Súpan er vond, má ég fá meira – Til varnar frjálshyggju

One of the methods used by statists to destroy capitalism consists in establishing controls that tie a given industry hand and foot, making it unable to solve its problems, then declaring that freedom has failed and stronger controls are necessary.

- Ayn Rand, The Voice of Reason, 1975

Í kjölfar hruns íslensku bankanna hafa margir lýst þeirri skoðun sinni að frjálshyggjan (e. Libertarianism eða Classical Liberalism) sé orsök hrunsins. Stundum hefur reyndar þessi vafasami heiður verið ætlaður svokallaðri nýfrjálshyggju (e. Neoliberalism), eins og sumir andstæðingar frjálshyggju nefna hana.

(Ekki verður hér gerð tilraun til að útskýra blæbrigðamun á mismunandi afbrigðum þess sem kalla má frjálshyggju.)

Oft hefur þessari staðhæfingu verið haldið fram án rökstuðnings. Þegar talsmenn þessa sjónarmiðs hafa gert tilraun til að rökstyðja staðhæfinguna hefur það gjarnan verið gert með vísan í aðstæður sem frjálshyggjumenn hafa barist gegn svo áratugum skiptir (t.a.m. útþenslu bankakerfisins í skjóli ríkisábyrgða, hlutverk seðlabanka, einokun á seðlaprentunarvaldi, miðstýrð peningastjórnunarkerfi, ógagn innlánstrygginga o.fl).

Einnig heyrast “röksemdir” um að íslenskir útrásarvíkingar hafi farið of hratt í skuldsettar yfirtökur eða með öðrum hætti tekið of mikla áhættu. Þetta eru vitanlega ekki rök gegn frjálshyggju enda ætti öllum að vera frjálst að taka áhættu svo lengi sem ekki sé verið að spila með fé eða hagsmuni annarra án samþykkis þeirra.

Flóðbylgja lánsfjármagns skellur að ströndum Íslands

Einn veigamesti þátturinn í myndun þeirrar eignabólu sem óumflýjanlega sprakk og olli fjármálahruninu var sú ríkisábyrgð sem bankar njóta beint og óbeint.

Ríkisábyrgðin krystallast m.a. í því að við mat á lánshæfi banka er tekið tillit til þess hve miklar líkur séu á því að ríkið hlaupi undir bagga ef banki geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Í tilfelli stóru íslensku bankanna gerðu s.k. matsfyrirtæki ráð fyrir því að nær 100% líkur væru á því að ríkið, sem fyrir hrun var nær skuldlaust, myndi koma bönkunum til bjargar ef illa færi. Fyrir vikið “erfðu” bankarnir gott lánshæfismat frá íslenska ríkinu og höfðu þannig aðgang að ómældu lánsfé enda stóðu erlendir bankar og aðrir lánveitendur í röðum fyrir utan íslensku bankana til þess að fá að lána þeim.

Ekki þurftu lánveitendur að hafa fyrir því að ganga úr skugga um að íslensku bankarnir notuðu lánsféð áfram til verkefna sem gætu staðið undir skuldunum. Slíkar gaumgæfisathuganir sem eru eðlilegur og nauðsynlegar hluti af samkomulagi lánveitanda og lántakanda undir “eðlilegum” kringumstæðum, voru óþarfar þar sem ríkisábyrgð var á skuldbindingum bankanna. Að sama skapi voru innlán bankanna tryggð upp að vissu marki með ríkið sem bakhjarl – einnig innlán í erlendum útibúum íslensku bankanna.

Í skjóli þessarar (óbeinu) ríkisábyrgðar höfðu bankarnir, sem höfðu nýlega verið einkavæddir, gríðarlegt aðgengi að lánsfé sem bankarnir lánuðu áfram til ýmissa verkefna og var vöxtur íslensku bankanna þvílíkur að það vakti eftirtekt, forundran og öfund víða um heim og skiluðu bankarnir jafnframt miklum hagnaði um nokkurra ára skeið. Áhættan af þessum vexti lá hins vegar að verulegu leyti hjá ríkinu eins og hér hefur verið rakið (og hægt er að lesa um í ágætri grein Gunnlaugs Jónssonar í nýjasta hefti Þjóðmála). Það er því ekki að ósekju að sagt sé að hagnaður bankanna hafi verið einkavæddur en skuldirnar þjóðnýttar!

Hins vegar er fráleitt að halda því fram að það þessar aðstæður sem gerðu bönkum kleift að vaxa í skjóli ríkisábyrgðar hafi verið samkvæmt forskrift frjálshyggjunnar eða frjálshyggjumanna.

Grundvallar kennisetningar frjálshyggjunnar um lágmarksríki, einstaklingsfrelsi og peningastjórnun (til dæmis Ludwig von Mises um tilurð peninga á markaði; Friedrich A. Hayek og annarra af austurríska skólanum), heimspeki Ayn Rand, varnaðarorð Peter Schiff, eða stjórnmálaskoðanir Ron Paul (USA) og Daniel Hannan (UK) er allt vitnisburður um að frjálshyggjumenn eða frjálshyggjan sé ekki það afl sem skóp ofangreindar aðstæður fyrir ofvöxt banka í skjóli ríkisins.

NINJA lán

Ekki var það heldur frjálshyggjan sem bjó að baki þess að farið var að veita 90% og 100% lán (og jafnvel 115% lán) til kaupa á íbúðarhúsnæði til fólks sem átti enga möguleika á að greiða af lánunum. Hér heima voru það Framsóknarmenn sem sóttu málið hvað harðast og fengu í gegn með fulltingi Sjálfstæðisflokksins sem því miður hefur í mörgum veigamiklum málum vikið frá frjálshyggjustefnu. Þessu feilspori var almennt fagnað af vinstrivængnum en gagnrýnt af frjálshyggjumönnum.

Í Bandaríkjunum voru það einkum demókratar sem sendu Fannie Mae og Freddie Mac út af örkinni til að ná fram pólitískum markmiðum sínum um að fleiri þyrftu að búa í eigin húsnæði. Þótt enn sjái ekki fyrir endann á þeim hörmungum eru flestir sammála um að undirmálslán Fannie og Freddie hafi verið örlagavaldur að því hvernig komið er fyrir efnahagskerfi heimsins.

Ekki þarf að fjölyrða um hve oft frjálshyggjumenn hafa gagnrýnt þetta lánakerfi, NINJA lánin sem urðu til í því kerfi eða hvernig ósjálfbær vaxtabóla fjármála og fasteignahringrásarinnar (sjá FIRE economy) skaðar hefðbundna framleiðslu.

Röng sjúkdómsgreining – röng lyfjagjöf

Það er ekki einungis rangt að frjálshyggjan sé meginorsök efnahagshrunsins á Íslandi eða annarsstaðar heldur er sú ranga sjúkdómsgreining beinlínis hættuleg sjúklingnum – efnahagskerfi landsins/heimsins – þar sem röng lyfjagjöf er þegar hafin. Lyfjagjöf sem samanstendur sama eitri og olli ógleðinni til að byrja með.

Ég hef áður vitnað í orð rithöfundarins Ayn Rand, sem sagði:

A free economy will not break down. All depressions are caused by government interference. And the cure is always offered, so far, to take more of the poisons that caused the disaster.

Stjórnvöld víðast hvar virðast haldin innbyggðri meinloku fyrir því að orsök efnahagshrunsins felst í því hvernig hagsmunum almennings, ríkis, einstaklinga og fyrirtækja er hrært saman í óleysanlegan hnykil þar sem ábyrgð eins flækist í áhættu annars. Í viðleitni sinni til að ná utan um ómöguleikann eru settar reglur og eftirlit sem sligar, dregur úr frumkvæði, byrgir sýn og skerðir frelsi allra til að leita hamingjunnar.

Í stað þess að draga úr og einfalda umsvif og ábyrgð ríkis og skattgreiðenda á því sem fram fer í samfélagi manna er því haldið fram að eftirlitið hafi brugðist og því þurfi meira eftirlit! Reglum hafi ekki verið fylgt og þess vegna þurfi fleiri reglur. Jafnvel eru menn þessa dagana að berjast við afleiðingar of mikillar lántöku og umframeyðslu með enn meiri lántöku og eyðslu.

Læknisfræðin komst fljótlega að því að heróín var ekki heppilegt lyf gegn morfín-fíkn. Skyldi blásýra vera góð við blásýrueitrun? Eða aukin skuldsetning gagnlegt meðal gegn of miklum skuldum?

Ekki-frjálshyggjumenn allra landa hafa sameinast um þá rökleysu að frjálshyggjan sé rót vandans . Súpan er vond og það er beðið um ábót – og hana munum við fá svo lengi sem við veljum stjórnlyndi fram yfir frjálslyndi.

Gleðilegt sumar!

Hér að neðan er þriggja mínútna löng ræða Daniel Hannan yfir Gordon Brown um hvernig sá síðarnefndi hefur kafsiglt bresku þjóðarskútunni.


mbl.is Stjórnin heldur enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vel skrifuð grein, Sveinn, skýr og málefnaleg og byggir á mikilli þekkingu og umhugsun. Hins vegar er hún á köflum of fræðileg fyrir okkur alþýðu manna. Sjálfur tel ég að fenginni reynslu síðustu 50 ára, að "frjáls" markaður, sem frjálshyggjan trúir að leyst geti allan vanda, sé ófær um það - hvað sem öllum kenningum líður - vegna þess að mannlegt eðli er samt við sig og vegna þess að það er maðurinn - með sínu mannlega eðli - sem er leikarinn á leiksviði markaðarins.

Af þeim sökum verður að setja leikurunum skýrar en fáar reglur um leikinn, sem leika skal, og af þeim sökum getur markaðurinn aldrei orðið "frjáls", enda á markaðurinn, atvinnulífið og viðskipti heimsins, ekki að þjóna sjálfum sér - og vera "frjáls" á þann hátt, heldur á markaðurinn að þjóna fólkinu, eins og Adam Smith sagði - og því getur markaðurinn alderi orðið "frjáls".

Þetta segjum við sósílalistar. En við sósílaistar og þið frjálshyggjumenn verðum að geta talað saman, skipst á skoðunum. Við þig er auðvelt að skiptast á skoðunum, þótt við verðum e.t.v. aldrei sammála um allt, enda er það þannig í lífinu, að ef aðeins er til ein skoðun, er það hættuleg skoðun.

Tryggvi Gíslason (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 18:16

2 Smámynd: Sveinn Tryggvason

Takk fyrir það, Pápi. Þú hljómar nú ekki eins og sósíalisti, vitnandi í Adam Smith :) Ég er líka sammála þér að það þurfi fáar og skýrar reglur enda ljóst að breyskleiki mannanna (stundum kallað græðgi, gredda og heimska, fyrir 'ykkur alþýðu manna')  verður oft til þess að menn ganga á frelsi náungans - sem hvorki samræmist kristinni trú eða frjálshyggju.

Því miður eru reglurnar í dag hvorki fáar né skýrar.

Sveinn Tryggvason, 24.4.2009 kl. 23:03

3 identicon

Þetta eru fínar pælingar Sveinn og þú hefur greinilega legið yfir þessu (þú ættir að gefa þér tíma til að horfa á eina og eina kúraekamynd inn á milli). Mér dettur samt í hug eitthvað sem Lúlli sagði á sínum tíma í einhverju rifrildi í Möðruvallakjallara um sósíalismann "Þetta er afskaplega fallegt á prenti en þetta gengur bara ekki upp". En mín tilfinning varðandi vöxt og fall bankanna hér heima er líka eftirfarandi: Sennilegast skorti ekki regluverkið og umgjörðina í kringum bankana (nema síður sé) og þannig séð er ekki hægt að kenna frjálshyggju um. Hinsvegar sátu þeir aðgerðalitlir hjá sem beita áttu tiltækum ráðum til eftirlits og aðhalds, mótaðir af frjálshyggjuhugmyndum sem samræmdust svo ekki því umhverfi sem bankarnir störfuðu í. Þeir sem mesta ábyrgð bera svo á falli bankanna stjórnuðust svo af græðgi og hún er því miður innbyggð í mannlegt eðli, óháð öllum -ismum.

Gauti Einarsson (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 10:19

4 Smámynd: Sveinn Tryggvason

Takk fyrir það, Gauti. Margir munu eflaust áfram stjórnast af græðgi - þrátt fyrir að vera örugg leið til glötunar. Ekki veit ég hvað mótaði þá sem sátu í eftirlitslutverki - kannski þeir hafi ekki horft á nógu margar Roy Rogers myndir :)

Hitt veit ég: á meðan greining ráðamanna á orsökum hrunsins er svona fjarri lagi munu ætlaðar úrbætur ekki standa undir nafni. Til dæmis mun fyrirhuguð aukin skattlagning vinstrimanna færa peninga milli staða en ekki skapa nein verðmæti - hvort sem hún er gerð í nafni félagslegs réttlætis eða til tekjuöflunar fyrir ríkið. Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti.

Sveinn Tryggvason, 27.4.2009 kl. 00:24

5 Smámynd: Konráð Jónsson

Góður pistill. Ég má til með að benda á viðtal Egils Helgasonar við Gunnlaug Jónsson í Silfri Egils um daginn þar sem svipaðir punktar komu fram.

http://www.youtube.com/watch?v=MBHETjZGr2Y

Konráð Jónsson, 27.4.2009 kl. 12:49

6 Smámynd: Sveinn Tryggvason

Já, Konráð - viðtalið í Silfrinu við Gunnlaug Jónsson var kærkomið og góð tilbreyting við það sem vanalega er borið á borð á þeim bæ. Gunnlaugur lýsir hlutunum "eftirá" eins og ég geri í mínum pistli. Það er auðvitað enn trúverðugra að hlusta á viðtöl sem tekin voru fyrir hrun - eins og þetta hér við Peter Schiff, en hann er einarður fylgismaður austuríska hagfræðiskólans.

Mises Economics Blog tók fyrir réttu ári síðan þetta viðtal við Peter Schiff þar sem hann segir um áhuga sinn á "austuríska hagfræðiskólanum":

I was introduced to the Austrian school early on by my father. According to my dad saying Austrian economics makes as much sense as saying Chinese physics. Austrian economics is economics, period!

Sveinn Tryggvason, 27.4.2009 kl. 17:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband