Færsluflokkur: Menntun og skóli
4.4.2008 | 01:04
Jóker og 'Usual Suspect' í Frelsisverðlaunum SUS
Frelsisverðlaun SUS sem kennd eru við Kjartan Gunnarsson voru afhent í annað sinn í dag í Valhöll. Líkt og í fyrra voru verðlaunin veitt tveimur aðilum. Annars vegar Viðskiptaráði Íslands - og tók Erlendur Hjaltason við verðlaununum f.h þess - og hins vegar Margréti Pálu Ólafsdóttur, stofnanda og framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar.
Þannig má segja að SUS hafi endurtekð leikinn frá í fyrra með að blanda saman "usual suspect" og "jóker" í vali sínu.
Í fyrra var það Andríki - en óhætt er að mæla með Vef-Þjóðvilja Andríkis sem daglegu lestrarefni fyrir þá sem halda pólitískri geðheilsu - og Andri Snær Magnason sem urðu fyrir valinu. Andríki hefur um árabil verið ein helsta stoð unnenda frelsis og takmarkaðra ríkisafskipta og því tilvalinn kandídat á meðan valið á Andra Snæ kom mörgum á óvart þar sem hann hefur ekki síst sett mark sitt á þjóðfélagsumræðu með skrifum sínum um stjóriðju og virkjunarframkvæmdir og m.a. gagnrýnt Sjálfstæðisflokkin fyrir afstöðu sína og aðgerðir í þeim efnum. Fyrir þá sem hafa lesið Draumalandið eða hlustað á erindi Andra Snæs um hvað Frónbúar geti tekið sér fyrir hendur annað en álbúskap kom tilnefningin til Frelsisverðlaunana e.t.v. ekki á óvart þar sem megininntakið í boðskap Andra Snæs á góða samleið með sjónarmiðum frjálshyggjumanna.
Í ár leikur SUS svipaðan leik. Velur Viðskiptaráð sem unnið hefur ötullega að auknu frjálsræði í viðskiptum á Íslandi í yfir 90 ár og er því vel að verðlaununum komið og Margréti Pálu sem nokkurskonar "jóker". Margrét Pála lýsti því sjálf í skemmtilegri ræðu sinni í Valhöll að fyrir um 20 árum hefði hún ekki beinlýnis átt von á því að standa í þessum sporum: hún sem 'gamall kommi' að taka á móti frelsisverðlaunum í Valhöll!
Það er ljóst að Margrét Pála á Frelsisverðlaunin fyllilega skilið enda hefur henni með frjálsu framtaki tekist að berjast fyrir öðruvísi valkosti í leikskóla og skólastarfi þrátt fyrir mótbyr frá embættismönnum og reglubákni. Þarmeð hefur hún sýnt í verki að ríkið þurfi ekki að vera upphafið og endirinn í skólastarfi og uppeldismálum (ekki fremur en öðrum þáttum samfélagsins).
Uppeldi barna er nefnilega fyrst og fremst á ábyrgð foreldra og forráðamanna. Vænlegra væri að leyfa stofnanavæðingu að eiga sinn stað í skáldsögum á borð við "Brave New World" sem víti til varnaðar.
Margrét Pála og Viðskiptaráð hljóta frelsisverðlaun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 01:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)