í veg fyrir hrunið. Eftirlitsstofnanir í Bandaríkjunum, Bretlandi eða annars staðar sem eru mörgum stærðargráðum stærri en FME höfðu heldur enga möguleika á því að koma í veg fyrir hrunið. Þetta ætti að vera að býsna sterk vísbending um að þetta fyrirkomulag virkar ekki. Þess utan ætti það að vera sjálfgefið að 'retróspektíft' eftirlit kemur ekki í veg fyrir að "rán" sé framið og getur í besta falli rannsakað ránsvettvang og þannig stuðlað að því að hægt sé að sækja gerendur til saka fyrir dómstólum.

Stærð gjaldeyrisvaraforðans - Hlutverk seðlabanka

Réttlætingin fyrir því að eftirlitið (FME) þurfi að vaxa í takt við bankakerfið er sú að ríkið þurfi að hlaupa undir bagga ef illa fer. Það sama á við um stærð gjaldeyrisvaraforðans. Hversu oft hafa landsmenn ekki heyrt að gjaldeyrisvaraforðinn hafi þurft að stækka af því að bankarnir voru orðnir svo stórir. Til hvers? Til að hægt sé að "bjarga" þeim - 'beila þá út'. Þarna liggur ein af grundvallar meinsemdum nútíma bankastarfsemi. Meinsemdin er alþjóðleg, hún er kerfislæg og hún er í raun bundin í lög. Eitt af lögbundnum hlutverkum Seðlabanka er að vera lánveitandi til þrautavara (Lender of last resort). Þessi beina og óbeina ríkisábyrgð sem fjármálafyrirtæki skýla sér við er ekki einungis réttlæting fyrir opinberu eftirliti heldur enn fremur fyrirkomulag sem eykur áhættusækni í bankakerfinu (moral hazard) og eykur í sjálfu sér líkur á fjármálalegum óstöðugleika og hruni.

Gripdeildarkapítalismi eða von um bjartari framtíð

Það ætti að vera augljóst að besta leiðin til að fá banka (og bankakerfi) til að hegða sér á skikkanlegan og «sjálfbæran» hátt sé að notast til virkni hins frjálsa markaðar þar sem þeir sparifjáreigendur og aðrir lánveitendur sem treysta óreiðumönnum fyrir fé sínu gera það á eigin reikning og risiko. Það er jafn augljóst að markaðurinn myndi fljótt og örugglega hreinsa út þá banka sem ekki eru traustsins verðir. Í raun má segja að bankahrunið á Íslandi (og í raun mun víðar) sé slík hreinsun - en því miður er skattfé (og peningaprentun með tilheyrandi verðbólgu) notað til að tryggja að sama ónýta kerfið - sem gerir óreiðumönnum kleift að stunda "gripdeildarkapítalisma" - heldur velli enn um sinn. Maður getur þó vonað að orð viðskiptaráðherra á Alþingi í dag séu fyrirheit um breytta og betri tíma í þessum efnum.

Ulfarsfell Reykjavik


mbl.is Aldrei aftur „too big to fail“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skynsamlegt og rétt og vonandi þetta rætist.

Tryggvi Gíslason (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband