Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Súpan er vond, má ég fá meira – Til varnar frjálshyggju

One of the methods used by statists to destroy capitalism consists in establishing controls that tie a given industry hand and foot, making it unable to solve its problems, then declaring that freedom has failed and stronger controls are necessary.

- Ayn Rand, The Voice of Reason, 1975

Í kjölfar hruns íslensku bankanna hafa margir lýst þeirri skoðun sinni að frjálshyggjan (e. Libertarianism eða Classical Liberalism) sé orsök hrunsins. Stundum hefur reyndar þessi vafasami heiður verið ætlaður svokallaðri nýfrjálshyggju (e. Neoliberalism), eins og sumir andstæðingar frjálshyggju nefna hana.

(Ekki verður hér gerð tilraun til að útskýra blæbrigðamun á mismunandi afbrigðum þess sem kalla má frjálshyggju.)

Oft hefur þessari staðhæfingu verið haldið fram án rökstuðnings. Þegar talsmenn þessa sjónarmiðs hafa gert tilraun til að rökstyðja staðhæfinguna hefur það gjarnan verið gert með vísan í aðstæður sem frjálshyggjumenn hafa barist gegn svo áratugum skiptir (t.a.m. útþenslu bankakerfisins í skjóli ríkisábyrgða, hlutverk seðlabanka, einokun á seðlaprentunarvaldi, miðstýrð peningastjórnunarkerfi, ógagn innlánstrygginga o.fl).

Einnig heyrast “röksemdir” um að íslenskir útrásarvíkingar hafi farið of hratt í skuldsettar yfirtökur eða með öðrum hætti tekið of mikla áhættu. Þetta eru vitanlega ekki rök gegn frjálshyggju enda ætti öllum að vera frjálst að taka áhættu svo lengi sem ekki sé verið að spila með fé eða hagsmuni annarra án samþykkis þeirra.

Flóðbylgja lánsfjármagns skellur að ströndum Íslands

Einn veigamesti þátturinn í myndun þeirrar eignabólu sem óumflýjanlega sprakk og olli fjármálahruninu var sú ríkisábyrgð sem bankar njóta beint og óbeint.

Ríkisábyrgðin krystallast m.a. í því að við mat á lánshæfi banka er tekið tillit til þess hve miklar líkur séu á því að ríkið hlaupi undir bagga ef banki geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Í tilfelli stóru íslensku bankanna gerðu s.k. matsfyrirtæki ráð fyrir því að nær 100% líkur væru á því að ríkið, sem fyrir hrun var nær skuldlaust, myndi koma bönkunum til bjargar ef illa færi. Fyrir vikið “erfðu” bankarnir gott lánshæfismat frá íslenska ríkinu og höfðu þannig aðgang að ómældu lánsfé enda stóðu erlendir bankar og aðrir lánveitendur í röðum fyrir utan íslensku bankana til þess að fá að lána þeim.

Ekki þurftu lánveitendur að hafa fyrir því að ganga úr skugga um að íslensku bankarnir notuðu lánsféð áfram til verkefna sem gætu staðið undir skuldunum. Slíkar gaumgæfisathuganir sem eru eðlilegur og nauðsynlegar hluti af samkomulagi lánveitanda og lántakanda undir “eðlilegum” kringumstæðum, voru óþarfar þar sem ríkisábyrgð var á skuldbindingum bankanna. Að sama skapi voru innlán bankanna tryggð upp að vissu marki með ríkið sem bakhjarl – einnig innlán í erlendum útibúum íslensku bankanna.

Í skjóli þessarar (óbeinu) ríkisábyrgðar höfðu bankarnir, sem höfðu nýlega verið einkavæddir, gríðarlegt aðgengi að lánsfé sem bankarnir lánuðu áfram til ýmissa verkefna og var vöxtur íslensku bankanna þvílíkur að það vakti eftirtekt, forundran og öfund víða um heim og skiluðu bankarnir jafnframt miklum hagnaði um nokkurra ára skeið. Áhættan af þessum vexti lá hins vegar að verulegu leyti hjá ríkinu eins og hér hefur verið rakið (og hægt er að lesa um í ágætri grein Gunnlaugs Jónssonar í nýjasta hefti Þjóðmála). Það er því ekki að ósekju að sagt sé að hagnaður bankanna hafi verið einkavæddur en skuldirnar þjóðnýttar!

Hins vegar er fráleitt að halda því fram að það þessar aðstæður sem gerðu bönkum kleift að vaxa í skjóli ríkisábyrgðar hafi verið samkvæmt forskrift frjálshyggjunnar eða frjálshyggjumanna.

Grundvallar kennisetningar frjálshyggjunnar um lágmarksríki, einstaklingsfrelsi og peningastjórnun (til dæmis Ludwig von Mises um tilurð peninga á markaði; Friedrich A. Hayek og annarra af austurríska skólanum), heimspeki Ayn Rand, varnaðarorð Peter Schiff, eða stjórnmálaskoðanir Ron Paul (USA) og Daniel Hannan (UK) er allt vitnisburður um að frjálshyggjumenn eða frjálshyggjan sé ekki það afl sem skóp ofangreindar aðstæður fyrir ofvöxt banka í skjóli ríkisins.

NINJA lán

Ekki var það heldur frjálshyggjan sem bjó að baki þess að farið var að veita 90% og 100% lán (og jafnvel 115% lán) til kaupa á íbúðarhúsnæði til fólks sem átti enga möguleika á að greiða af lánunum. Hér heima voru það Framsóknarmenn sem sóttu málið hvað harðast og fengu í gegn með fulltingi Sjálfstæðisflokksins sem því miður hefur í mörgum veigamiklum málum vikið frá frjálshyggjustefnu. Þessu feilspori var almennt fagnað af vinstrivængnum en gagnrýnt af frjálshyggjumönnum.

Í Bandaríkjunum voru það einkum demókratar sem sendu Fannie Mae og Freddie Mac út af örkinni til að ná fram pólitískum markmiðum sínum um að fleiri þyrftu að búa í eigin húsnæði. Þótt enn sjái ekki fyrir endann á þeim hörmungum eru flestir sammála um að undirmálslán Fannie og Freddie hafi verið örlagavaldur að því hvernig komið er fyrir efnahagskerfi heimsins.

Ekki þarf að fjölyrða um hve oft frjálshyggjumenn hafa gagnrýnt þetta lánakerfi, NINJA lánin sem urðu til í því kerfi eða hvernig ósjálfbær vaxtabóla fjármála og fasteignahringrásarinnar (sjá FIRE economy) skaðar hefðbundna framleiðslu.

Röng sjúkdómsgreining – röng lyfjagjöf

Það er ekki einungis rangt að frjálshyggjan sé meginorsök efnahagshrunsins á Íslandi eða annarsstaðar heldur er sú ranga sjúkdómsgreining beinlínis hættuleg sjúklingnum – efnahagskerfi landsins/heimsins – þar sem röng lyfjagjöf er þegar hafin. Lyfjagjöf sem samanstendur sama eitri og olli ógleðinni til að byrja með.

Ég hef áður vitnað í orð rithöfundarins Ayn Rand, sem sagði:

A free economy will not break down. All depressions are caused by government interference. And the cure is always offered, so far, to take more of the poisons that caused the disaster.

Stjórnvöld víðast hvar virðast haldin innbyggðri meinloku fyrir því að orsök efnahagshrunsins felst í því hvernig hagsmunum almennings, ríkis, einstaklinga og fyrirtækja er hrært saman í óleysanlegan hnykil þar sem ábyrgð eins flækist í áhættu annars. Í viðleitni sinni til að ná utan um ómöguleikann eru settar reglur og eftirlit sem sligar, dregur úr frumkvæði, byrgir sýn og skerðir frelsi allra til að leita hamingjunnar.

Í stað þess að draga úr og einfalda umsvif og ábyrgð ríkis og skattgreiðenda á því sem fram fer í samfélagi manna er því haldið fram að eftirlitið hafi brugðist og því þurfi meira eftirlit! Reglum hafi ekki verið fylgt og þess vegna þurfi fleiri reglur. Jafnvel eru menn þessa dagana að berjast við afleiðingar of mikillar lántöku og umframeyðslu með enn meiri lántöku og eyðslu.

Læknisfræðin komst fljótlega að því að heróín var ekki heppilegt lyf gegn morfín-fíkn. Skyldi blásýra vera góð við blásýrueitrun? Eða aukin skuldsetning gagnlegt meðal gegn of miklum skuldum?

Ekki-frjálshyggjumenn allra landa hafa sameinast um þá rökleysu að frjálshyggjan sé rót vandans . Súpan er vond og það er beðið um ábót – og hana munum við fá svo lengi sem við veljum stjórnlyndi fram yfir frjálslyndi.

Gleðilegt sumar!

Hér að neðan er þriggja mínútna löng ræða Daniel Hannan yfir Gordon Brown um hvernig sá síðarnefndi hefur kafsiglt bresku þjóðarskútunni.


mbl.is Stjórnin heldur enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klúður í uppsiglingu vegna vanhæfi Evu Joly? Egill Helgason kann ekki að meta svoleiðis vangaveltur.

greinBrynjarsNielsonarÞrátt fyrir stóryrði einstaka frambjóðenda í aðdraganda Alþingiskosninga um hvernig sækja skuli ákveðinn hóp manna til saka vegna fjármálahrunsins geri ég mér nokkrar vonir um að réttarríkið muni þrátt fyrir allt lifa af eftir kosningar. Ef menn vilja ekki að væntanleg málaferli gegn einstaklingum sem taldir eru bera ábyrgð á hruninu (og hafi jafnvel gerst sekir um glæpsamlegt athæfi) fari út um þúfur er mikilsvert að embætti sérstaks saksóknara og aðrir sem sækja og rannsaka þessi mál vandi sig þannig að málin eyðileggist ekki af tæknilegum ástæðum - eins og t.a.m. vegna vanhæfis rannsóknaraðila. Fyrir mitt leyti vonast ég til þess að þessi mál verði rannsökuð almennilega og að þeir sem gerst hafa sekir um lögbrot verði sóttir til saka.

Hún var því kærkomin frétt Sigríðar Mogensen á Stöð 2 í gærkvöldi ( einnig á visir.is) þar sem vakin er athygli á athugasemdum Brynjars Nielssonar, hæstaréttarlögmanns, sem hann viðraði í grein í Morgunblaðinu í gær vegna ráðningar norsk/franska rannsóknardómarans Evu Joly þar sem hæstaréttarlögmaðurinn færir ágæt rök fyrir því að vegna fyrri ummæla sinna um stjórnendur bankanna sé Eva Joly vanhæf til að koma að rannsókn mála. Ennfremur geti aðkoma hennar hreinlega gert það að verkum að saksókn ónýtist.

Í grein sinn segir Brynjar:

Í kjölfar bankahrunsins virðist sem flestum þyki eðlilegt að lýsa því yfir opinberlega að stjórnendur fjármálafyrirtækja og svokallaðir auðmenn séu glæpamenn og landráðamenn í senn. Jafnframt er þess krafist að þeir verði lokaðir inni og eignir þeirra frystar. Þegar hlustað er á slíkan málflutning stjórnmálamanna og fjölmiðlamanna, sem þó gjarnan telja sig sérstaka málsvara lýðræðis og mannréttinda, er ástæða til að óttast um örlög réttarríkisins. Og ekki minnkar óttinn, þegar þeir sem fara með rannsókn og saksókn taka undir slíkan málflutning. Saksóknarvald er vandmeðfarið og umgengst ekki að hentugleikum.

Brynjar vitnar síðar í ummæli sem höfð eru eftir Evu Joly m.a. þess efnis að hún sé þess fullviss að stjórnendur bankanna hafi gerst brotlegir við lög. Um þetta segir Brynjar:

Með yfirlýsingum af þessu tagi er brotið gegn hlutlægnisreglu rannsakanda og ákæruvalds samkvæmt framangreindum ákvæðum laga um rannsókn sakamála. Það er sennilega einsdæmi í réttarsögu þessa lands, að minnsta kosti í seinni tíð, að þeir komi að rannsókn sakamála, sem lýst hafa yfir sekt þeirra sem rannsaka skal. Þessi fyrrverandi rannsóknardómari frá Frakklandi er því fullkomlega vanhæfur til að koma að rannsókn sérstaks saksóknara. Ráðningin getur hugsanlega valdið því að rannsókn og möguleg saksókn ónýtist, þar sem sakborningar hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð.

Einhverra hluta vegna ræðst Egill Helgason, sem átti stóran þátt í því að fá Evu Joly til landsins, harkalega að hæstaréttarlögmanninum fyrir greinarskrif sín. Egill kallar rök Brynjars "fjarstæðukenndar fullyrðingar" og segist eiginlega ekki hafa heyrt aðra eins vitleysu og lýkur bloggfærslu sinni á fremur ómálefnalegri tilraun til að rýra trúverðugleika hæstaréttarlögmannsins. 

Nú skal ég ekki leggja dóm á það hvort Eva Joly er vanhæf eður ei vegna einhverra ummæla sem hún kann að hafa látið falla í viðtölum fyrir eða eftir að hún var ráðin. Ábending Brynjars Níelssonar, hæstaréttarlögmanns, tel ég hins vegar bæði velviljaða og ágætlega rökstudda á meðan árás Egils Helgasonar á Brynjar vegna skrifanna er undarleg í meira lagi. 

Maður getur ekki annað en vonað að dómsmálaráðherra og aðrir þeir sem bera ábyrgð á því að þessum málum verði fylgt eftir á forsendum réttarríkisins hlusti á athugsemdir sem þessar og geri ráðstafanir til að afstýra því klúðri sem hugsanlega er í uppsiglingu.


mbl.is VG í sókn - Samfylking stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Baulað í bómull - bullað í hring

GAndri BaularMeð blíðuhótum byrjar Guðmundur Andri Thorsson pistil sinn, "Baulað úr bómull", sem birtist í Fréttablaðinu mánudaginn 30. mars. Lýsir hann ánægju með að geta horft á danskar og norskar sjónvarpsstöðvar sem endurvarpað er í gegnum Sjónvarp Símans. En þar með er fagurgalinn rokinn og við tekur fremur undarleg lesning sem fer nokkuð fyrir brjóstið á mér sem starfsmanni Símans. 

Nú er það ekki óalgengt í þjóðmálaumræðunni hér á Íslandi að staðreyndir og málefnaleg umræða verði að víkja fyrir ósannindum, hálfsannnleik og  áróðri. Nú er mjög hægur leikur að benda á þær fjölmörgu staðreyndavillur sem Guðmundur Andri ber á borð í grein sinni í Fréttablaðinu - enda verður það gert hér að neðan.

Erfiðara er að gera sér í hugarlund hvað það er sem knýr Guðmund Andra til þess að flytja áróður sinn gegn Símanum og SkjáEinum. Ef Guðmundur Andri Thorsson væri ekki nýbúinn að sverja af sér fylgispekt við Baug gæti maður freistast til að álykta sem svo að þarna væri enn ein birtingarmynd þess hvernig Baugsmiðlum sé beitt gegn samkeppnisaðilum samstæðunnar eða öðrum þeim sem eigendur þeirra telja ástæðu til að beina spjótum sínum að. En hvað er það þá sem fær höfundinn til að drepa niður penna?

Varla vakir fyrir höfundi að upplýsa lesendur um Símann eða eðli fjarskiptamarkaðarins þar sem greinin ber það með sér að þekking höfundar á þeim málum sé ekki mikil. Fyrir utan rangfærslur Guðmundar Andra í bland við ranghugmyndir og sérkennilegar tuggur á borð við að Síminn sé "eitt af þessum Flokksfyrirtækjum Davíðstímans" er greinin lítið annað en lýsing höfundar á því hvað honum finnist um auglýsingar Símans (og SkjáBíó) - eins brennandi þjóðfélagsmál og það nú er að bera slíkt á borð fyrir lesendur Fréttablaðsins á leiðaraopnu.

Nú er ástæðulaust fyrir mig að amast yfir því við mann út í bæ að auglýsingar fyrirtækisins sem ég vinn hjá falli honum misvel í geð. Auglýsingar eru mismunandi og fólk er mismunandi. Það sem einum finnst fagurt finnst öðrum ljótt. Það sem einum finnst hin besta skemmtun finnst öðrum vera ómenning hin versta. Og komum við þar að kjarna málsins sem virðist fara algjörlega framhjá Guðmundi Andra um hvað Síminn hefur að bjóða.

Brautryðjandi tækni Símans og þjónusta á borð við SkjárBíó gefur fólki einmitt kost á því að velja. Velja að horfa á það sjónvarpsefni sem því sjálfu finnst skemmtilegt eða fróðlegt þegar því hentar. Þvert á það sem Guðmundur Andri virðist ætla býður SkjárBíó ekki einvörðungu upp á nýjar myndir frá Hollywood (t.a.m. Batman, eða annað sem sumum þykir forheimskandi en öðrum þykir frábær skemmtun) heldur einnig upp á fjölmargar heimildarmyndir (sem sumum finnast áhugaverðar en öðrum drepleiðinlegar), bíómyndir frá sk. óháðum framleiðendum (Fjalakötturinn), íslenskar myndir og svona mætti lengi telja. Auk þessa er mikið efni sem ekki þarf að greiða sérstaklega fyrir s.s. barnaefni, fréttir og viðtalsþættir af íslenskum sjónvarpsstöðvum. Allt þetta og margt fleira þegar þér hentar, eins og sagt er í auglýsingunni.

on demand collage

Að SkjárBíó skuli í auglýsingu velja að nota grænlenska dýralífsmynd (eða eitthvað álíka) sem dæmi um "leiðinlegt sjónvarpsefni" er fremur vísbending um það til hvaða markhóps auglýsingunni er beint en að um sé að ræða "tilskipun Símans um það hvað sé leiðinlegt", eins og Guðmundur Andri virðist telja. Nú er nokkuð langt um liðið síðan útvarp og sjónvarp var gefið frjálst á Íslandi og landsmenn þurfa í minna mæli en áður að búa við tilskipanir og miðstýringu á því hvað skuli borið á borð í fjölmiðlum. Sjónvarp Símans er miklu fremur liður í því að auka valfrelsi fólks í þessum efnum og ætti Guðmundur Andri því ekki þurfa að hafa áhyggjur af því að tilskipanir um sjónvarpsáhorf séu væntanlegar úr þeirri átt (hvernig svo sem miðstýringargleði annarra líður).

Nú er Guðmundur Andri Thorsson ekki einhver maður út í bæ að viðra illa rökstuddar skoðanir sínar á bloggsíðu sem fáir skoða - nóg framboð er af slíku frá minni spámönnum. Það ætti að vera pistlahöfundi sem skrifað hefur greinar og pistla nær samfellt frá 1980 ljóst að margir taka mark á því sem þeir lesa og sjá í fjölmiðlum þótt væntanlega hafi augu margra opnast fyrir því að fjölmiðlafólk er eins og annað fólk með skoðanir og hagsmuni sem kunna að þvælast fyrir "fagmennsku" þeirra, eins og lesa má um í bókunum Fjölmiðlar.

Ég tel Guðmund Andra í pistli sínum hafa farið heldur óvarlega með það vald sem hann hefur í krafti þess að fá pistla sína birta á leiðaraopnu í einu mest lesna dagblaði landsins og að ekki sé til of mikils mælst að hann gæti sanngirnis og hugi að staðreyndum áður en hann með með stílbrögðum vegur að fyrirtækjum og starfsheiðri fólks.

 

Nokkrar rangfærslur í grein Guðmundar Andra Thorssonar

  1. Síminn á framfæri ríkisins? Að minnsta kosti vafinn í bómull.
    Síminn er ekki á framfæri ríkisins. Ólíkt mörgum öðrum fyrirtækjum í geiranum er rekstur Símans góður og fjárflæði gott. Samdráttur er þegar orðinn í flestum þáttum atvinnulífs og fer Síminn ekki varhluta af því. Óvissa er um gengismál, gjaldeyrishöft, gjaldeyrisskiptasamninga og ýmis önnur atriði sem hafa áhrif á flestöll íslensk fyrirtæki en ekki er með neinu móti hægt að halda því fram með rökum að Síminn sé á framfæri ríkisins.
     
  2. Einokunarfyrirtæki í þykjustu samkeppni (málamyndasamkeppni).
    Síminn er í mjög svo raunverulegri og virkri samkeppni á öllum mörkuðum sem fyrirtækið starfar á. Nokkur fyrirtæki reka eigin fjarskiptakerfi auk þess sem fleiri þjónustuaðilar nýta sér fjarskiptakerfi þessara fyrirtækja (í heildsölu) til að bjóða þjónustu (í smásölu). Síminn er því hvorki með formlega né de-facto einokun á þeim mörkuðum sem fyrirtækið starfar á. Sá hluti fjarskiptakerfisins sem skilgreina má sem "náttúrulega einokun" (og samanstendur af passívum fjarskiptainnviðum s.s. ljósleiðurum, koparheimtaugum o.þ.h.) er í eigu Mílu og er verðlagningu og aðgengi að þessum hluta fjarskiptakerfa landsins stýrt af Póst- og fjarskiptastofnun skv. lögum þar sem jafnt aðgengi allra er tryggt.
  3. Rukkar býsna hátt gjald fyrir þjónustu sem enginn veit hvað kostar.
    Þessi stutta setning felur í sér staðhæfingar sem sem reyndar er ómögulegt að sannreyna en eru þó báðar rangar að mínum dómi.

    Annars vegar er það staðhæfingin um að verð á þjónustu Símans sé "býsna hátt": Þetta er vitanlega afstætt. Ef borið er saman við verð í OECD ríkjum er áhrifamesta breytan í þeim samanburði gengisskráning íslensku krónunnar. Þegar gengi ISK var (of) hátt skráð (2002-2006) var þjónustan dýrari en víða annars staðar á meðan þjónustan er mjög ódýr núna miðað við gengisskráningu undanfarinna mánaða.

    Samanburður á verði milli fjarskiptafyrirtækja á Íslandi er flókin enda þarf að bera saman upphafsverð, mínútuverð, hringimynstur og lúkningargjöld milli fyrirtækjanna svo nokkuð sé nefnt til að samanburðurinn sé marktækur en ekki tóm auglýsingamennska um ókeypis hitt og þetta eins og sum fyrirtæki hafa komist upp með að bera á borð fyrir neytendur. Teliegen er óháður erlendur rannsóknaraðili sem ber saman kostnað við fjarskiptaþjónustu í fjölmörgum löndum. Niðurstöður þeirra eru afgerandi, að sk.  "Betri leiðir" Símans væru ódýrasta farsímaþjónustan sem völ var á árið  2007 og 2008. Á sama tíma auglýstu samkeppnisaðilar Símans "sína"  útgáfu af raunveruleikanum um "lægsta verðið", ókeypis eða fríkeypis þótt flestum mætti vera ljóst að ekkert af veraldlegum gæðum sé ókeypis.

    Hins vegar er það staðhæfingin um að engi viti hvað þjónustan kosti: Ég þekki ekki til annarra viðskiptageira sem hafa viðlíka kostnaðareftirlit og lagt er á Símann vegna markaðsráðandi stöðu fyrirtækisins, alþjónustukvaðar og fleiri þátta sem ríkið leggur á fyrirtækið. Lögboðin krafa er um kostnaðarlegan aðskilnað og fara æði mörg ársverk hjá eftirlitsaðilum sem og Símanum í að sannreyna að verðlagning sé í samræmi við lög og reglur.
     
  4. Auglýsing Símans segir eitthvað sem "var víst ekki einu sinni satt".
    Erfitt er að átta sig á því hvað Guðmundur Andri er að fara með þessari óskýru og órökstuddu staðhæfingu.
     
  5. Auglýsingin óhemju dýr.
    Guðmundur Andri veit alveg örugglega ekki hvað umræddar auglýsingar kostuðu Símann. Eitt er þó víst: ef öll fyrirtæki landsins hætta að hreyfa sig verða neikvæð margfeldisáhrif samdráttarins þeim mun meiri auk þess sem fyrirtæki sem á í harðri samkeppni, líkt og Síminn, hefur ekki efni á að sitja með hendur í skauti og vera áhorfandi í eigin örlagadansi.

Fyrir þá sem ekki hafa séð auglýsingu Símans sem virðast hafa verið kveikjan að pistli Guðmundar Andra á leiðaraopnu Fréttablaðsins þá er hún hér að neðan.





Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Öld sýndarmennskunnar

Gamall vinur minn auglýsti á Facebook um daginn eftir Íslendingum sem vildu sömu seðlabankastjórn áfram. Það er skemmst frá því að segja að engin gaf sig fram. Að minnsta kosti ekki fyrr en ég fór að malda í móinn. Út úr þessu spunnust vangaveltur sem ég vil deila með lesanda þessa bloggs.

Andrúmsloftið og töfrabrögðin

Þetta var vikuna sem stjórnin féll. Hávær umræða var í fjölmiðlum um að ástæðuna fyrir stjórnarslitum væri að finna í Seðlabankanum. Því miður var ekki eingöngu um eiginlega umræðu að ræða eða friðsamleg mótmæli (sem er sjálfsagður réttur fólks í lýðræðisþjóðfélagi) heldur virtist allstór hópur vilja koma skoðunum sínum á framfæri með því að kasta eggjum, tómötum, grjóti og saur að lögreglumönnumvið skyldustörf. Það var sorglegt og skammarlegt að horfa upp á það. Einnig bitnaði þessi ófögnuður og ofbeldi á nokkrum af elstu og merkilegustu byggingum landsins.

Í þessu andrúmslofti og í fjarveru Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur lyppaðist þingflokkur Samfylkingarinnar niður. Vikum saman hafði Samfylkingin krafist þess að Sjálfstæðisflokkurinn tæki aðild að Evrópusambandinu upp sem stefnumál - ella væri stjórnarsamstarfinu sjálfhætt (þeim afarkostum hefur Samfylkingin reyndar pakkað niður í minnihlutastjórn með VG).

Þar sem áhugi íslensku þjóðarinnar á aðild að Evrópusambandinu virtist fara dvínandi þurfti Samfylkingin að reyna annað "töfrabragð" til  þess að leysa þjóðina úr kreppunni miklu. Bragð sem einnig hefur verið talið líklegt til vinsælda: að koma Davíð Oddssyni út úr Seðlabankanum; einnig þekkt undir frasanum, að skipta um yfirstjórn Seðlabankans, að auka trúverðugleika Seðlabankans, að tryggja fagleg vinnubrögð í Seðlabankanum - eða eitthvað annað flúr til að lýsa sama gjörningnum. Gjörningi sem næst á eftir fullveldisframsali til Brussel er mikilvægasta skref í endurreisn hins nýja Íslands, ef marka má Samfylkinguna.

Stjórnsýsluvald og reyksprengjur 

Þessa dagana vinnur hin nýja ríkisstjórn Íslands að því að bola embættismönnum í stjórn Seðlabankans út með aðferðum varla geta talist vönduð stjórnsýsla og einhverntímann hefði verið slegið upp í fjölmiðlum sem aðför að sjálfstæði bankans. Jafnframt undirbýr forsætisráðherra þjóðarinnar breytingar á lögum um Seðlabankann sem m.a. segja til um að bankastjóri skuli vera með meistaragráðu í hagfræði! Væntanlega til að tryggja fagleg vinnubrögð.

leftrightÞað verður ekki hjá því komist að sjá kaldhæðnina í því að forsætisráðherra, sem skv. vef Alþingis er með verslunarpróf VÍ (1960), auk þess að hafa starfsreynslu sem flugfreyja hjá Loftleiðum (1962-1971) og skrifstofumaður í Kassagerð Reykjavíkur (1971-1978), áður en hún tók sæti á Alþingi, skuli standa fyrir slíkum lögum.

Ekki svo að skilja að eitthvað sé athugavert við menntun og reynslu forsætisráðherra - það tel ég alls ekki vera.

En hvernig sem menntunarstigi og "fag-idioti" Stjórnarráðsins líður þá er líklega stutt í að Davíð og co. yfirgefi Seðlabankann (við nokkur fagnaðarlæti sumra og örugglega án mótmæla BSRB).

Davíð út... ...hvað svo? 

Þá er stóra spurningin hversu fljótt fólk áttar sig á því að vandamál þjóðarinnar byrja hvorki né enda á Davíð Oddssyni...  ...heldur einhverju allt öðru.

Með því að láta að því liggja að grundvallar orsakir bankahrunsins liggi í yfirstjórn Seðlabankans og að lausn efnahagskreppunnar felist með einhverjum hætti í skipuritsbreytingu þar á bæ er í hæsta máta óábyrgt. Hvort hin nýja ríkistjórn er vísivitandi að slá ryki í augu almennings með lítilmótlegum en vinsælum mannfórnum eða hvort ríkistjórnin hafi ekki minnsta grun um hvernig þjóðin eigi að vinna sig út úr ógöngunum, er erfitt að segja. Hvort tveggja er líklegast því miður tilfellið.

Þeir sem töldu skipulagsbreytingu í Seðlabankanum vera hið brýnasta verk hafa gjarnan "rökstutt" mál sitt með því að þar á bæ vantaði mjög uppá fagleg vinnubrögð, þekkingu, menntun og fleira í þeim dúr sem snýr að formlegum hæfniskröfum. 

Nú eru tveir af þremur bankastjórum Seðlabankans hagfæðingar - Ingimundur Friðriksson er þjóðhagfræðingur og Eiríkur Guðnason hagfræðingur - á meðan Davíð Oddson er lögfræðingur með einhverja reynslu af stjórnunarstörfum. Reynslu sem a.m.k. Göran Person þótti einhvers virði. Þar að auki vinna fleiri hagfræðingar í bankanum en ég hef tölu á þannig að ekki skortir fræðimennskuna eða hina rómuðu "fagmennsku" sem æði margir eru uppteknir af. Hagfræði er þar að auki fræðigrein þar sem nokkuð margir og ólíkir skólar takast á um hvað snúi upp og niður í heimi hagfræðinnar, hegðun mannsins o.fl.

Fyrir utan lítt rökstuddar dylgjur um formlegar hæfniskröfur eru mistök bankastjórnar Seðlabankans ekki augljósar og jafnvel vandfundnar enda ku Jóhanna Sigurðardóttir ekki hafa gert athugasemdir við peningastjórn Seðlabankans í fyrri ríkisstjórn.    

Engu að síður má færa ágæt rök fyrir því að sumt af því sem Davíð Oddsson hefur sagt undanfarna mánuði hafi ekki verið hjálplegt, verið illa tímasett, ekki verið hans að segja o.s.frv. og að því sé það ekki fráleit krafa að hann víki. Að gera þá kröfu að meginþema endurreisnarinnar, eins og sumir hafa gert, drepur málunum á dreif og er til þess fallið að draga athyglina frá hinum raunverulegu vandamálum.

Af hverju ekki?

Tvær ástæður eru fyrir því að ég tek ekkert sérstaklega undir þá kröfu að stjórn Seðlabankans þurfi að víkja:

Í fyrsta lagi blasir það við að Davíð Oddsson hefur í mörg ár ekki notið sannmælis í íslenskum fjölmiðlum. Ótal dæmi úr s.k. Baugsmiðlum í gengum tíðina eru til vitnis um mjög rækilega og árangursríka áróðursherferð gegn Davíð, sem líklega hefur litað mjög afstöðu almennings til hans í seinni tíð. Davíð hefur vart mátt mæla orð utan heimilis síns án þess að fjölmiðlar snúi því og túlki á versta veg á meðan t.a.m. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kemst upp með að grípa fram í fyrir Forseta Íslands með mjög hrokafullum hætti án þess að hósti eða stuna heyrist í fjölmiðlum (ég man ekki eftir öðrum en Andríki sem tóku það atvik til umfjöllunar). Krafan um að Davíð skuli víkja úr Seðlabankanum hefur því óneitanlega yfirbragð pólitískrar hefnigirni og lýðskrums.

Í öðru lagi (og öllu mikilvægara) tel ég brotthvarf Davíðs úr Seðlabankanum einfaldlega ekki til gagns til að vinna þjóðina út úr þeim vanda sem hún er í. Okkur væri nær að huga að hver rót efnahagshrunsins er og vinna í úrbótum á þeim grundvelli fremur en að búa til pólitíska reyksprengju úr Davíð Oddssyni.

Mögulegar rætur vandans að mínu mati gætu verið:

  1. Exponential Money - m.ö.ö viðvarandi peningaflóð vegna þess hvernig nútíma peningakerfi eru í eðli sínu (sjá nánar neðst í þessari færslu).
  2. Ríkisábyrgð á bankastarfsemi - bankarnir hér heima fengu allt að 'AAA rating' þegar best (les: verst) lét. Við þær aðstæður þurfa lánveitendur ekki að huga að í hvað lánsfé fer heldur reiða sig eingöngu á það að skattgreiðendur muni borga brúsann ef illa fer. Til áréttingar þá er þetta er ekki frjálshyggja (eða "nýfrjálshyggja" sem líka er mjög vinsæll blóraböggull).
  3. Falskt öryggi eftirlitsiðnaðarins - (sem er nær því að vera áhugamannasamfélag um eftirlit)
  4. Peningagræðgi mannsins - (þetta er eitt af því fáa sem vinstrimenn hafa ekki fengið algjörlega  'galt i halsen')

    [hver af ofangreindum punktum er verðugt efni í bloggfærslur og doktorsritgerðir]

Svona mætti sjálfsagt lengi telja áður en röðin kemur að Davíð og co. í Seðlabankanum.

En "fólkið" vill sjá mannfórnir og nú er ný ríkisstjórn Íslands einmitt um það bil að verða við þeirri "ósk" í von um að vinsældir ríkisstjórnarinnar aukist. Um leið göngum við inn í öld sýndarmennskunnar.

Skipt um rúðuþurrkur 

Svo ég leyfi mér að grípa til myndlíkingar, þá er þetta svipað og vera í rútu sem er um það bil að hrapa niður í hyldjúpt gil. Í stað þess að rétta kúrsinn, skipta um rútu eða gera eitthvað annað sem forðar farþegum frá stórslysi ákveður bílstjórinn að skipta um rúðuþurrkur og hækka í útvarpinu. 

Hér að neðan er fyrirlestur Chris Martenson, Crash Course, þar sem gerð er mjög áhugaverð og vel rökstudd tilraun til að útskýra það sem er að gerast í efnahagskerfi heimsins í dag. Það kann að koma sumum á óvart, en Davíð Oddsson kemur hvergi við sögu í þessum fyrirlestri.


mbl.is Pólitískar hreinsanir og ofsóknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til varnar Ísrael

Það er átakanlegt að fylgjast með fréttum frá Gasa og Ísrael þessa dagana þar sem saklausum fórnarlömbum ofbeldis og öfgahyggju fjölgar með degi hverjum. Myndir af særðum og látnum berast heim í stofur fólks um allan heim. Fólk er forviða, hneykslað og fyllist reiði og spyr hvernig Ísraelsmenn, sem ekki hafa farið varhluta af ofsóknum í gegnum tíðina, geta staðið fyrir árásum sem hafa slíkar hörmungar í för með sér fyrir saklaust fólk.

goldaAf þessum sökum eru æði margir reiðubúnir til að fordæma Ísrael, krefjast viðskiptaþvingana og að stjórnmálasamskiptum við Ísrael skuli slitið til að knýja Ísraelsmenn til að hætta árásum á Gasa. Þótt þær tilfinningar sem búa að baki slíkum kröfum séu skiljanlegar verður að hafa í huga hvaða afleiðingar slík fordæming og einhliða kröfugerð hefur. Í raun getur slíkt lagt líf enn fleiri saklausra borgara hættu - bæði á Gasa og í Ísrael - enda gengur baráttuaðferð Hamas einmitt út á að stuðla að og nýta sér dauða almennra borgara og hörmungar þeirra. 

CNN strategían 

Hamas-liðar kalla þessa ógeðfelldu aðferð sína "CNN aðferðina" og setur hún Ísraelsmenn í óhemju erfiða og flókna stöðu sem lýsa má sem siðferðilegu öngstræti enda ekki óeðlilegt að gera meiri siðferðislegar kröfur til Ísraelsmanna en til Hamas.

CNN aðferð Hamas gengur út á að skjóta flugskeytum frá borgaralegum svæðum á Gasa (leikskólum, skólum, sjúkrahúsum, íbúðarsvæðum o.s.frv.) á borgaraleg svæði í Ísrael og ögra þannig Ísraelsmönum til að taka til varna og svara árásunum. Í stað þess að byggja neðanjarðarbirgi til að forða Palestínskum almenningi frá gagnárásum Ísraelsmanna stuðla Hamas liðar að því með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi að sem flestir almennir Palestínumenn verði fyrir sprengjum Ísraelsmanna og sjá til þess að myndir náist af blóðugum fórnarlömbum og að slíkar myndir berist heim í stofu í þeim tilgangi að vekja viðbrögð fólks. Tvöfaldur glæpur Hamas felst í því að fela sig og árásarvopn sín á bak við óbreytta borgara og vísvitandi beina vopnum sínum að óbreyttum borgurum. Til að bæta gráu ofan á svart hefur Hamas sett upp sprengjugildrur á Gasa m.a. í skólum til að auka enn á mannfall saklausra borgara (eins og m.a. er sýnt fram á í þessu myndskeiði) en mjög sjaldan er greint frá þessum hlutum í fjölmiðlum og litar það vissulega afstöðu fólks.  

Þessi djöfullega strategía Hamas virkar og viðbrögðin láta ekki á sér standa. Í stað þess að varpa ábyrgðinni á Hamas eru viðbrögðin mótmæli og fordæming á aðgerðum Ísraels - viðbrögð sem eru til þess fallin gera Hamas kleift að halda áfram - af fullkomnu skeytingarleysi fyrir lífi saklausra einstaklinga - að fylgja eftir markmiði sínu um eyðingu Ísraelsríkis og ná á sitt vald öllu landsvæði frá Jórdan til Miðjarðarhafs.

(Hamas hefur reyndar tekið út markmið um "eyðingu Ísraels" úr samþykktum sínum og heldur því gjarnan fram í vestrænum fjölmiðlum að krafan þeirra sé að horfið verði aftur til landamæraskipan frá 1967 en eins og fram kemur í þessum og öðrum viðtölum við Hamas er markmiðið enn landið allt sem skilur ekki eftir pláss fyrir Ísrael.)

Hér að neðan er myndband sem sýnir hvernig Hamas lætur sér ekki nægja að skjóta eldflaugum í skjóli almennra borgara heldur smalar saman fólki til að mynda "mannlegan skjöld" utan um hús sem þeir nota í hernaðarlegum tilgangi eftir að  Ísraelsmenn hafa varað íbúa við að yfirvofandi sé árás á húsið (til að forðast fall almennra borgara).

Ísraelsk yfirvöld hafa m.a. gefið út þessa skýrslu til að lýsa því sem þeir kalla "Hamas Exploitation of Civilians as Human Shields". Og Hamas lýsa því stoltir að dauði sé orðinn að iðnaði hjá Palestínumönnum!

Markmið Hamas 

Margvíslegar heimildir eru til sem lýsa hugmyndafræði, markmiðum og starfsaðferðum Hamas sem því miður benda til að engar líkur séu til þess að samtökin séu tilbúin í varanlegan frið við Ísrael. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér þessi mál geta leitað sér heimilda á netinu. Gagnleg fréttaveita um málefni Miðausturlanda er MEMRI (The Middle East Media Research Institute) sem safnar og þýðir á ensku sjónvarpsefni frá þessum heimsluta.

Meðal efnis sem þar er að finna er viðtal við Mus'ab Hassan Yousef, sem er sonur eins af stofnendum Hamas (Sheik Hassan Yousef sem er leiðtogi Hamas á Vesturbakkanum). Yousef sem í dag hefur snúið baki við Hamas og föður sínum (og tekið kristna trú) veitir fágæta innsýn inn í heim Hamas. Í viðtalinu, sem sýnt var í kýpversku sjónvarpi í ágúst 2008, lýsir hann m.a. upplifun sinni af því að dvelja í ísraelsku fangelsi fyrir Palestínumenn þar sem Hamas kerfisbundið stóð fyrir pyntingum á eigin fólki sem m.a. leiddi til dauða fjölmargra fanga.

Viðtalið er hér að neðan (sjá transcript hér):

Í viðtali við ísraelska dagblaðið Haaretz segir Mus'ab Hassan Yousef jafnframt:

You Jews should be aware: You will never, but never have peace with Hamas. Islam, as the ideology that guides them, will not allow them to achieve a peace agreement with the Jews. They believe that tradition says that the Prophet Mohammed fought against the Jews and that therefore they must continue to fight them to the death.

Ég minni aftur á að þetta segir palestínskur maður sem er alinn upp í íslamskri trú, sonur stofnanda Hamas og ætti því að hafa ágætar forsendur til að halda þessu fram.

Stríðsreglur og "lögmæt" skotmörk

Ljóst að Ísraelsmenn hafa þurft frá stofnun ríkisins þurft að verja sig fyrir árásum frá nágrönnum sínum. Það hafa þeir gert með ýmsum leiðum sem án vafa er hægt að gagnrýna enda ljóst að stríð  fela í sér dauða og hörmungar og bitna iðulega á saklausu fólki. Stríð felur í sér ofbeldi og eru í eðli sínu ógeðsleg en hafa engu að síður fylgt manninum lengi. Í gegnum tíðina hafa verið settar „reglur“ (t.a.m. Haag-sáttmálinn, Genfarsáttmálarnir o.fl.) um hvernig stríð skuli háð (eins fáránlegt og það kann að hljóma). Slíkar reglur kveða á um hvaða vopn má nota, hvaða skotmörk eru "lögmæt" í stríði og fleira. Skólar, bænahús og sjúkrahús eru augljóslega ekki „lögmæt“ skotmörk og því eðlilegt að fólk spyrji sig hvernig standi á því að Ísraelsmenn beini vopnum sínum á þessa staði. Ástæðan er sú að þegar Hamas liðar nota þessa staði til vopnaframleiðslu, sem skotpalla eða í öðrum hernaðarlegum tilgangi í skjóli borgaranna breytast þessir staðir í „lögmæt hernaðarleg skotmörk“! Ábyrgðin á því liggur því augljóslega hjá Hamas.

Varanlegur friður eða "vopnahlé"

Tímabundin vopnahlé eru hluti af taktík Hamas. Ekki sem leið til að leita sátta og finna leið til varanlegs friðar við Ísraelsmenn enda er varanlegur friður ekki hluti af markmiðurm Hamas. Hamasliðar nýta „vopnahlé“ bókstaflega til að ná vopnum sínum sem þeir smygla frá Íran. Íran, sem er bæði hugmyndafræðilegur, fjárhagslegur og hernaðarlegur bakhjarl Hamas, fer nefnilega ekki heldur í felur með að lokatakmark þeirra er eyðing Ísraelsríkis.

Mikilsvert er að fjölmiðlar, almenningur og ráðamenn hugi vel að sér og skoði vandlega eðli og ástæður átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs áður en menn kveða upp dóm í þessu mikilsverða máli. Markmiðið verður að vera að þeir sem sannarlega vilja lifa í friði til frambúðar og virða trúfrelsi nágranna sinna sé gert kleift að gera það.

Til þess að það sé hægt verður að ráða niðurlögum þeirra afla sem ekki vilja frið.


Lýðræði - skrifræði - alræði

Ég held að við getum fastlega búist við því að Írar fái að kjósa um þetta þangað til þeir kjósa "rétt" - þ.e. segi já við endanlegu fullveldisframsali í hendur Brussel.

Eins og Hjörtur J Guðmundsson greinir frá í þessari færslu hefur Vaclav Klaus fengið að finna fyrir innilegri lýðræðisást þeirra sem stjórna Evrópusambandinu í raun þegar þeir heimsóttu hann í forsetahöllinni á dögunum. Klaus hefur greinilega ofboðið yfirgangurinn þegar hann beinir eftirfarandi orðum til gesta sinna:

Ég vil þakka ykkur fyrir þá reynslu sem ég hef aflað mér af þessum fundi. Ég hélt að svona lagað væri ekki mögulegt og hef ekki ekki upplifað nokkuð þessu líkt síðastliðin 19 ár. Ég hélt að svona lagað tilheyrði fortíðinni þar sem við búum nú við lýðræði, en lýðræðið hefur runnið sitt skeið á enda í stjórnun Evrópusambandsins.

...

Hvað Lissabon-sáttmálann varðar þá langar mig að minna á að hann hefur ekki heldur verið staðfestur í Þýzkalandi. Stjórnarskrá Evrópusambandsins, sem er í öllum grundvallaratriðum hin sama og Lissabon-sáttmálinn, var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslum í tveimur löndum. Ef herra Crowley vill tala um móðgun við írsku þjóðina þá verð ég að segja að stærsta móðgunin við hana er að samþykkja ekki niðurstöður írska þjóðaratkvæðisins. Á Írlandi hitti ég mann sem er fulltrúi meirihlutans í heimalandi sínu. Þú, herra Crowley, ert fulltrúi sjónarmiðs sem er í minnihluta á Írlandi. Það er óumdeilt niðurstaða þjóðaratkvæðisins.

Vil hvetja (báða) lesendur þessa bloggs til að kynna sér blogg Hjartar

Ætli sé ekki best að ljúka þessu með mynd af einu af mörgum málverkum sem gerð hafa verið um goðsögnina um nauðgun Evrópu.

 abduction

 


mbl.is Írar sagðir reiðubúnir að kjósa á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framburði breytt eða rangt haft eftir

Í Kastljósi í gærkvöldi var því haldið fram að Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hefði ekki haft vitneskju um að endurskoðunarfyrirtækið KPMG kæmi að rannsókn á Glitni. Þetta kom fram í inngangi Þórhalls Gunnarssonar, ritstjóra Kastljóssins og einnig í innslagi Þóru Tómasdóttur auk þess sem Lúðvík Bergvinsson, þingmaður og samflokksmaður viðskiptaráðherra lýsti því yfir að hann tryði því að viðskiptaráðherra hefði ekki haft þessa vitneskju. 

MBL hafði einnig eftir viðskiptaráðherra að hann "vissi ekki fyrr en í gær [mánudaginn 8. desember] að fyrirtækið KPMG hefði verið fengið til þess að sinna verkefnum fyrir skilanefnd gamla Glitnis". Óhætt er að segja að þetta hafi vakið undrun og reiði margra.

 Björgvin vissi...

Í síðari frétt á MBL var því haldið fram að viðskiptaráðherra hefði reyndar vitað af því að það væri einmitt KPMG sem hefði verið fengið til þess að sinna verkefnum fyrir skilanefnd gamla Glitnis en að hann hefði ekki frétt fyrr en nýlega að um hagsmunaárekstra væri að ræða.

Bjögvin vissi ekki...

Miðað við þetta kemur aðeins tvennt til greina: 

Annað hvort hefur Kastljós fengið málið fullkomlega "galt i halsen" og hermir ranglega eftir viðskiptaráðherra í umfjöllun sinni á þriðjudagskvöldið. Viðskiptaráðherra getur þá í versta falli verið sakaður um að koma af fjöllum og vita ekki hvað er að gerast í því umhverfi sem hann ætti að vera vel heima í. Kastljós og Þórhallur Gunnarsson (sem ábyrgðarmaður) ættu þá að minnsta kosti að gera grein fyrir þessum mistökum, leiðrétta þau og jafnvel biðjast afsökunar.

Hinn möguleikinn er auðvitað sá að Kastjós hafi haft rétt eftir viðskiptaráðherra sem síðan hafi ákveðið að breyta framburði sínum til að líta ekki alveg jafn illa út og vonast nú eftir því að fjölmiðlar fylgi málinu ekki eftir.

Í báðum tilfellum ætti Kastjós, og aðrir fjölmiðlar sem reyna að stunda annað en grímulausa hagsmunagæslu fyrir eigendur sína, að fylgja málinu eftir.


mbl.is Björgvin vissi af rannsókn KPMG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ayn Rand með orð í tíma töluð (1959)

Þessa dagana er ég að lesa bókina The Fountainhead, eftir bandaríska rithöfundinn Ayn Rand. Nú á tímum  efnahagslegs hruns og undarlegheita af ýmsum gerðum er lag að synda aðeins á móti straumnum (sem þessa dagana virðist bera okkur í áttina að enn flóknara regluverki og ríkisafskiptum) og rifja upp hvað Ayn Rand hafði um málið að segja:

A free economy will not break down. All depressions are caused by government interference. And the cure is always offered, so far, to take more of the poisons that caused the disaster. 

Þessi orð lét Ayn Rand falla í viðtali við Mike Wallace á CBS árið 1959. Ayn Rand, sem var rússneskur innflytjandi, er þarna í sínu fyrsta viðtali. Ekki mjög "slick", með sterkan rússneskan hreim og skakkar tennur (kæmist ekki hálfa leið í forkosningum í dag). En hugsunin er skörp og boðskapurinn klassískur og á einkar vel við í dag sem mótvægi við það meðal sem verið er að gefa sárlösnum efnahagskerfum heimsins - ómælt magn af nýprentuðum peningum úr seðlabönkum heimsins á kostnað almennings - það er einmitt sama meðalið og olli hruninu!

Hér að neðan er brot úr ofangreindu viðtali. (Tilvitnunin hér að ofan er ca. 5 min. inn í klippinu.)  



Takið eftir sígarettureyknum frá eitursvölum Mike Wallace og litlu handtöskunni við hlið Ayn Rand. Ekki alveg eins og maður á að venjast í sjónvarpi í dag.

Beilátið mikla

Þegar mesta æðið rennur af þeim sem telja mannfórnir, upplausn þings og afsal fullveldis vera vænlega lausn á efnahagsvanda Íslands kemur væntanlega að því að ræða þurfi málefnalega um þá eðlislægu galla sem margt bendir til að séu á núverandi "kerfi" peningamála, efnahagsstjórnunar og lýðræðis.

Í Bandaríkjunum eru menn þessa dagana að setja ný met í fjáraustri enda virðast sumir í alvörunni trúa því að lausnin á kredit-bólunni sé enn meira kredit! Nokkurskonar "fightin' fire with fire" eins og Talking Heads sungu um í Burning Down the House.

Ég hef miklar efasemdir um að ráðlegt og mögulegt sé að vinna gegn offramboði á peningum (og tilheyrandi lánaflóði til og yfirverði á eignum)  með enn meira framboði á peningum. Ron Paul er einn af fáum pólitíkusum í USA sem gerir athugasemd við þetta töfrabragð:    

The updated total bailout commitments add up to over $8 trillion now. This translates into a monetary base increase of 75 percent over the last two months. This money does not come from some rainy day fund tucked away in the budget somewhere – it is created from thin air, and devalues every dollar in circulation. Dumping money on an economy, as they have been doing, is not the same as dumping wealth. In fact, it has quite the opposite effect.

Taumlaus peningaprentun fer reyndar fram víðar en í Bandaríkjunum þessa dagana. Í Bretlandi er pakkinn upp á litlar 500 milljarða punda. Hver skyldi nú fá heiðurinn af því að borga það?

17-oct-4

Vonandi er vandamálið ekki of stórt og of augljóst til að fólk komi auga á það.

 


Absúrd Brown og Gimsteinn Medínu

Skömmu áður en stórmennið og forsætisráðherra Breta, Gordon Brown, setti nokkra stórhættulega íslenska aðila á lista yfir hryðjuverkasamtök sendi hann múslímum í Kúvæt kveðju í tilefni af Ramadan, föstumánuði múslíma. Eins og höfundar myndbandsins hér að neðan (frá Council of Ex-Muslims of Britain
http://www.ex-muslim.org.uk) færa rök fyrir er kveðja Brown gagnrýniverð í sjálfu sér, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Sett í samhengi við aðgerðir forsætisráðherrans gagnvart Íslendingum er kveðja Gordon Brown absúrd! 

Í myndbandinu er það nefnt í framhjáhlaupi að útgáfufyrirtækið Random House hafi nýlega þurft að hætta við útgáfu skáldsögunnar The Jewel of Medina eftir Sherry Jones, af hræðslu við að bókin, sem fjallar um barnunga eiginkonu Múhameðs spámanns, kynni að verða kveikja að ofbeldisverkum múslíma.

Það minnti mig á að í dag var frá því greint í fjölmiðlum að Auður Jónsdóttir, rithöfundur og skólasystir mín úr MA, hefði gert stóran útgáfusamning við Random House í Þýskalandi. Auður þarf þá bara að passa sig á því að velja ekki röng viðfangsefni í bókum sínum ef hún gerir sér von um að fá þær útgefnar hjá forlaginu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband