Bann við bílaeign myndi fækka bílslysum

Þegar fólk borðar drasl breytist það í drasl. Þú ert það sem þú borðar, var kjörorðið hér heima. Þjóðverjar voru með flottara hljómfall í sínu, Man ist was man ißt. (Ég er t.d. núna um það bil að breytast í ristað brauð með osti og te, sem vonandi hjálpar mér að ná röddinni aftur).

Ég man eftir því fyrir nokkrum árum þegar trampolín voru það allra heitasta að því var slegið upp sem frétt í dagblöðum að s.k. trampolín-slysum hefði fjölgað um svo-og-svo mörg prósent frá árinu áður! Þori að veðja að flugslysum hafi fjölgað mjög mikið þegar flug hófst og að badminton meiðslum hafi fjölgað við það að fólk hóf að spila badminton. Hér að neðan eru sex sekúndur af badmintonmeiðslum fyrir þá sem vilja vita hvernig þau geti litið út.

Ég er ekki frá því að hægt væri að búa til faglega sérfræðiskýrslu um að bann við bílaeign og bílaumferð myndi fækka bílslysum. Einhverjum þætti það líka fréttnæmt.


mbl.is Skyndibitaauglýsingar ýta undir offitu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Tryggvason

Góð viðbótarrök í upphafi, kæri bróðir, en slæmar og rangar samlíkingar um bíla o.fl. - út frá einföldu mati á hagsmunum sem verja á eða fórna (e cost / benefit analysis); bílar eru afar mikilvæg og skilvirk tæki en stórhættuleg - því er sett meiri ábyrgð á eigendur þeirra og umráðamenn en ýmsa aðra, sbr. nánar hér; enginn hefur lagt til að þeir verði bannaðir.

Hér er meira að segja ekki verið að tala um að banna skyndibita - sem eru að sumra mati til ýmissa hluta nytsamlegir - heldur skyndibitaauglýsingar; hverju er fórnað þar? Fjárhagslega hagsmuni sem vega vart meira en heilsufar barna.

Dæmi þitt um trampolín er betra því ánægjan og áhættan er eitthvað sem hægt er að vega og meta - og það er hlutverk foreldra sjálfra. Almannavaldið þarf hins vegar að ákveða hvort takmarka eða banna eigi skyndibitaauglýsingar - og er að því, sbr. nánar hér með nánari tilvísunum í samstarfi okkar umboðsmanns barna við að auka neytendavernd barna.

Gísli Tryggvason, 20.11.2008 kl. 22:05

2 Smámynd: Sveinn Tryggvason

Við getum þó verið sammála um að heilsufar (barna) okkar er mikilvægt. Munurinn er sá að ég tel ekki að Almannavaldið (best að skrifa það með stórum staf) þurfi að ákveða hvort banna skuli hinar og þessar auglýsingar. Ég held að það sé beinlínis skaðlegt að taka völdin þannig af fólki.

Margir eru þegar fanir að bera það fyrir sig að hið opinbera (skólar, dagheimili, félagsþjónusta, heilbrigðiskerfi etc.) hafi brugðist fyrst börn eru orðin feit, dónaleg, ólæs, hugmyndasnauð eða hvað það nú er sem fólk telur að ami að. Uppeldi barna er fyrst og fremst á ábyrgð foreldra og forráðamanna og hið opinbera á ekki að grípa inn nema í undantekningartilfellum. Því miður er hið opinbera svo upptekið við að skipta sér af málum eins og auglýsingabanni á frönskum kartöflum að bráðaúrræði eins og BUGL mæta afgangi. Það er eitthvað borgið við það, stóri bróðir (svo ég segi nú ekki Stóri Bróðir) :).

Við nálgumst því miður "kerfi" a'la Brave New World þar sem stofnanir hins opinbera sjá um fólk frá vöggu til grafar.

Sveinn Tryggvason, 21.11.2008 kl. 16:52

3 Smámynd: Gísli Tryggvason

Sammála "fyrst og fremst" en óssamála að í þessum stuðningi við uppeldishlutverkið felist inngrip gagnvart foreldrum - aðeins gagnvart fyrirtækjum. Ekki má gleyma því að ekki hafa allir foreldrar jafn góðar aðstæður til að sinna þessu hlutverki.

Kær kveðja, Big Brother (is watching you).

Gísli Tryggvason, 22.11.2008 kl. 00:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband